Í kringum kjaraviðræður í lok síðasta árs bar á gagnrýnisröddum um einsleitni samninganefnda þar sem karlar þóttu áberandi og konur lítið sýnilegar. Ásýndin þótti líkjast myndum frá því á 7. áratug síðustu aldar en ekki nú eftir áratuga jafnréttisbaráttu. Til allrar hamingju endurspeglar þessi ásýnd ekki allan sannleikann því í hreyfingunni starfar fjöldi kvenna bæði í formannsstólum, stjórnum og öðrum trúnaðarstörfum, þó enn séu hlutföllin tæpast ásættanleg í ljósi jafnréttisvitundar nútímans.
Fimm konur sem eru formenn í sínum félögum, þar á meðal Anna Júlíusdóttir, voru teknar tali í tilefni 1. maí og spurðar um stöðu kvenna í verkalýðshreyfingunni og þeirra eigin vegferð til áhrifa.
Viðtalið við Önnu má lesa hér fyrir neðan, eins og sést var það tekið stuttu áður en hún tók við sem formaður.
Skiptir miklu að konur komi saman
Nafn: Anna Júlíusdóttir.
Staða: Tilvonandi formaður Einingar-Iðju
Lengd formannssetu: Verður sett formaður á næsta aðalfundi
Lífsmottó: Ég legg mig fram um að gera betur í dag en ég gerði í gær.
Hver er staða kvenna innan verkalýðshreyfingarinnar almennt að þínu mati. Getur það reynst konum erfiðara en körlum að komast til áhrifa innan hennar og ef svo er hvernig þá?
Staða kvenna innan hreyfingarinnar er ekki nógu góð, fyrst og fremst er það vegna þess að það eru yfirleitt konur sem sjá um heimilið og 3.vaktina, því hafa þær ekki sömu tækifæri oft á því að sækja fundi og viðburði sem eru utan vanalegs vinnutíma, en oft eru trúnaðarstörf á vegum félaga á þeim tíma. Síðustu ár hefur staðan þó farið batnandi. Hvað varð til þess að þú ákvaðst að stíga fram og gefa kost á þér til formennsku í félaginu þínu og hvernig gekk sú vegferð?
Ég hef verið varaformaður Einingar-Iðju síðan 2012, núverandi formaður er að hætta störfum og þess vegna teljum við hentugt að einstaklingur með reynslu hjá félaginu taki við formannsembættinu, því gaf ég kost á mér. Sú vegferð gekk vel og ég mun reyna mitt besta til að þjónusta félagsmenn vel áfram. Stjórn og starfsfólk félagsins á stóran þátt í því að ég treysti mér í tiltekið hlutverk.
Sterk stéttarvitund
Var verkalýðsbarátta hluti af þínu umhverfi þegar þú varst að alast upp, áttir þú þér fyrirmyndir í baráttunni?
Ég ólst upp á Siglufirði og stéttarvitund fólks var mjög sterk. Ég bar mikla virðingu fyrir formanni Vöku á sínum tíma og sýndi verkalýðsbaráttunni áhuga mjög snemma. Ég flutti til Akureyrar 1994 og fór strax að sinna trúnaðarstörfum fyrir Einingu, síðar Einingu-Iðju.
Lítur þú á þig sem fyrirmynd kvenna í verkalýðshreyfingunni og telur þú það að einhverju leyti vera hlutverk þitt að greiða götu annarra kvenna til áhrifa?
Já, ég tel það mitt hlutverk að stuðla að því að konur fái sömu tækifæri og karlmenn í verkalýðshreyfingunni. Ég hef og mun halda áfram að hvetja konur til að taka þátt !
Telur þú þig, og aðra kvenkyns formenn, vera með aðrar áherslur/tón eða sýn en karlar í áhrifastöðum innan verkalýðshreyfingarinnar og skiptir það máli að hafa kynjahlutföll þeirra sem sinna trúnaðarstörfum innan hreyfingarinnar sem jöfnust?
Vinnan er sú sama hvort sem karl eða kona eru að sinna þessu starfi, við erum öll sammála um að hlutverk okkur er að berjast fyrir bættum lífskjörum í landinu. Hvernig við gerum það getur verið misjafnt en ekki endilega vegna hvers kyn við erum, frekar hvernig hver og einn einstaklingur er. Ég tel mikilvægt að við reynum að hafa konur jafnt sem karla í að sinna trúnaðarstörfum fyrir félagið, sýnin þarf að koma frá sem fjölbreyttasta hópnum.
Mikilvægt að konur komi saman
Telur þú að reglulegt og skipulagt kvennastarf innan verkalýðshreyfingarinnar, sbr. kvenleiðtogafundir og kvennaráðstefnur, gætu nýst konum sem vilja hafa áhrif innan ASÍ, og ef svarið er já, hvernig þá?
Já það skiptir miklu máli að konur komi saman og fái hvatningu og styrk frá hverri annarri, þær sem eru búnar að vera lengi í verkalýðshreyfingunni eru innblástur fyrir yngri konur og geta vakið áhuga þeirra fyrir málefnunum, sem verður til þess að fleiri konur láta til sín taka.
Heimild og mynd/ af vefsíðu Einingar-Iðju