Matvælastofnun berast ýmsar fyrirspurnir varðandi COVID-19 veiruna og dýr. Hér að neðan er listi yfir helstu spurningar og svör við þeim. Stofnunin minnir jafnframt á almennar upplýsingar um veiruna á vef Landlæknis.
Geta húsdýr eða gæludýr smitast af nýju COVID-19 veirunni, og geta þau orðið veik?
Talið er að veiran sé upprunnin í dýrum, líklega leðurblökum en er nú aðlöguð að mönnum og fyrst og fremst lýðheilsuvandamál meðal manna. Engum sjúkdómi eða útskilnaði á þessari veiru hefur verið lýst hjá húsdýrum eða gæludýrum. Matvælastofnun fylgist með þekkingarþróun á þessu sviði.
Ætti fólk sýkt af COVID-19 veirunni að forðast snertingu við dýr?
Ekki hefur verið staðfest að menn geti smitað dýr. Þetta er nýr sjúkdómur og því er hann og smitleiðir hans ekki fullrannsakaðar en nýjar upplýsingar berast stöðugt. Matvælastofnun mælir með að einstaklingar sem eru í sóttkví í heimahúsi og einangrun í heimahúsi takmarki snertingu sína við matvælaframleiðandi dýr.
Geta einstaklingar sem eru smitaðir af COVID-19 veirunni verið í kringum gæludýrin sín?
Það er ástæðulaust fyrir fólk að vera ekki með gæludýrunum sínum og þau geta veitt mikilvægan andlegan stuðning við erfiðar aðstæður. Að þvo hendur eftir snertingu við dýr er góð venja og almennt ætti að forðast að hundar sleiki fólk í andlitið. Það er í lagi að fara út með hundinn að því gefnu að leiðbeiningum varðandi sóttkví í heimahúsi og einangrun í heimahúsi sé fylgt.
Get ég gætt dýra einhvers sem er smitaður af COVID-19 veirunni eða er í sóttkví í heimahúsi?
Já, þú getur gætt gæludýra einstaklinga sem eru í sóttkví eða eru veikir af COVID-19 veirunni, en það þarf samt að gæta fyllsta hreinlætis. Forðast skal að láta gæludýr sleikja andlit eða hendur og ávallt skal þvo hendur eftir snertingu við dýrin.
Getur dýr borið smit frá einum einstaklingi til annars án þess að smitast sjálft?
Þetta er talin vera fræðileg smitleið en ekki þýðingarmikil. Veiran smitast aðallega milli fólks. Ekki er útilokað að dýr geti borið veirur í feldi, húð og slímhúð í nokkurn tíma eftir snertingu við smitandi mann en ekki hefur verið sýnt fram á að dýr skilji út veirur. Það er alltaf mælt með því að þvo hendur eftir snertingu við dýr.
Ætti að gera sérstakar varúðarráðstafanir til að koma í veg fyrir sýkingu í hjálparhundum og leitarhundum í tengslum við COVID-19 veiruna?
Engum sjúkdómi eða veiruútskilnaði hefur verið lýst vegna COVID-19 veirunnar hjá hundum og það er ekki staðfest að hundar geti smitað fólk. Þess vegna eru engar forsendur til að mæla með sérstökum smitvarnarráðstöfunum fyrir hjálparhunda eða leitarhunda. Dýraeigendur ættu almennt að gæta hreinlætis í kringum dýrin sín og forðast að þeir sleiki fólk í andlitið. Það er góð venja að þvo hendur eftir snertingu við dýr.
Ættu hunda- og kattahótel, sýningar, keppnir og aðrir staðir þar sem dýr safnast saman að gera sérstakar varúðarráðstafanir núna þar sem að COVID-19 veiran hefur greinst á Íslandi?
Nei. Eins og staðan er í dag er það ekki nauðsynlegt.
Geta villt dýr á Íslandi verið smituð af COVID-19 veirunni?
Nei, viðkomandi veira er upprunnin í Kína. Hún hefur ekki fundist í villtum dýrum á Íslandi eða öðrum löndum. Sem stendur er ekkert sem bendir til þess að menn geti smitað villt dýr eða húsdýr.
Ætti fólk sem hefur verið á áhættusvæðum að takmarka snertingu við dýr þegar það snýr aftur heim?
Mælst er til þess að þú haldir þig heima í 14 daga eftir að þú fórst frá helstu áhættusvæðum. Fyrir einstaklinga sem eru með matvælaframleiðandi dýr á heimili eða í nálægð við heimili, er mælt með því að takmarka snertingu við slík dýr meðan á sóttkví eða einangrun stendur. Matvælastofnun minnir líka á að einstaklingur sem hefur verið í snertingu við húsdýr erlendis umgangist ekki matvælaframleiðandi dýr á Íslandi fyrstu 48 klukkustundirnar.