Til eru þeir sem kvíða jólunum, þótt oftast sé talað um jólin sem “hátíð ljóss og friðar” þá gleymist oft að fleiri en margan grunar hlakka bara hreint ekkert til jólanna, heldur bera þungan kvíða í brjósti þegar þau nálgast.

Hér er stuttur pistill sem vefnum barst á aðfangadag síðast liðinn. Höfundur kýs að skrifa undir dulnefni.

Ég sit hér einn og græt – Ég græt yfir svo mörgu, en samt veit ég eiginlega ekki alveg af hverju og það að vera einn er mitt val – Mín ákvörðun, enda get ég ekki boðið fólkinu mínu upp á að horfa upp á næstum miðaldra einstakling sprauta tárum yfir allt og alla á þessari hátíð ljóss og friðar þar sem gleðin og hamingjan skín úr augum ungviðisins og flestra annara. Jólasteikin yrði líka of sölt.. og ekki er á það bætandi.

Ég vil sem sagt ekki eyðileggja partýið, enda engin ástæða til.

Í mörg ár hef ég kviðið fyrir jólunum – Ég veit ekki af hverju. Ég veit bara það að mér líður hræðilega á þessum árstíma. Ég veit líka það að ég er ekki einn um að líða svona.

Ég hef prófað að vera í öðru landi um jólin. Í landi þar sem jólin eru ekki þessi ógnarlega hátíðarslepja eins og ég upplifi jólin hér á hinum veðurbarna hraunshólma sem ég elska annars út af lífinu.

Kannski er vanlíðanin vegna samviksubits. Samviskubits yfir því að hafa farið frá börnunum mínum ungum – yfirgefið þau, líklega af sjálfhverfu einni saman. Sjáfhverfu gagnvart hverju veit ég þó ekki.

Kannski er vanlíðanin vegna óuppgerðra sambandsslita. Sambandsslita sem þurftu ekki að eiga sér stað – bara ef ég hefði breytt öðruvísi. Ef ég væri bara örlítið sterkari.. Og minna sjálfhverfur.

-Kannski vegna náinna ættingja sem eru veikir og eiga jafnvel ekki afturkvæmt.

-Kannski vegna vina sem yfirgáfu þennan heim allt of ungir.

-Kannski vegna þess að mér tókst ekki að uppfylla markmið sem ég setti mér á árinu sem er að líða, og ég lofaði sjálfum mér og öðrum að standa við og fara eftir.

-Kannski bara allt þetta – og örugglega miklu fleira sem kemst ekki út.

Þau eru orðin býsna mörg “ég” í þessari stuttu “hugvekju”, en kannski er það bara einmitt málið – Kannski er þessi tími – jólin sú stund er maður (ég) er hve opnastur fyrir að hugsa um eigin tilfinningar?

Farið vel með ykkur.
Sergei.

Mynd: pixabay