Fyrir nokkru fengum við á forminu “Spurt og Svarað” þessa spurningu frá lesanda:

“Hver er kostnaður sveitarfélagins við framkvæmdirnar á Siglufjarðarflugvelli og hvaðan eru þeir peningar fengnir þar sem þessi framkvæmd er ekki nefnd á framkvæmdaáætlun sveitarfélagins 2018.

Mun Fjallabyggð sjá um snjómokstur í vetur og halda vellinum í lendingarhæfu ástandi.

Er eðlilegt að bæjarstjórinn sé persónulega ábyrgur fyrir því að svara fyrir það hvort völlurinn sé í lendingarhæfu ástandi hverju sinni. Hve langt nær sú ábyrgð, ef ílla fer við lendingu, er hægt að sækja bæjarstjórann til ábyrgðar eða er Fjallabyggð undirliggjandi ábyrgðaraðili. Og er þá sveitarfélagið tryggt fyrir áföllum.”


Spurningin var send Fjallabyggð þann 23. ágúst s.l.

Í fundargerð Bæjarráðs dags. 28. ágúst má finna þessa bókun undir 10. lið:

10. 1808060 – Fyrirspurn er varðar Siglufjarðarflugvöll
Lagt fram erindi frá Gunnari Smára Helgasyni fyrir hönd Trölla.is varðandi framkvæmdir, ábyrgð og rekstur Siglufjarðarflugvallar.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að svara erindinu.

Enn hefur svar ekki borist.


Í fundargerð Bæjarráðs dags. 11. september er bókun í 12. lið sem varðar sama mál:

12. 1809027 – Fyrirspurn vegna flugvallar á Siglufirði.
Lagður fram tölvupóstur, dags. 10.09.2018, frá Jóni Valgeir Baldurssyni fh. H – lista þar sem óskað er eftir svörum við eftirfarandi spurningum frá Fjallabyggð vegna opnunar flugvallar á Siglufirði,

– Hvaðan fjármagnið sem fór í framkvæmdirnar á flugvellinum á Siglufirði kemur? Sem sagt hver borgar brúsann?

– Hver sér um snjómokstur og fjármögnun á því?

– Hver er ábyrgur fyrir flugvellinum, s.s rekstrinum, umsjón með flugumferð/flugumferðarstjórnun?

Bæjarráð felur bæjarstjóra að svara fyrirspurninni.


 

Mál þetta er ýmsum áhyggjuefni og því eðlilegt að menn vilji fá skýr svör við spurningunum.

 

Frétt: Gunnar Smári Helgason