Núverandi skipulag almenningssamgangna í lofti, láði og legi milli byggða byggir á þróun sem hefur átt sér stað yfir áratuga skeið. Samgöngumátarnir þrír; flug, ferjur og almenningsvagnar hafa verið skipulagðir og reknir að stærstum hluta hver á sinn hátt og ekki endilega með heildarsýn í huga. Í samstarfssamningi ríkistjórnarflokkana er lögð áhersla á almenningssamgöngur, en þar segir m.a. að áfram þurfi að byggja upp almenningssamgöngur um allt land og gera innanlandsflug að hagkvæmari kosti fyrir íbúa.

Undanfarið ár hefur verið unnið að stefnumótun í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu í málefnum almenningssamgangna í landsbyggðinni þar sem markmiðið er að stuðla að samþættu kerfi almenningssamgangna á sjó, landi og lofti. Í meðfylgjandi greinargerð eru sett fram tillögur að helstu stefnumiðum í almenningssamgöngum sbr eftirfarandi.

Stefnt er að því að auka hlutdeild almenningssamgangna í ferðum milli byggða á Íslandi og stuðla þannig að umhverfisvænni, öruggari og þjóðhagslega hagkvæmari umferð um allt land.

Stefnt er að því að samþætt kerfi flugs, ferja og almenningsvagna virki sem ein heild þannig að styrkleikar hvers samgöngumáta nýtist á sem bestan hátt.

Lykilatriði í greinargerðinni eru:

– Samræmd viðmið um þjónustustig almenningssamgangna um land allt. Fjárveitingar taka mið af þjónustustigi hverrar leiðar sem tryggir gegnsæi og treystir rekstrargrundvöll samgangnanna.

– Leiðarkerfi á landi, sjó og lofti skulu samtengd. Leiðir með áfangastað innan sama sveitarfélags skulu stoppa á sameiginlegri stoppistöð. Í tímatöflum allra leiða, allra samgöngumáta, skulu koma fram upplýsingar með skýrum hætti um þær tengingar sem í boði eru, bæði varðandi tímasetningar og áfangastaði.

– Til þess að auðvelda aðgengi að kerfinu er stefnt er að því að öllum upplýsingum um leiðarkerfi almenningssamgangna verði komið á einn gagnvirkan upplýsingavef. Á þeim vef verði hægt að fá ferðatillögur í rauntíma, sem tengir saman mismunandi leiðir og ferðamáta og bjóði upp á kaup á farmiðum alla leið.

– Fargjöld í almenningssamgöngum verða lækkuð og þjónustan þannig gerð aðgengilegri almenningi. Niðurgreiðsla flugfargjalda í innanlandsflugi er risavaxin aðgerð sem mun að líkindum auka mjög á möguleika almennings á að nýta sér samfélagslega þjónustu sem oftar en ekki er einungis í boði á höfuðborgarsvæðinu. Sömuleiðis er litið til þess í stefnumótuninni að verðlagi í öðrum samgöngumátum sé stillt í hóf og að það sé samkeppnishæft við ferðalög með einkabíl.

– Fjárfest verði í innviðum almenningssamgangna, bæði á venjulegum biðstöðvum, sem og á skiptistöðvum. Stefnt er að því að á helstu hnútpunktum í kerfinu muni samgöngumiðstöðvar verða starfræktar.

– Lögð er á það áhersla að náið verði fylgst með tækniþróun í samgöngulausnum og -þjónustu. Samgöngulausnir sem byggja á samnýtingu þeirra samgangna sem þegar eru til staðar gætu lyft grettistaki í því að auka aðgengi að afskekktustu byggðum landsins.

– Forgangsraðað verði í þjónustu á vegum m.t.t. þarfa almenningssamgangna og hugað verði að sérstaklega að þeim ef viðhaldsaðgerðir skerða þjónustustig tímabundið á vegum.

– Farartæki skulu sniðin að þörf bæði út frá rekstrarhagræði og sömuleiðis út frá umhverfisáhrifum. Farartæku skulu eins og unnt er bjóða upp á samþættingu við aðra ferðamáta, svo sem hjólreiðar.

Sterkt almenningssamgöngukerfi jafnar stöðu landsmanna og færir okkur nær hvert öðru. Þess er vænst að sú stefnumótun sem lögð er hér fram muni tryggja áreiðanlega og góða þjónustu til allra landsmanna, stuðla að bættum þjóðarhag og styrkja byggðir landsins í sessi.

Viltu senda inn umsögn um málið?

Smelltu hér til að skrá þig inn með Íslykli eða rafrænni auðkenningu.

Ef umsögnin er send fyrir hönd samtaka, fyrirtækis eða stofnunar þarf umboð þaðan, sjá nánar hér.