Systkinin Magnús Guðmundur Ólafsson  (Maggi) og Guðrún Pálína Jóhannsdóttir hafa sent frá sér nýtt jólalag.  Lagið ber heitið „Enn þessi jól“.   Tildrög lagsins eru frá því í október í fyrra en Guðrún Pálína setti textann saman og sendi á bróður sinn.  Textinn fjallar um að jólin eru tími töfra og þau geta veitt manni þannig innri frið og von sem við þurfum flest stundum á að halda.  

Maggi var ekki lengi að snara fram lagi og í október 2020 og fram í nóvember sendu þau hugmyndir og breytingar sín á milli.  Maggi spilar á öll hljóðfæri sem og hann syngur lagið og raddar.   Jafnframt tók Maggi sjálfur upp lagið í Mógo musik sem er hljóðstúdíó á hans vegum staðsett í Ólafsfirði.    Ekki tókst að fullvinna lagið fyrir jólin 2020 og því tóku þau systkinin upp þráðinn núna í nóvember 2021.  Þau fengu Gunnar Smára Helgason til að hljóðblanda lagið og leggja þannig lokahönd á verkið.

Maggi er skólastjóri Tónlistarskólans á Tröllaskaga og er fagmaður í tónlist.  Maggi hefur tekið þátt og  verið framámaður í mörgum tónlistarviðburðum í Fjallabyggð í gegnum árin.  Hann spilaði í hljómsveitum frá unga aldri og fór með þeim vítt og breitt um landið.    Guðrún Pálína er viðskiptafræðingur og er sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs Dalvíkurbyggðar.  Hún er því meira fagmaður í tölum og lögum en tónum.  

Maggi og Guðrún Pálína hafa unnið saman að þessu áhugamáli sínu og  laga- og textagerð í rúm 30 ár.  Nokkuð er til af útgefnum lögum og textum eftir þau systkini, bæði saman og í sitt hvoru lagi.  Megnið af verkum  þeirra er þó óútgefið og liggur því á lager. Kannski mun eitthvað af þessu efni einhvern tímann líta dagsins ljós.


Efri röð: Addý, Maggi, Helgi og Guðrún. Neðri röð: Hildur og Jói

Eins og segja má um fleiri í stórfjölskyldunni þá eru Maggi og Guðrún Pálína mikil jólabörn og þau hafa samið og sent frá sér þó nokkur jólalög sem gætu alla vega fyllt eina jólaplötu.  Sem dæmi eru lögin „Mig langar ekki í neitt annað“ og „Jólabærinn minn“.  

Nýja jólalagið „Enn þessi jól“ er frumflutt á  útvarpsstöðinni FM Trölli í dag.