Það getur verið pirrandi og hreinlega óþægilegt þegar vegir eru lokaðir. Stundum þarf að loka vegum einfaldlega til þess að hægt sé að hreinsa af þeim snjó.

Vegagerðin hefur látið gera myndband sem sýnir aðeins frá vetrarþjónustu á Hellisheiði.

Loka hefur þurft veginum um Hellisheiði nokkrum sinnum það sem af er ári. Í myndbandinu sem tekið var upp vikuna 7. til 11. febrúar 2022 er rætt við Einar Sveinbjörnsson veðurfræðing, Grétar Einarsson verkstjóra á Suðursvæði Vegagerðarinnar og Helga Björnsson vélamann.

Oft getur gert mikla snjókomu á heiðinni svo fyrir safnast nokkurra metra háir skaflar. Þar sem umferðin um heiðina er mikil, tíu til fjórtán þúsund bílar á sólarhring, getur verið vandasamt að halda heiðinni opinni þannig að gætt sé fyllsta öryggis. Fastir bílar geta tafið mjög fyrir opnun vegarins þegar veður gengur niður.