Leó Ólason

FERNIR TÍMAR

Fyrir 100 árum eða þ. 20. maí 1918 birtist skemmtileg grein í vísindaskáldsögustíl í blaðinu FRAM, en að útgáfu þess stóðu þeir Hannes Jónasson og Friðbjörn Níelsson. Hún nefndist ÞRENNIR TÍMAR og var þar eins og eins konar þrílógía. Þar var farið aftur í tímann og lýst fábreytileikanum hundrað árum áður, en síðan var þáverandi nútíma og tíðaranda lýst. Að lokum var reynt að rýna hundrað ár fram í tímann og ímyndunaraflið virkjað, kannski bæði í gamni og alvöru svona í bland hvort við annað. Við getum svo borið útkomuna saman við yfirstandandi ár og brosað út í annað ef ekki bæði.

En til að ganga skrefinu lengra en FRAM-menn gerðu, datt mér í hug að ímynda mér hvernig Siglufjörður liti út eftir þúsund ár eða svo.

Ég leyfi mér að endursegja eða öllu heldur uppfæra greinarstúfana þrjá sem birtust í FRAM með smávægilegum ritháttarbreytingum, og bæta fjórða kaflanum við.

20. MAÍ 1818.
Það er sumarmorgunn og þoka liggur yfir hafinu. Seglskipið Már hefur ekki haft landsýn í samfleytt fimm sólarhringa og hvorki skipstjórinn, afi minn né nokkur annar af skipshöfninni getur sagt til um hvar í Íshafinu skipið er statt. Um miðjan dag sést til lands á bakborða og þokunni léttir smám saman. Hinn litli vindsvali eykst og að lokum er hann orðinn að stinningsbyr sem ber skipið að landi og það sést íSiglunesiðog um kvöldið liggur það inni á hinni skjólsælu Siglufjarðarhöfn. Með fram fjallahlíðunum innan til í firðinum og niðri á eyrinni standa nokkur hús og allflest úr torfi. Nokkrum litlum bátum er róið út að skipinu, því hinir sárafáu íbúar vilja nota þetta sjaldgæfa tækifæri til að fá einhverjar fréttir af umheiminum. Kaupmaðurinn á staðnum leitar eftir viðskiptum við skipverja en varningurinn sem hann hefur að að bjóða er fremur fábrotinn og einhæfur. Morguninn eftir er skipið farið og höfnin aftur orðin auð. Siglufjörður er aftur orðinn eins og hann var og hefur löngum verið. Einangrað byggðarlag þar sem fáir eiga leið um. Þrúgandi kyrrðin og afgerandi tilbreytingarleysið eru helstu einkenni staðarins. Kannski kemur annað skip siglandi inn fjörðinn einhvern tíma seinna, en hver veit svo sem hvenær það verður. 20.

20. MAÍ 1918.
Fallbyssuskot ríður af, bærinn er allur fánum skrýddur og það er hringt til guðsþjónustu í kirkjunni. Hátíðadagskrá hefur verið prentuð í lit á pappír og það hafa verið ort kvæði í tilefni dagsins. Það eru gengnar skrúðgöngur, já meira að segja fleiri en ein sama daginn og syngjandi flokkur prúðbúinna barna fer á undan göngunum. Þetta eru þau sem erfa skulu landið. Fólk er skrautklætt og það má sjá silki og flauelsklæði, og einnig glitra á gull og silfur. Hljóðfærasláttur heyrist víða svo og söngur, bæði raddaður og eintóna. Það eru haldnar margar snjallar ræður, íþróttasýningar eru haldnar og um kvöldið er dansleikur þar sem dragspilið er þanið til hins ýtrasta. Allan daginn, allt kvöldið, alla nóttina á eftir og langt fram á næsta dag er hvarvetna svo mikið líf og fjör að undrum sætir. Hiniru.þ.b. þúsund íbúar þorpsins hafa líka ástæðu til að fagna, því í dag á þessi bær 100 ára afmæli sem löggiltur verslunarstaður og í dag verður hann líka kaupstaður. Í þessum firði voru aðeins örfá hús fyrir 100 árum, en núna er hérna risinn stór bær. Í dag eru hérna 20 kaupmenn með starfsemi sína þar sem aðeins einn var fyrir öld síðan. Hér hafa risið verksmiðjur og hér er nú söltuð meiri síld en annars staðar á landinu. Allir eru fullir bjartsýni og björt framtíðin blasir við. Einhverjir íbúar gullgrafarabæjarins vildu jafnvel breyta nafni hans í í Síldarfjörð.

20. MAÍ 2018.
Hraðlestin sem fór frá Reykjavík fyrir fjórum stundum, staðnæmdist á hinni íburðarmiklu járnbrautarstöð í bænum við síldarfjörðinn sem heitir reyndarennþáSiglufjörður. Skömmu síðar er farþegum lestarinnar ekið í glæsibifreiðum til hins glæsilega hótels sem dregur nafn sitt af firðinum og er þekkt víða um lönd fyrir hreint ótrúlega mikinn glæsileika. Þar inni eru samankomnir hundruð gesta frá flestum þjóðríkjum heimsins og því talaður aragrúi tungumála sem blandaðist síðan saman í undarlegan og óskiljanlegan klið. Það stóð líka mikið til því bærinn er hundrað ára og hefur einnig verið verslunarstaður í heil 200 ár. Á hverju götuhorni eru einhverjar uppákomur, alls konar skemmtiatriði og raunar allt það sem má verða til þess að gera hátíðina sem glæsilegasta og eftirminnilegasta. Innan skamms mun hefjast kappróður á neðansjávarbátum sem er vissulega forvitnilegt fyrirbæri og þykir hið mesta tækniundur. Þúsundir áhorfenda eru að koma sér fyrir á bryggjunum umhverfis gömlu höfnina. Annars hefur bærinn stækkað og fólkinu fjölgað jafnt og þétt síðustu áratugina, byggðin nær næstum því umhverfis allan fjörðinn og m.a. er komin talsverð byggð úti á Siglunesi. Fjörðurinn er líka allur orðinn því sem næst ein allsherjar höfn, en það er orðið gerlegt vegna stíflunnar eða ísgildrunnar sem hefur verið byggð þvert fyrir fjarðarkjaftinn. Þetta er risavaxið mannvirki sem hingað til hefur staðið af sér öll veður, hafís og allt það sem valdið getur skaða inni á firðinum. Ekki er það svo til að gera annað en gott betra að veðrið var eins og best varð á kosið. En það hafði líka kvisast út að fyrir lægi tillaga um að breyta nafni bæjarins í Síldarfjörður, og ekki laust við að sú frétt ylli talsverðri ókyrrð meðal bæjarbúa.

20. MAÍ 3018.
Í dag er bærinn, eða öllu heldur borgin okkar N3697ac, sem við köllum oftast Norðurbyggð, þúsund ára gömul. Hún hét eitt sinn Siglufjörður, þá Fjallabyggð, en Síldarfjörður þegar síldin kom aftur. Siglufjarðarnafnið var svo tekið upp öðru sinni þegar hún hvarf í seinna skiptið og var við lýði allt þar til að heimurinn fór að breytast og mannkynið þurfti að fara að aðlaga sig að hinum nýju aðstæðum. Borgin þykir um margt merkileg fyrir sérstæða sögu sína sem allir hér eru mjög stoltir af. Íbúum fjölgaði svo verulega þegar stór svæði sunnar í álfunni urðu óbyggileg og þjóðflutningarnir miklu hófust. Hér búa núna alls rétt innan við milljón íbúa, en samkvæmt áætlunum yfirvalda mun þeim fækka verulega á næstu árhundruðum vegna fyrirhugaðra kynbótastýringa.

En margt fleira hefur gerst á þessu rúma árþúsundi sem liðin eru frá stofnun hans. Síldin sem varð til þess á sínum tíma að byggð fór að myndast á þessum stað fyrir löngu, er alveg horfin úr hafinu sem og allur annar fiskur eftir því sem við best vitum. Aðeins er nægilega mikið DNA efni varðveitt til að hægt sé að einrækta fiska og aðrar sjáfardýrategundir ef rétt skilyrði eiga einhvern tíma eftir að myndast á ný. Reyndar eru sögusagnir á kreiki um að örfáar tegundir séu enn til lifandi á vandlega földum rannsóknarstofum utan við borgirnar, en ekki er líklegt að núlifandi fólk eigi mikla möguleika á að sjá með eigin augum furðuskepnur eins og síld, ýmsar tegundir þorskfiska eða einhver önnur undarleg dýr sem svömluðu ýmist í sjó eða vötnum hér í eina tíð.

Um það bil þúsund árum eftir að land byggðist fóru menn að gera fyrstu jarðgöngin í því skyni að greiða fyrir samgöngum. Nú er svo komið að flestallar samgönguæðar heimsins eru neðanjarðar, því ekki er talið öruggt að vera á ferli óvarinn utan svokallaðra skyggðra svæða og þar sem andrúmsloftið er einnig hreinsað. Það er því enga vegi, flugvelli, hafnir eða brautarstöðvar að finna lengur ofan jarðar og er Ísland í dag þar engin undantekning.

Af hagkvæmnisástæðum var farið að þétta byggðina verulega fyrir 5-600 árum og íbúarnir söfnuðust saman í þessar lokuðu borgir sem eru að mestu ofanjarðar. (skyggðu svæðin.) Ísland sem er næst minnsta héraðið í hinni sameinuðu Evrópu, er eitt skipulagssvæði. Byggingarnar sem mynda borgirnar eru líka því sem næst loftþéttar, vegna þess hve samsetning lofthjúps jarðar hefur breyst. Á íslandi hafa nú verið settar á stofn 11 borgir ekki ósvipaðar og sést á myndinni og er suðvesturborgin langstærst.

Framleiðsla matvæla hefur tekið miklum breytingum og er í sífelldri endurskoðun. Öll matvæli sem neytt er í dag eru erfðabreytt, því annars gæti jörðin ekki brauðfætt mannkynið við núverandi aðstæður. Líftæknifyrirtæki hafa um aldir hagnýtt þekkingu sína á sameindalíffræðinni til að flytja gen milli lífvera í því skyni að þróa nýjar og söluhæfar afurðir. Fæðan sem við leggjum okkur til munns í dag, er því samansett úr genum sem eiga uppruna sinn bæði í jurta og dýraríkinu. Erfðatæknin gerir vísindamönnum nútímans kleift að blanda saman genum úr t.d. bakteríu, appelsínu, fiski, næpu, nashyrning og jafnvel manni og útkoman væri ekkert af þessu, heldur eitthvað allt annað sem byggi þó yfir völdum eiginleikum frá hverri tegund. Matvælaframleiðsla fer fram á svæðum í nánd við borgirnar. Þau líkjast litlum þorpum af undarlegum kúlutjöldum, en mikil leynd hvílir yfir starfseminni og í raun veit ekkert venjulegt fólk hvað fram fer þar.

Vísindamenn starfrækja nokkrar risastórar og færanlegar rannsóknastofur (eins og sést á myndinni) sem líkjast helst einhverju fornu skordýri. Eða þá geimfari eins og lýst er í Innrásinni frá Mars í sögu H. G. Wells sem hann skrifaði árið 1898 en hefur nú verið bönnuð eins og margar aðrar vísindaskáldsögur, en enginn veit af hverju. Það skiptir svo sem ekki öllu máli því yfirvöld sjá þegnunum fyrir nægu lesefni og öðru afþreyingarefni svo engum þarf að leiðast. En það veit líka enginn í raun og veru hvað gerist inni í þessum förum sem koma stundum, staldra við í einhvern tíma og hverfa síðan aftur.

Íbúarnir sem flestir búa ofan jarðar, geta séð og skynjað þann hluta sólarljóssins sem ekki er síaður úr heildarljósflæðinu inn um gríðarlega þykkt gler sem er á öllum byggingum. Fyrir hundruðum ára eyddist ósonlagið því nær algjörlega en hefur smátt og smátt verið að myndast á ný þó langt sé enn í land. En það er ekki allt, því mikil hrina sólgosa af áður óþekktri stærðargráðu hafur staðið látlaust yfir allt frá árinu 2410. Stærð og umfang sólsprenginga, segulstorma, sólbletta, geimgeisla, agnaskýja sem áður voru þekkt blikna í samanburði við það sem þá hófst. Hlutfall lofttegunda bæði náttúrulegra og manngerðra svo sem brennisteinsvetni, koldíoxíð, tví-nituroxíð, vetnisflúorkolefni, og klórflúorkolefni hefur farið vaxandi í lofthjúpi jarðar á sama tíma og hlutfall súrefnis hefur farið minnkandi. Jörðin væri því lítt eða jafnvel alveg óbyggileg með öllu ef ekki væru skyggðu svæðin, hreinsaða andrúmsloftið, hinar nýju aðferðir við framleiðslu matvæla og neðanjarðar samgöngunetið.

Þökk sé yfirvöldum og vísindamönnunum.

Grein og mynd: Leó Ólason