Talið er að um 40.000 manns hafi sótt Fiskidaginn Mikla á Dalvík um helgina segir á facebook síðu Lögreglunnar á Norðurlandi ystra.

Lögregla var með töluvert viðbragð vegna hátíðarinnar, var vel mönnuð og naut aðstoðar sérsveitar. Aðgerðarstjórn var mönnuð á Akureyri og vettvangsstjórn á Dalvík. Þá starfaði fíkniefnateymi á hátíðinni með fíkniefnaleitarhund og undir lögreglu störfuðu gæslumenn á vegum samkomuhaldara. Lögregla notaði löggæslumyndavélar við störf sín og löggærsludróna. Mikill fjöldi var á tjaldstæðum og í görðum við íbúðarhús auk þess sem töluverð umferð var til Dalvíkur um helgina.

Hátíðin fór vel fram. Umferðarskipulag inn í bæinn og í Múlagöngum gekk vel sem og stýring inn á bílastæði. Mikill erill var hjá lögreglu en fá alvarlega mál hafa verið tilkynnt enn sem komið er. Ein alvarleg líkamsárás er til rannsóknar eftir helgina, 12 minniháttar fíkniefnamál, vopnalagabrot, eignaspjöll og nokkur fjöldi mála þar sem fyrirmælum lögreglu var ekki hlýtt. Fáir gistu fangageymslur. Alvarlegt umferðarslys varð á Ólafsfjarðarvegi skömmu eftir miðnætti aðfararnótt sunnudags þar sem bifreið sem ekið var í norður valt útaf veginum. Ökumaður var fluttur slasaður á Sjúkrahúsið á Akureyri með þyrlu Landhelgisgæslunnar sem staðsett var á Akureyri um helgina og viðbragð því til fyrirmyndar. Ökumaðurinn er ekki í lífshættu en ekki er vitað um líðan hans að öðru leyti.

Lögregla vill þakka forsvarsmönnum Fiskidagsins Mikla og öðrum viðbragðsaðilum fyrir gott samstarf við undirbúning og framkvæmd hátíðarinnar. Viðbragðsaðilar héldu reglulega undirbúningsfundi í aðdraganda hátíðarinnar og stöðufundi á meðan hátíðin fór fram. Þá vill lögregla koma á framfæri þakklæti til gesta og vegfarenda fyrir framkomu á hátíðinni og sýnda þolinmæði vegna tafa sem urðu á umferð vegna umferðarslyss.

Á forsíðumynd má sjá fíkniefnateymi með fíkniefnaleitarhund að störfum.