Jóna Hlíf Halldórsdóttir

Jóna Hlíf Halldórsdóttir opnar einkasýninguna Það sem jökultíminn skapar í Kompunni í Alþýðuhúsinu á Siglufirði laugardaginn 6. maí klukkan 14.00. Þann sama dag kl. 16.00 mun Jóna Hlíf vera með listamannaspjall. Sýningin stendur til 21. maí nk.

Í innsetningunni Það sem jökultíminn skapar er umfjöllunarefnið tími sem bæði forsenda mannlífs og hluti af því. Hvernig myndir skapa umgjörð utan um skilning á þeim náttúruöflum sem við erum hluti af og erum ósjaldan minnt á að við þurfum að beygja okkur fyrir. Hvernig orð styðja við þá sögu sem við sköpum til að skilja okkur sjálf innan umhverfis.

  1. Firðir myndast þegar jöklar bráðna. Farvegur vatns leitar uppi veikleika í steininum, áin sverfur berg niður í haf. Ummyndun jarðar býr til eitthvað nýtt, skapar forsendur fyrir mannlífi – örsmáum hluta af lífinu sjálfu.
  2. Hver fjörður er einstakur. Hver fjörður hefur sinn svip, tími þeirra markaður af sögu fólks sem þar býr. 

Jóna Hlíf (f. 1978) útskrifaðist með mastersgráðu í myndlist frá Glasgow School of Art í Skotlandi 2007 og í listkennslu frá Listaháskóla Íslands 2012. Jóna Hlíf hefur haldið einkasýningar á viðurkenndum sýningarstöðum, m.a. í Berg Contemporary, Listasafninu á Akureyri og Listasafni Reykjavíkur. Hún hefur tekið þátt í fjölmörgum samsýningum og eru verk hennar í eigu opinberra safna.

Textaverk, tilraunir með efni og innsetningar eru kjarninn í myndrænni tjáningu verka Jónu Hlífar. Texti sem áferð: sem leið til að birta hugsanir, við að setja fram og skapa samfélag, eða sem grundvöllur hugmynda. Í verkunum hefur Jóna Hlíf m.a. fengist við fyrirbærin kjarna, tíma og ímynd sögunnar.

Nánari upplýsingar um verk Jónu Hlífar er að finna á heimasíðunni jonahlif.is

Myndir/aðsendar