Nýlega gerðist það á Siglufirði sem telja má “heimsviðburð” að ærin Demantur bar fimm lömbum sem eru 2 hrútar og 3 gimbrar.

Lömbin voru öll svipuð að stærð þegar þau komu í heiminn, en 2 þeirra eru á pela. Þau eru öll mjög spræk og þyngjast vel, og móðirin Demantur er dugleg að passa upp á hópinn sinn úti.

Faðirinn (hrúturinn) heitir NesBjössi.

Ærin Demantur er 5 vetra og eigandinn er Jóhanna U. Haraldsdóttir.

Í hittifyrra kom Demantur með fjögur lömb og alls eru lömbin sem Demantur hefur gefið af sér orðin 17.

Þegar svo mörg lömb koma í einu hjá einni kind er oft reynt að venja sum þeirra á aðra kind, en þegar það gengur ekki þarf að gefa lömbunum af pela.

Það eru hjónin Haraldur Björnsson og Ólafía Guðmundsdóttir (Halli og Lóa) sem eru með fjárbúskap á Siglufirði. Jóhanna, eigandi Demants er dóttir þeirra.

“Það voru um 80 stykki í húsinu núna síðasta vetur, alla vega 7 þrílembdar og hinar flestar tvílembdar” sagði Lóa í samtali við Trölla.

Aðspurð um hvernig búskapurinn hafi gengið í vetur sagði hún: “Það gekk vel en erfitt var stundum að komast vegna snjóa og veðurs til að gefa. Guðni Sveins bjargaði mér í vetur t.d. að koma rúllum uppúr snjósköflum og að húsinu. Það hef ég aldrei lent í að þurfa að gera. Þessi vetur var sá erfiðasti síðan ég byrjað frístundabúskap.”

Varðskipsmenn sáu til kinda á Siglunesi en þar voru 4 kindur og 1 hrútur frá þeim Halla og Lóu sem voru á Siglunesi í vetur og voru sótt af vöskum mönnum, þeim Óðni Rögnvalds ásamt fríðu föruneyti sem komu þeim heim.

“Þessar 4 kindur voru fyrstar til að bera í húsinu í vor, þar komu 6 lömb undir ;)” sagði Lóa að lokum.

Mynd: Jón Steinar Ragnarsson