Ákvörðun um að semja við erlendan aðila um rannsóknir á krabbameinssýnum vegna leghálsskimana í forvarnarskyni byggist á því að tryggja öryggi og gæði rannsóknanna og jafnframt sem stystan svartíma. Með samningi sem verið er að leggja á lokahönd milli Sjúkratrygginga Íslands og danskrar rannsóknastofu verður svartíminn að hámarki 3 vikur en bið eftir niðurstöðum hefur síðustu ár verið 4 til 6 vikur. 

Rannsóknir þurfa að standast gæða- og öryggisviðmið

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins sem tók við lýðgrunduðum skimunum fyrir krabbameini í leghálsi um áramótin hefur við undirbúning verkefnisins lagt höfuðáherslu á að tryggja öryggi og gæði frumurannsókna á leghálssýnum. Miðað við erlend gæða- og öryggisviðmið var ljóst að erfitt yrði að tryggja öryggi og gæði þessara rannsókna hér á landi. Í Danmörku er mælt með að hver rannsóknarstofa rannsaki minnst 25.000 sýni árlega til að viðhalda færni sérhæfðs starfsfólks og tryggja þannig gæði og öryggi úrlesturs sýnanna. Í Svíþjóð er miðað við 16.000 sýni að lágmarki. Hefðbundnar frumurannsóknir hafa verið um 27.000 á ári hér á landi en með innleiðingu HPV mælinga hjá heilsugæslunni fækkar þeim niður í 7.000 strax á þessu ári og enn frekar á komandi árum. HPV veirupróf er næmari rannsókn en hefðbundin frumuskoðun og er miðað við að HPV veirupróf verði almenna reglan hér á landi í stað frumuskoðunar.

Ógreind sýni frá Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands

Samningur Sjúkratrygginga Íslands við Leitarstöð Krabbameinsfélag Íslands um að sinna m.a. skimunum fyrir krabbameinum í leghálsi ásamt frumurannsóknum rann út síðastliðin áramót. Aftur á móti taldi leitarstöðin að til þess að geta lokið við greiningu uppsafnaðra leghálssýna fyrir þann tíma yrði að hætta að taka við tímabókunum í nóvember sl. Þegar upp var staðið um áramótin voru ógreind um 2.000 leghálssýni hjá leitarstöðinni. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur samið sérstaklega um greiningu þessara sýna og segir Óskar Reykdalsson, forstjóri stofnunarinnar að vænta megi niðurstöðu úr rannsóknum á þeim innan skamms.

Skimun er forvörn, árangur veltur á góðri þátttöku

Æskileg þátttaka í reglulegri skimun fyrir leghálskrabbameini er 85% samkvæmt alþjóðlegum stöðlum. Hér á landi hefur þátttakan aldrei náð því marki og síðustu ár hefur hún verið nokkuð undir 70%. Skimun er forvarnaraðgerð þar sem um er að ræða skoðun á einkennalausum einstaklingum. Góður árangur veltur á góðri þátttöku hópsins sem skimunin nær til. Vonir standa til að með breyttu fyrirkomulagi skimana sem tók gildi um áramótin muni þátttakan aukast. Aðgengi að þjónustunni verður greiðara þar sem hún verður liður í almennri þjónustu heilsugæslustöðva um allt land. Einnig hefur verð fyrir þjónustuna lækkað til muna þar sem í heilsugæslunni er einungis innheimt 500 kr. komugjald í stað skimunargjalds sem var rúmar 4.800 krónur. Sem fyrr geta konur farið í leghálsskimun hjá kvensjúkdómalækni ef þær svo kjósa.

Mynd/Stjórnarráðið