Nýjasta dagbókarfærsla Unnar Valborgar Hilmarsdóttur, sveitarstjóra Húnaþings vestra er komin á vefinn.
Dagbók sveitarstjóra hefur þá göngu sína að nýju eftir sumarfrí. Haustið er enda handan við hornið þó tíðin hafi verið einmuna. Ég minnist alltaf orða Ragnars heitins afa míns í Laxárdal í góðri tíða en hann sagði jafnan „okkur hefnist fyrir þetta“ ef veður voru óvenju góð. Vona ég sannarlega að hann hafi ekki rétt fyrir sér og að haust og vetur verði okkur góð.
En sem fyrr þá verður í dagbókarfærslum farið yfir það helsta í liðinni viku. Eins og kostur er verða færslur birtar vikulega eins og undanfarin ár en vera má að í einhverjum tilfellum þegar annir eru miklar verði færslurnar ekki eins tíðar. Það má að minnsta kosti lofa því að færslurnar verði ekki fleiri en vikulegar en stundum færri.
Mánudagur hófst á fundi framkvæmdaráðs þar sem ráðið fór yfir uppsöfnuð mál frá síðasta fundi. Til upprifjunar þá sitja auk sveitarstjóra sviðsstjórar í framkvæmdaráðinu. Að þeim fundi loknum tók við undirbúningur fyrir fund með innviðaráðherra sem var á dagskrá síðar um daginn. Alla jafna hefði átt að vera byggðarráðsfundur eftir hádegið en þar sem lítið lá fyrir var honum frestað. Innviðaráðherra kom við í Ráðhúsinu eftir hádegið á leið sinni á opinn íbúafund á Blönduósi. Á fundinum með sveitarstjórn var farið yfir helstu mál sem á okkur brenna einkum í tengslum við samgöngur. Að fundi loknum fórum við með ráðherra í Kolugljúfur en þangað hafði hann ekki komið og þótti okkur full ástæða til að bæta þar úr.

Magnús Vignir Eðvaldsson, Magnús Magnússon, Eyjólfur Ármannsson, undirrituð og Þorleifur Karl Eggertsson við Kolugljúfur.
Þaðan var haldið á Krúttið á Blönduósi þar sem opni fundurinn fór fram. Þar flutti ráðherra ræðu og Magnús Magnússon formaður byggðarráðs og formaður samgöngunefndar Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra erindi og fór yfir helstu áherslur landshlutans. Í kjölfar framsögu fóru fram líflegar umræður.
Á þriðjudagsmorgni hófust leikar við borholur Hitaveitunnar á Laugarbakka. Sérfræðingar voru þar við viðhald á aðal borholunni sem reyndist í verra standi en gert hafði verið ráð fyrir. Unnu þeir að viðgerð alla vikuna og tókst að koma henni í gott lag. Á meðan var kerfið keyrt á varaholu. Þegar búið var að koma aðal holunni í rekstur að nýju var varaholan einnig skoðuð og reyndist í ágætu ástandi. Kerfið á þá að vera klárt fyrir veturinn en nauðsynlegt er að viðhalda þessum mikilvægu kerfum vel enda liggja í þeim mikil verðmæti, bæði hjá sveitarfélaginu en ekki síður hjá notendum. Að þeirri heimsókn lokinni fundaði ég með sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs og sviðsstjóra umhverfis- veitu- og framkvæmdasviðs. Fórum við yfir stöðu fjárfestingaverkefna. Að þeim fundi loknum settist ég niður ásamt síðarnefndum sviðsstjóra og leiðtoga veitna til að ræða stöðu mála í áhaldahúsi og í veitum. Þarft og gott samtal. Því næst fundaði ég með verkefnisstjóra umhverfismála til að fara yfir ýmis mál, meðal annars starfsáætlun hennar fyrir komandi ár en forstöðumenn vinna nú að áætlunum fyrir sínar stofnanir í tengslum við fjárhagsáætlun komandi árs. Vinna við hana er hafin fyrir nokkru enda nauðsynlegt að vera tímanlega í þeirri vinnu sem er nokkuð flókin og tímafrek. Ferlið við fjárhagsáætlunargerðina er orðið þokkalega vel slípað til hjá okkur. Er unnið eftir skipulögðu ferli sem sett er fram myndrænt hér:

Fundum dagsins var langt frá því lokið. Ég átti næst stuttan fund með lögmanni sveitarfélagsins út af ýmsum málum sem hann er með í vinnslu. Að því loknu ók ég til Borðeyrar þar sem fram fór vinnustofa á vegum sameiningarnefndar Húnaþings vestra og Dalabyggðar. Á fundinn voru boðaðir kjörnir fulltrúar beggja sveitarfélaga, lykilstarfsmenn og fulltrúar úr fastanefndum. Var umræðuefnið kostir og gallar sameiningar sem og mótun framtíðarsýnar fyrir sameinað sveitarfélag. Umræðurnar voru góðar. Almennt voru fundarmenn jákvæðir í garð sameiningar og sáu í henni tækifæri til eflingar stjórnsýslu og bættrar þjónustu við íbúa. Auðvitað felast í sameiningunni áskoranir, eins og miklar vegalengdir en mikilvægt er að fá fram sem flest sjónarmið til að hægt sé að skoða hvernig bregðast má við og draga upp eins raunsanna mynd af kostum og göllum mögulegrar sameiningar. Í sameiningunni felast líka fjölmörg tækifæri til dæmis til eflingar stjórnsýslu sem getur leitt til bættrar þjónustu. Einn af mörgum kostum við sameininguna er sá að vegna vegalengda þá verður ekki þörf á að fara í sársaukafullar sameiningar skóla eða leggja niður ákveðnar gerðir þjónustu á öðrum staðnum. Það er heldur ekki horft á að sameiningin leið til þess að starfsfólki verði fækkað heldur verði hægt að þjónusta íbúa betur með því starfsfólki sem er til staðar og rækja skyldur sveitarfélaganna með enn betri hætti til dæmis með aukinni sérhæfingu starfsmanna. Það má í raun segja að eina starfið sem alveg gefið er að verði lagt niður er annað sveitarstjórastarfið. Það er einboðið að sameiningarsamtalið eigi eftir að bera á góma í dagbókarfærslum oft á komandi vikum og mánuðum en til stendur að kjósa um sameininguna í desember. Þangað til eiga eftir að koma fram upplýsingar sem unnið er að því að draga saman til að íbúar geti tekið upplýsta ákvörðun. Meðal annars verður fljótlega opnuð vefsíðan www.dalhun.is þar sem dregnar verða saman nauðsynlegar upplýsingar. Einnig verða haldnir íbúafundir. Meira um það síðar.
Miðvikudeginum var að mestu varið í skrifborðsvinnu a.m.k. framanaf. Samþykkt á reikningum, yfirferð yfir starfsáætlun fyrir fjármála- og stjórnsýslusviðs, tölvupósta. Einnig fór drjúgur tími í að yfirfara drög að þjónustustefnu sem er á lokametrunum í að verða tilbúin til samráðs. Ég sat einnig fund ráðgefandi nefndar um rannsóknir í ferðaþjónustu sem ég sit sem fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga. Um kvöldmatarleytið hófst svo fundur á vegum SSNV um mótun samskiptastefnu fyrir landshlutann. Gott og gagnlegt spjall um samskipti innan landshlutans og utan, ímynd landshlutans o.s.frv. Meðal annars kom þar fram að fólk nýtir sér dagbók sveitarstjóra til að nálgast upplýsingar og það var ég ánægð að heyra. Ég held því ótrauð áfram með dagbókarskrifin.
Í bítið á fimmtudagsmorgni hélt ég af stað til Reykjavíkur ásamt oddvita til að sitja innviðaþing innviðaráðherra. Þar voru málaflokkar ráðuneytisins til umfjöllunar þar með talið samgöngur og fjarskipti. Var þingið vel sótt og upplýsandi en vinna við nýja samgönguáætlun stendur yfir og sem fyrr þarf að halda áherslum okkar á lofti. Að þingi loknu brunuðum við heim að nýju.
Föstudagsmorguninn hófst á fundi með oddvita og formanni byggðarráðs. Að honum loknum tóku við ýmis verkefni, svo sem starfsmannamál, vinna við starfsáætlun, samþykkt reikninga, tölvupóstar, fréttaskrif fyrir heimasíðu, ýmis mál vegna sameiningarsamtals, samtal við blaðamenn og eitt og annað. Að kvöldi föstudags fór ég svo og naut fallegra tóna í sundlauginni en Klassíkin okkar var leikin þar í beinni útsendingu úr Hörpunni. Það var algerlega magnað að hlusta á stórgóða tónleika í pottunum og lauginni. Ég vil þakka starfsfólki íþróttamiðstöðvarinnar fyrir fyrirhöfnina við að setja upp þennan viðburð en hann var í samvinnu við Sinfóníuna. Alls tóku 30 sundlaugar um land allt þátt.
Á sunnudagsmorgun leit ég við í Skrúðvangi á Laugarbakka og kynnti mér metnaðarfull áform eigenda um uppbyggingu starfsemi í gróðurhúsunum. Nú þegar er búið að vinna heilmikið í gróðurhúsunum sjálfum og fyrir dyrum standa áframhaldandi endurbætur. Ég hlakka til að sjá þau áform verða að veruleika á komandi misserum.
Vikan sem var að líða ber það með sér að haustið er komið. Fundir, þing, langir dagar og ferðalög. Fjárhagsáætlunargerð farin af stað. Atið sem sagt að hefjast. Ég fagna því og hlakka til krefjandi verkefna haustsins.
Að lokum vek ég athygli á nokkrum fréttum á heimasíðunni:
Tilnefningar til umhverfisviðurkenninga. Tekið við tilnefningum til og með 2. sept.
Breyttur opnunartími í þrektækjasal. Opið frá kl. 6 þrjá morgna í viku til reynslu.
Styrkir til félags-, menningar- og atvinnumála. Umsóknarfrestur til 15. september.
Starfsdagur starfsmanna Húnaþings vestra. Nokkuð sem ég er óskaplega stolt af að hafi tekist að hrinda í framkvæmd.
Og að lokum frétt um lok ljósleiðaravæðingar á Laugarbakka. Nú vantar bara herslumuninn að allt sveitarfélagið verði ljósleiðaratengt. Lokið verður við síðustu tengingarnar á Hvammstanga á næsta ári.
Mynd/Húnaþing vestra