SÖGUR ÚR LJÓSMYNDUM

Forsíðu ljósmyndin hér fyrir ofan sem óþekktur ljósmyndari tók, ber í sér mikla sögu. Hún er lituð í tölvu af meistara Steingrími Kristinssyni og sýnir okkur rauðar æðar í Koparklöppinni frægu sem nú er löngu horfin undir KOMMÚNISTAHÖLLINA sem stendur við Suðurgötu 10 á Siglufirði.

Upprunalega myndin, hér fyrir neðan, sem líklega er tekin á árunum 1946-48 í svarthvítum litum, lítur svona út og enginn veit hvaða litla sæta stelpa þetta er sem situr þarna við klöppina.

Koparklöppin við Suðurgötu 10. Ljósmyndari: Bjarnveig Guðlaugsdóttir.

Skemmtilegar viðbótar upplýsingar bárust pistlahöfundi 7 desember 2021:

Pistlahöfundur lenti á spjalli við Siglfirska sögumanninn Leó Ólason hér um daginn og vorum við þá að tala um ýmsa hlaðna Siglfirska grjótgarða og fleira skemmtilegt og þá barst þessi Koparklettur og fl. á tal, sem og þessi ljósmynd úr Ljósmyndasafni siglufjarðar.

Þessi dularfulli klettur, sem og auð lóðin við Suðurgötu 10 var þekkt leiksvæði fyrir börnin í nágrenninu á sínum tíma og þegar hann var sprengdur burt til þess að skapa pláss fyrir þriggja hæða höll kommúnista, gerðist þarna hörmungar slys sem seinna skapaði aðra merkilega sögu um einkennilegan íkveikjuatburð fyrir handan fjörð.

Leó bætti síðan við söguna að þetta var kannski álagaklettur, því sagan segir að einhenti einsetumaðurinn Aage Nörgaard, hafi misst hluta af sínum hægra handlegg við vinnu við að sprengja burt þessa kommúnista Koparklöpp.

En meira um það seinna og hér undir er slóð á samansafn af sögum með fjölda ljósmynda frá Leó á trölli.is.

AUTHOR: LEÓ ÓLASON

ÞRIGGJA HÆÐA KOMMÚNISTAHÖLL VIÐ RÁÐHÚSTORGIÐ

Gríðarlegar breytingar eiga sér stað við Ráðhústorgið á Siglufirði á árunum 1945-50. Nær öll húsin sem við sjáum í bakgrunninum á forsíðumyndinni eru löngu horfin. Til hægri í mynd sjáum við þrjú horfin hús, Ráðhústorg 1, 3 og 5 og bak við klöppina er Suðurgata 8, en eigendur þess hús gáfu Kommúnistum lóðina Suðurgötu 10.

Tvær Siglfirskar HALLIR! Þriggja hæða Kommúnistahöllin við Suðurgötu 10 og stóra húsið við Suðurgötu 12, var líka uppnefnt HÖLL. Það hús er reyndar stórglæsilegt þegar nánar er athugað og stendur líklega á flottasta lóðar stæði Siglufjarðar. Ljósmyndari: Gestur Fanndal.

Við skulum kíkja á nokkrar ljósmyndir úr fyrri hluta myndasyrpusögunnar um Torgið til þess að átta okkur betur á sögusviðinu.

RáðHÚS- TORGIÐ OKKAR FYRR OG NÚ… 1 hluti. 60 MYNDA-SYRPUSAGA

Jarðarför frá Suðurgötu 8 á Siglufirði, júlí 1949 Kommúnistahöllin hálfkláruð í bakgrunninum við Suðurgötu 10 og Prentsmiðjuhúsið þar sunnan við fyrir breytingu.Ljósmyndari Kristfinnur Guðjónsson.
Guðlaugur skósmiður látinn. (1874-1949) Hann bjó og rak veitingasal og skósmíðavinnustofu á neðri hæðinni í Suðurgötu 8 ásamt Óskari syni sínum. Kistan á vörubílspalli framan við Suðurgötu 6, ( Hús Gests Fanndal ), en þarna er verið að byggja við suðurhluta hússins.
Guðlaugur var sannur sósíalisti og gaf einmitt lóðina undir Suðurgötu 10, Kommahöllina.

Á sjötugsafmæli Guðlaugs 1944, birtist eftirfarandi hylling í Mjölnir, málgagni Sósíallista á Siglufirði.

“… Guðlaugur er maður greindur vel og víðsýnn. Hefur hugur hans jafnan hneigst til fylgis við baráttu alþýðunnar og baráttu framfaraaflanna í þjóðfélaginu gegn kúgun og afturhaldi. Honum er öðruvísi farið heldur en mörgum jafnöldrum hans, sem gerzt hafa bölsýnir og afturhaldssamir með aldrinum.

Það er eins og jafnvel, að hann hafi orðið frjálslyndari, skynjað betur hræringar hins nýja tíma eftir því, sem árin hafa færzt yfir hann. Það er hressandi að hitta fyrir sjötuga menn, sem ennþá eiga eld æskunnar, sem fylgjast af áhuga með baráttunni, er fram fer í kringum þá og eiga ennþá óslökkvandi þrá eftir sigri hins unga og framfarasinnaða. Það eru menn, sem ekki eldast, þótt árin færist yfir þá. Slíkur maður er Guðlaugur.

Mjölnir flytur Guðlaugi einlægustu árnaðaróskir í tilefni af .afmælinu og óskar honum langra lífdaga, svo að hann fái að sjá sem mest af ávöxtum þeirrar baráttu, er hann hefur jafnan fylgt af lífi og sál.

Og í minningar og kveðjuorðum í Neista 1949, málgagni jafnaðarmanna segir:

… Guðlaugur heitinn var fróður maður og skynsamur vel og fær í sinni iðn. Hann var maður glaðlyndur, fyndinn og skemmtilegur félagi. Guðlaugur heitinn hafði átt við mikla vanheilsu að stríða, sem hann bar með sérstakri þolinmæði.

  1. desember í vetur hætti hann með öllu að vinna á skósmíðaverkstæði þeirra feðga, og hafði þá unnið við iðn sína í rúm 59 ár.

Með Guðlaugi Sigurðssyni er hniginn í valinn og til moldar borinn einn af þeim athafnamönnum, sem Siglufjörður stendur í ómetanlegri skuld við. Blessuð sé minning Guðlaugs Sigurðssonar. (Neisti) Heimilir lánaðar frá sögusíðum Steingríms Kristinssonar.

Sjá meira skemmtilegt hér um Siglfirska pólitík og Kommahöllina frægu og fl:

PÓLITÍSKT UPPELDI Í SÍLDARLAUSUM SÍLDARBÆ. 50 MYNDASYRPUSAGA

Myndin sýnir okkur götuumhverfið við Suðurgötu 2 – 10 um og eftir 1950. Líklega skrúðganga hjá stúkufélaginu Eyrarrós 68. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.
Hið sögufræga hús, Brúarfoss, sést til vinstri. En þar var um tíma rekin “illræmd” knattborðstofa.

BILJARDINN ER MIKIÐ BÖL!

Hér kemur stutt ágrip úr KS blaðinu (Knattspyrnufélag Siglufjarðar) frá 1939….

… þessi texti minnir nokkuð mikið á áhyggjur nútímafólks varðandi tölvuleikjafíkn barna og unglinga og augljóst er að knattborðsleikur er ekki talinn mannsæmandi íþrótt.

“… Það er sorglegt að mönnum eftirlitslítið líðast að gera sér það að atvinnu sinni að reka siðspillingarstarfsemi í bænum og meðal bæjarbúa…”

… Það er skammarlegt, að nokkrir Siglfirðingar hafa naut af því að gjörspilla sjálfum sér, andlega og líkamlega með taugaæsingi og óreglu, sem alltaf sveima kringum kjuða og kúlur hvar í veröldinni sem er. Enda má þekkja úr og það í fjarlægð, þá sem hafa það að atvinnu að láta trekkja sig upp. Þá sem liggja kengbognir yfir kjuðanum allan daginn og gefa sér ekki einu sinni tíma til að borða, sem og þá sem eru lagstir andlega til sinnar hinztu hvíldar, andlega komnir undir græna torfu…”

Knattborðs spillingarbælahúsið Brúarfoss virðist hafa staðið skáhalt inni á sjálfu Torginu og var skráð sem Ráðhústorg 1. Ljósmyndari: Gestur H Fanndal.

“… Það er krafa íþróttamanna að þessu tóttabroti andlegrar niðurlægingar verði lokað með lögregluvaldi…”

“… Bærinn ætti líka að sjá sóma sinn í að fólk ekki viljandi hrörni og eldist fyrir tíman, sem er óhjákvæmileg afleiðing sífelds taugaóstyrks og vinsvika, en þess eru því miður nokkur dæmi…”

Dæmi:

“… Auralítill unglingur sem allt sitt hefir misst í billjardinn, hefir selt utan af sér fötin til þess eins að að geta spilað, en langar til þess að halda áfram en hefir ekki peninga. Honum dettur þá í hug hvað amerísku barnaræningjarnir gera til að afla sér fjár.
Hann tók tvær kúlur þegar tækifæri gafst og fer. Hann kemur aftur eftir dálitla stund og segir yfirmanni stofnunarinnar að hann viti um kúlurnar, en auðvitað segir hann það ekki nema að hann fái að spila útá 50 krónur. Yfirmaðurinn býður til samkomulags 5 krónur og tilboðið samþykkt. Drengurinn fer heim og sækir kúlurnar og heldur áfram að spila…”

“… Margt fleira hef ég heyrt, sem ef til vill á eftir að fréttast ef þetta nægir ekki… “
K.S – ingur
. Heimildir: (K.S. blaðið 4 tbl. 6 apríl. 1939.

NÖRGAARD OG VIRKIÐ HANS, NORÐURGARÐUR!

Þessi maður og merkilegar sögur um hann eru oft í huga mér og ég hef minnst á hann áður í öðrum sögum. Það búa í mér sterkar barnalegar minningar um hans horfna hús, sem var svolítið einkennilegt í laginu, sem og þessa stóru hlöðnu grjótgarða sem einhentur maður með sjóræningjakrók, hlóð með einstökum dugnaði og elju.

Við krakkarnir í suðurbænum fórum oft í ævintýraferðir “yfrum” fjörð á fjörunni og lékum okkur þarna í þessu dularfulla umhverfi.
Við höfðum heyrt sögur frá okkur eldri krökkum um Danskan mann með sjóræningjahendi og að hann gengi aftur í þessu svartmálaða hálfbrunna húsi.

Ekki vissi ég þá að hann hafði misst höndina í slysi við að sprengja burtu Koparklöppina.

Hér undir er yfirlitsmynd frá 1965 sem sýnir okkur ævintýralegt leikumhverfi Siglfirskra barna og myndin sýnir líka vel staðsetningu heimilis Aage Nörgaard.

Mynd lánuð úr myndasyrpusögunni: HORFIN ÆVINTÝRAHEIMUR: SKOGER, EVANGER, TORDENSKJOLD… OG ÉG! 2. HLUTI. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson. Myndvinnsla: Jón Ólafur Björgvinsson.
Aage Nörgaard og virkið hans Norðurgarður fyrir handan fjörð. Allt þetta svæði hvarf undir framkvæmdir, þegar flugvöllurinn var lengdur til norðurs. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.

En sögurnar sem fylgja með í myndaskýringartextum með þessum einstöku ljósmyndum eru nokkuð magnaðar og eru eitthvað á þessa leið:

Þetta er Aage Nörgaard, verkamaður við virki sitt Norðurgarður á Siglufirði, hús hans í bakgrunni. Hús sem hann kveikti í þegar hann flutti heim til Danmerkur, en bænum var boðið að kaupa eignina, sem var afþakkað. Þessi maður var dugnaðarforkur, vann lengi vel hjá SR og í frítíma sínum seldi hann bæjarbúum hænuegg, kjúklinga og ýmsa garðávexti og. fl.”

Þrátt fyrir að hafa haft gervihönd á hægri handlegg lét Aage ekkert aftra sér. Eldri Siglfirðingar minnast þess, þegar þeir voru guttar, hnupluðu sér rófum í garði Nörgaard, að þeir hefðu aldrei smakkað betri rófur. Eins minnast þess margir Siglfirðingar þess að mæður þeirra keyptu egg hjá karlinum og að hann hengdi þá fötuna með eggjunum á krókinn á gervihendinni.”

Okkar eigin ljósmyndameistari og Siglósögumaður, hin eldhressi 87 ára gamli Steingrímur Kristinsson minnist Aage þá þennan máta:

Gestur Fanndal kaupmaður var fastur kúnni hans og keypti reglulega egg af honum, eða í hvert sinn er karlinn átti leið í bæinn og fékk Aage fyrir, bæði pening og matvörur. Þannig var það að minnsta kosti árið sem ég var sendill hjá Gesti, þá 12 ára gamall.

Nörgaard var í áratug eða lengur starfsmaður hjá SRP, vann aðallega við smíðar, þar var hann er ég hóf vinnu hjá S.R., þá 16 ára.

Ég heyrði aldrei annað en jákvæðar sögur af karli. En þó var stundum sagðar broslegar, sögur af honum, ekki illa meint þó.

Ein var eitthvað á þá leið að hann var spurður hvort það væri ekki erfitt að koma seint heim á kvöldin eftir vinnu og langan göngutúr yfrum fjörð og þurfa þá að fara að elda sér mat. Svarið var einfalt á dönskublandari íslensku:

“Nei, nei. Ég elda hrísgrjónagraut á sunnudaga, þau eru holl. Ég elda það mikið að það endist vikuna.”

Og aftur var spurt?

En er ekki orðið vont bragð af grjónunum er líður á vikuna?

Ne, nei, það kemur stundum græn skán ofan á í pottinum, en ég bara veiði hana ofan af og bæti við sykri,” svaraði Aage og glotti.

Þetta minnir nokkuð á hafragrautinn sem Gústi Guðsmaður eldaði og var þá ýmsu bætt í hann eftir sem leið á vikuna.

Sem sagt, sagan segir að Aage hafi falast eftir því að Siglufjarðarkaupstaður keypti af honum hús og land, en honum langaði þá til þess að flytja heim til Danmerkur aftur, eftir áratuga dvöl á Íslandi. Þegar þessu var hafnað varð hann fyrir miklum vonbrigðum og segir sagna þá að hann hafi einfaldlega ákveðið að kveikja í eignum sínum og síðan fór hann óséður upp í rútu með sitt litla hafurtask til Reykjavíkur.
Einhver málaferli urðu út af þessari íkveikju, en það var víst ekki hægt að dæma menn fyrir að kveikja í eignum sem þeir eiga sjálfir skuldlaust, á þessum tíma.

Mörgum árum seinna fréttist heim á klakann að Aage Nörgaard væri enn bitur og að hann hafi keypt sér hús við fjölfarinn veg og á húsgaflinn málaði hann heilmikinn níðtexta um Ísland og alla sem þar búa.

Sagan segir einnig að Aage hafi skrifað dularfullt sendibréf til Magga á Ásnum sem var hans eini vinur og nágranni þarna fyrir handan fjörð.

Maggi á Ásnum. Magnús Eðvarðsson. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.

Magnús var lengst af vörubílstjóri og að mörgu leyti merkilegur maður, bjó einn fyrir handan og var mikill frumkvöðull um allskyns blómarækt og náttúruvernd.

Þetta bréf sem Maggi á Ásnum fékk frá Aage Nörgaard var minnst sagt einkennilegt og vart læsilegt. Allt skrifað í einni bunu, ekkert bil á milli orða og engin komma eða punktur.

Aage var greinilega enn mjög bitur og sár.

Mig minnir að ég hafi séð ljósmynd af þessu bréfi í ljósmyndasafninu, en ég finn hana ekki aftur og ekki heldur sjálfur Steingrímur Kristinsson stofnandi safnsins, því miður.

Svona geta sögur birst okkur í gömlum myndum úr Ljósmyndasafni Siglufjarðar, en þar er sagan okkar allra geymd í stafrænu og aðgengilegu formi um alla eilífð.


Höfundur samantektar og endurvinnsla ljósmynda:
Jón Ólafur Björgvinsson

Forsíðu ljósmynd:
Ljósmyndari: Bjarnveig Guðlaugsdóttir.
Litvinnsla: Steingrímur Kristinsson.

Allar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar.

Heimildir:
Vísað er í heimildir í greinartexta.

Þakklætiskveðja til Steingríms Kristinssonar fyrir myndvinnslu, aðstoð, góð ráð og yfirlestur.

Aðrar áhugaverðar myndasyrpur sögur með mörgum minningum og myndum frá liðnum tíma:

HVALAMÁLIÐ MIKLA! 74 HÁHYRNINGAR DREPNIR Í SIGLUFIRÐI

ANLEGGIÐ! FLEIRI STÓRMERKILEGAR MYNDIR

ANLEGGIÐ! DULARFULL BRYGGJUEYJA OG FL. 30 MERKILEGAR MYNDIR

SÍLDARDÓSASAFN Í GRÓÐRARSTÖÐ! 35 MYNDIR

SIGLFIRSK FARARTÆKI OG ÝMIS SKRAPATÓL. 1 og 2 HLUTI. 130 MYNDIR

BASSI MÖLLER. MINNING UM MANN. 25 MYNDIR

HEIMSFRÆGAR SKÚTUR OG MYNDAALBÚM SÆNSKRA SÍLDVEIÐIMANNA. 50 MYNDIR

MINNINGAMYNDASAGAN SEM ALÞÝÐA ÍSLANDS SAFNAR OG SMÍÐAR

SIGLÓ SÍLD! ÚR MYNDASAFNI BJÖRGVINS VERKSTJÓRA. 60 MYNDIR

ÖRSÖGUR ÚR MYNDAALBÚMI ÁSTVALDS (50 MYNDIR)

HRÍMNIR H/F. SÍLDARTUNNUR UPPÁ ÞAKI OG SUNDLAUG Í KJALLARANUM. 35 MYNDIR

PÓLITÍSKT UPPELDI Í SÍLDARLAUSUM SÍLDARBÆ. 50 MYNDASYRPUSAGA

HAFÖRNINN! EIGIN HEIMUR OG ÓVÆNT HEIMSÓKN. 70 MYNDIR.

RÁÐHÚS- TORGIÐ OKKAR FYRR OG NÚ… 1 HLUTI og 2 hluti 100 MYNDA-SYRPUSAGA

MYNDASYRPUSAGA: SIGLUFJARÐAR – LJÓSMYNDARINN HANNES BALD. FYRRI OG SEINNI HLUTI (100 MYNDIR)

GRÍMUBÚNINGAR & LJÓSMYNDASTOFA SIGLUFJARÐAR / MYNDASYRPUSAGA

KAÐLA OG KLIFUR ÆVINTÝRA MYNDASYRPUSAGA

JÓLASVEINNINN Í KJÖTBÚÐINNI ER AFI MINN

HRUN OG BRUNI – MYNDASYRPUSAGA

SUNNUDAGUR Í ZÍON OG FL. SKEMMTILEGT!

MEISTARI HLÖÐVER! GEFÐU OKKUR FRÍ. “MYNDASYRPA”

HORFIN ÆVINTÝRAHEIMUR: SKOGER, EVANGER, TORDENSKJOLD… OG ÉG! 1 og 2 HLUTI

HEBBI MÁLARI OG NORRÆN SÍLDARSÖGU VINÁTTA. 1 – 4 HLUTI.

MYNDASYRPA: SIGLUFJÖRÐUR UM 1960

FURÐULEGAR GÖTUR 1 – 4 HLUTI

100 ára afmæli! Göngutúr um heimahaga, 7 hluti, SIGLFIRSKT ! 80 myndir