Formáli:
Forsíðu myndin sýnir okkur nokkra gamla KS og BAUKS minningargripi sem pistlahöfundur heldur mikið uppá, ég veit að ég á líka gamlan rauðan KS borðfána sem ég finn ekki… Þetta veldur mér miklum áhyggjum, því þessi týndi fáni er svo sterkt tengdur áratuga minningum frá dásamlegri samveru með góðum félögum af báðum kynjum og á öllum aldri í Knattspyrnufélagi Siglufjarðar og líka frá skemmtilegu stuðningsmanna tímabili þar sem félagið BAUKS var til. “Brottfluttir áhugamenn (og konur) um Knattspyrnufélag Siglufjarðar.”
Ég er enn brottfluttur og mikill áhugamaður um Siglfirska söguvarðvörslu, æskuárin sem formuðu mig sem persónu og gerðu mig að því sem ég er í dag getur ekki bara dottið úr manni… við það eitt að flytja frá mínum ástkæru heimaslóðum og staðreyndin er að það liggur mikill sannleikur í fáránleika staðhæfingarinnar að við Siglfirðingar séum fleiri en Íslendingar.
Ó já, við erum mörg og okkur er ALLS EKKI sama hvað verður um okkar sameiginlegu Sigló “Fjallabyggðasögu.”
Það skal tekið fram að þessi orð eru ekki skrifuð sem ádeila, á einn eða neinn sérstakan aðila eða ætluð til þess að vekja sundrun.
Ádeiluorðum er oft kastað fram til þess eins að vekja umræðu um stórar og mikilvægar spurningar sem eiga fullan lýðræðislegan rétt á því að svífa frjálst á milli fjalla í “sameinuðum fögrum fjörðum” á norðanverðum Tröllaskaga.
En öll sagan var aldrei sameiginleg frá byrjun og það veldur pistlahöfundi og mörgum öðrum miklum áhyggjum að heyra orðróm á bæjarlínunni um að margt og mikið að því sem tilheyrir okkar ástkæru KS-sögu sé hreinlega týnt og tröllum gefið.
Þar fyrir utan virðast gamlar rótgrónar góðar hugsjónir foknar út á ballarhaf nútímans og rætt er um að selja sumar eyrnamerktar gjafir sem ætlaðar voru til útvistar og íþróttaiðkunar Siglfirðinga og að þær eigir með allri þeirri óeigingjörnu Siglfirsku sjálfboðavinnu og sögu sem þar liggur grafin sunnan við nýja kirkjugarðinn, séu nú allt í einu orðin sameign ALLRA í Fjallabyggð.
Er það virkilega rétt..
… eða rangt?
Forsíðu myndin sýnir okkur líka Búdda munk sem heldur fyrir eyrun og svo lokar hann augunum líka, 🙉 🙈 🙊 .. því stundum finnst fólki best að halda friðinn og tala bara alls ekki upphátt um hlutina.
Í bakgrunninum sést líka í fjörugrjóta-strák sem felur sig bak við annan og hann segir óbeint við okkur …
…ekki spyrja mig!
ER KS SAGAN TÝND… EÐA EKKI?
Í öllum mínum Siglóheimsóknum síðustu árin, sem og gegnum net og símaspjall við gamla góða KS vini og vinkonur, höfum við rætt mikið um íþrótta söguvörslu af ýmsum toga. Þar hefur komið upp aftur og aftur spurningar um hvað hefur orði um allskyns muni sem tilheyra KS sögunni sem var formlega stofnað árið 1932 og á sér því 90 ára afmæli næsta ár.
Hér erum við að tala um gamla búninga í ýmsum litum, ljósmyndir, sögufræga verðlaunagripi, leikskýrslur og gamlar skemmtilegar leikskrár og fl. og ekki síst minningar um t.d. Pæjumótið. Sem var framsækin hugmynd á sínum tíma, sem snérist um að lyfta fram og efla áhuga á kvennaknattspyrnu.
Það mesta er mér sagt, er geymt í pappakössum uppi á háalofti í félagsheimili Knattspyrnufélags Fjallabyggðar, (KF)inní Ólafsfirði.
Menn hafa verið að falast eftir að fá að skoða þetta allt saman í þeim tilgangi að saga KS verði meira sýnileg í þeim firði sem hún tilheyrir.
En af einhverri merkilegri ástæðu hefur það gengið treglega hingað til að fá leyfi frá ráðamönnum KF til að grúska almennilega í þessu öllu.
Það eina sem þetta langdregna ferli hefur gefið hingað til er að “orðrómur” hefur skapast um að margt og mikið af KS sögunni sé nú þegar…
… FARIÐ Á HAUGANA!
Guð minn almáttugur hjálpi okkur ef einhver sannleikur sé til í þessu.. því þetta eru HEILAGIR minningamunir fyrir svo marga Siglfirðinga á öllum aldri. Þessi saga er okkur öllum mjög svo mikilvæg og staðreyndin er að hún tilheyrir ekki sögu KF og Leifturssagan gerið það í rauninni ekki heldur. Mér skilst samt reyndar að kennitala KS lifi áfram undir nafni KF, hún þótti víst við samrunann nokkuð betri kostur en hin kennitalan.
Best af öllu er að sannleikurinn um þetta allt saman fái að koma uppá yfirborðið, ef svo illa vill til að hér hafa verið gerð stór söguvörslumistök.
Því þá er auðveldara að fyrirgefa og finna lausnir sem bera okkur áfram í skylduna að varðveita okkar knattspyrnusögu í sitt hvorum firðinum.
Við gætum líka byggt nýtt sameiginlegt íþróttasafn á hlutlausum stað eins og t.d. inní Héðinsfirði, en það er líklega jafn ólíklegt eins og að KF klofni aftur í tvö félög.
Pistlahöfundur veit nú þegar að mikil vilji og áhugi er til staðar heima á Sigló, bæði með að finna húsnæði fyrir KS söguna sem og að vinna í sjálfboðavinnu við að sortera það sem til er. Þetta er líklega besta lausnin á þessu leiðinda máli, því það virðist ekki vera til áhugi hjá núverandi stjórn KF að sýna okkur sögu KS eða Leifturs á veggjunum í sameiginlegu félagsheimili KNATTSPYRNUFÉLAGS FJALLABYGGÐAR inná Ólafsfirði.
Þar fyrir utan magnast sú tilfinning ár eftir ár að knattspyrnulegt hlutverk Siglfirðinga verði minni með hverju árinu sem líður frá sameiningu bæjarfélaganna sem og Leifturs og KS.
Kannski voru það stór mistök að sameina félögin og líklega er hægt að staðfesta það núna, með það í huga að það hefur gengið betur að halda uppi blómlegri starfsemi hjá íþróttafélögum í Fjallabyggð sem EKKI fóru í sameiningu.
Síðan koma upp í huga mér orð um að fólk sér ekki meistaraflokk KF í dag sem sína menn… yfir helmingur leikmanna eru ekki fæddir í eða KNATTSPYRNULEGA UPPALDIR í Fjallabyggð.
En eins og sagt er…
… TÍMARNIR BREYTAST OG MENNIRNIR MEÐ???
HÓLSSVÆÐIÐ OKKAR ALLRA.. EÐA?
Pistlahöfundur hefur í nokkur skipti skrifað pistla og sýnt ljósmyndir af því hörmungarástandi og stefnuleysi sem hefur ráðið ríkjum á ÖLLU HÓLS-svæðinu í fleiri fleiri ár.
Sjá meira hér í frétt á Siglo.is frá 2014:
Hólsvöllur ónýtur eða ónýttur ?
og
Pæjumótið verður á Siglufirði!
Og síðast í fyrra sumar vorum við áminnt enn einu sinni um þetta fallega YFIRGEFNA íþrótta og útivistarsvæði sem við SIGLFIRÐINGAR fengum sem gjöf frá Siglufjarðarkaupstað á síðustu öld:
Sunnudagspistill: Tvennt af öllu eða eitt af engu ?
Vert er að minna okkur öll á að Íþróttabandalag SIGLUFJARÐAR fékk Hólssvæðið sem gjöf, sveimérþá ef það fylgdi ekki hreinlega með dráttarvél, fjós og stór hlaða líka.
Þarna höfum við átt margar ánægjustundir og lagt mikið á okkur í sjálfboðavinnu við að byggja upp okkar Siglfirsku íþróttaaðstöðu í dásamlega fallegu sveitaumhverfi rétt sunnan við bæjarstæðið.
T.d. vorum við tvisvar sinnu í mikilli sjálfboðavinnu við að byggja skíðalyftur, golfvöllurinn var fallegur en oft mjög blautur og síðast byggðum við loksins, loksins okkar fyrsta knattspyrnugrasvöll. Völlinn sem enginn sinnir og sjaldan er sleginn af öðrum en lausgangandi jarmandi kindum.
Orðrómur um að nú séu uppi hugmyndir um að selja allt svæðið vekur upp sögulegan hroll í mörgum Siglfirðingum.
Áhyggjurnar snúast um að þá getum við ekki lengur ráðið neinu um hverskonar starfsemi verður í þessari undurfögru náttúruperlu og spurningin er hvort að öllum verði þá frjálst að spássera um svæðið?
Svæðið og staðsetningin er auðvitað einstaklega athyglisverð, ef framtíðin skildi nú gefa okkur Hólsdalsgöng.
Ofan á allt þá er það alls ekki skrítið að mörgum myndi kannski finnast það einkennilegt og jafnvel óréttlætanlegt að væntanlegum söluágóða frá gjöf til SIGLFIRÐINGA sem hafa lagt blóð, svita og tár í uppbyggingu á Hólssvæðinu verði síðan bróðurlega deilt til allra íþróttafélaga í núverandi Fjallabyggð.
Hér tel ég sjálfur og margir aðrir að langvarandi stefnuleysi og skortum á kröfum til styrkjaþega sem hefur einkennt styrkjaveitingar á uppbyggingu á jafnt menningar sem og íþróttamálefnum í Fjallabyggð sé um að kenna að sundrun og ósætti ræður meira ríkjum en sátt og samlyndi.
Bæjaryfirvöld verða að taka meiri ábyrgð og sjá til að sett séu upp og staðið sé við langtímaplön sem gagnast ÖLLUM íbúum Fjallabyggðar og jafnvel að íhuga að hreinlega kaupa til baka sína fínu gjöf til Íþróttabandalags Siglufjarðar og þannig frá yfirráð yfir hagsmunum og framtíðar möguleikum á Hólssvæðinu í heild sinni sem gagnast fyrst og fremst bæjarbúum sjálfum.
Það er einlæg ósk pistlahöfundar að fólkið í firðinum fagra sem og aðrir sem elska þennan stað.
ÞORI að tjá sig opinberlega og finni að þær hugmyndir og lausir sem það kemur með, séu tekin alvarlega og að kosnir bæjarfulltrúar hlusti vel og vandlega á óskir ALLA íbúa í báðum fjörðum og á mig líka sem eftir þessi orð mun búa á hlutlausum stað í tjaldi inní Héðinsfirði næsta sumar.
Bestu Siglósaknaðar og Fjallabyggðarkveðjur til ykkar allra.
Jón Ólafur Björgvinsson
(Nonni Björgvins)
Greinar, Pistlar og fl. eftir sama höfund:
AUTHOR: JÓN ÓLAFUR BJÖRGVINSSON