Concrete Corporation hefur sent frá sér nýjustu smáskífuna sína, „You feel it too“. Þetta er þriðja lag sveitarinnar á þremur mánuðum og stefnir hún að því að gefa út þrjú til fjögur lög til viðbótar á næstu mánuðum, helst með mánaðar millibili.
Lagið var tekið upp á seinni hluta ársins 2024 og lauk vinnslu við það í byrjun árs 2025. Að hljómsveitinni standa Hjörtur Sólrúnarson og Jakob Óskar Ólafsson. Þeir semja öll lögin saman – Hjörtur semur tónlistina og leikur á hljóðfærin, á meðan Jakob sér um söng, laglínur og texta.
Hjörtur og Jakob hafa unnið saman að tónlist allt frá árinu 1997 eða 1998, þó með löngum hléum inn á milli. Árið 2021 hófu þeir aftur samstarf sitt af fullum krafti og hafa verið mjög virkir síðan.
Næsta lag Concrete Corporation, „If you go“, er væntanlegt síðar í júlí.