Það er ávallt nóg um að vera í Hrísey og gerir Ásrún Ýr Gestsdóttir því góð skil með vikulegum pistlum á Hrísey.is.
Gaf hún Trölla.is góðfúslegt leyfi til þess að birta fréttir frá Hrísey
.

Föstudagur og fuglarnir syngja. Eftir, að manni finnst, endalausa snjókomu og kulda má sjá vor í veðurkortunum! 

Vikan hefur verið róleg hér í Hrísey. Ef snjórinn væri mennskur væri hefði hann haft hiksta alla vikuna því það hefur enginn neitt gott um hann að segja lengur. Nema þá helst börnin sem fá sum aldrei nóg af því að renna sér. Önnur börn vilja hinsvegar mikið meira fá fótboltavöllinn aftur og gera sitt besta við að sparka snjónum burtu. Talandi um börn og ungmenni þá hefur Akureyrarbær opnað fyrir umsóknir í Vinnuskólann. Við hvetjum hríseysk ungmenni fædd á árunum 2007 til 2010 til þess að sækja um. Bara muna að setja inn í umsóknina að þið sækið um starf í Hrísey. Umsóknir eru rafrænar hjá Akureyrarbæ. 

Gönguskíðabrautir hafa verið troðnar og það er víst að nægur er snjórinn enn til þess að stunda þessa fínu líkamsrækt og útiveru. Spáin yfir helgina og eitthvað fram í næstu viku bendir til þess að gönguskíðin fari brátt í geymslu svo það er um að gera að nýta tækifærið á meðan það býðst.

Krakkarnir í Hríseyjarskóla hafa verið að æfa dans síðustu vikur hjá Ingunni danskennara. Héldu þau frábæra danssýningu núna í morgun og sjá má myndir frá henni hér fyrir neðan. Foreldrar, ömmur og afar voru dregin út á dansgólfið og að sjálfsögðu var masserað!

Það stefnir í góða helgi hér í eyjunni okkar. Hríseyjarpizzur er á sínum stað í Hríseyjarbúðinni á föstudagskvöldi og Verbúðin 66 er opin á laugardagskvöldinu. Íþróttamiðstöðin er opin að venju og núna er búið að laga og uppfæra loftið í ræktinni. Mikil aukning hefur verið á notendum í ræktinni í Hrísey í vetur og eru það frábærar fréttir! Við höfum þessa fínu aðstöðu og það er jákvætt þegar hún er svo mikið notuð að huga þurfi að endurbótum. Það er komið að grautardegi Ferðamálafélagsins á laugardaginn og er mikill spenningur fyrir grautnum! Er þetta síðasti grautur vetrarins og því má enginn láta sig vanta.

Á sunnudaginn fáum við forsetaframbjóðanda í heimsókn en Baldur, ásamt eiginmanni sínum Felix, býður eyjaskeggjum í spjall á Verbúðinni klukkan 18:00.

Hitatölur gætu náð í tveggja stafa, og það í plús en ekki mínus! Á laugardaginn er spáð allt að 10 stiga hita en miðað við meðaltal úr hitaspám þeirra veðursíðna sem fréttaritari notar er líklegra að hitinn verði í kringum 7 gráðurnar. Létt sunnangola eða um 6m/s og skýjað. Sunnudagur ætlar sér að bera nafn með rentu og bjóða upp á sól í u.þ.b 7 stiga hita með örlítið hraðskreiðari sunnangolunni. Það er því hægt að gleðjast um helgina, fara út og brjóta niður skaflana á sólpöllunum, skella sér í pottinn eftir erfiðið og láta sig hlakka til vorsins. Einhverjum gæti dottið í hug að draga fram grillið í gleðinni!

Góða helgi kæru lesendur.