Lagið “bankastræti” er fjórði síngúllinn af komandi plötu Elínar Hall “heyrist í mér?” og er komið í spilun á FM Trölla.

Lagið má segja að sé kjarni þema plötunnar en það er upplifun þess að finnast þú geta öskrað en enginn heyrir. Upplifun sem getur verið algeng bæði í persónulegum samböndum en einnig þvert á svið lífsins. Lagið er ein stór spurning; hvað á ég að segja til að fólk heyri?

Með súrrealískum, hispurslausum og örvæntingarfullum texta vöfðum upplífgandi hljóðheim fæddist þversagnarkennt indípopplag sem getur ekki annað en fengið fólk til að kinka kolli við. 

Elín samdi lagið eftir fund með Unu Torfa þegar þær stunduðu saman nám í LHÍ fyrir þremur árum. Þær voru báðar skeptískar á eigin raddir á þeim tíma. Fyrir upptökur á laginu “bankastræti” hittust þær og horfðu til baka yfir farinn veg. Margt hefur breyst síðan þá en samt ekki neitt. 

Lagið verður á nýrri plötu Elínar, “Heyrist í mér?” sem væntanleg er í haust. Af þeirri plötu hafa nú þegar komið út lögin Júpíter, Vinir og Rauðir draumar (fyrir kvikmyndina KULDI)

Cover: Anna Maggý og Guðný Maren Valsdóttir.


Aðsent