Fiskidagurinn Mikli á Dalvík og ferðaþjónustufyrirtækið Arctic Adventures undirrituðu samning um að síðarnefndu verði einn af aðalstyrktaraðilum fjölskylduhátíðarinnar Fiskidagsins Mikla á Dalvík. Jafnframt var tilkynnt um verkefni í hreinsun á fjörum við utanverðan Eyjafjörð í tengslum við hátíðina. Arctic Adventures mun útvega báta og búnað til að fara upp í fjörur og hreinsa þar til. Áætlað er að fara í þessa hreinsun fimmtudaginn 8. ágúst. Ruslið og það sem finnst við strendurnar mun verða til sýnis á laugardeginum eða sjálfum Fiskideginum Mikla til að vekja fólk til umhugsunar og til að sýna hvað það er sem finnst í fjörutiltekt. Mikil vakning hefur orðið fyrir mikilvægi þess að hreinsa hafið og strandlengjur landsins. Við utanverðan Eyjafjörð eru margar fjörur illfærar og þar mun verkefnið að mestu fara fram. Fiskidagurinn Mikli og Arctic Adventures munu síðar auglýsa eftir fólki til að taka þátt.
Júlíus Júlíusson segist vera himinlifandi að fá Arctic Adventures inn í hóp aðalstyrktaraðila Fiskidagsins Mikla og hann segir það frábært fyrir Fiskidaginn Mikla að fá aðila sem hafa sterka umhverfisvitund þar sem að hátíðin hefur verið að setja umhverfismál í fyrsta sæti og bæta sig á hverju ári í þeim efnum. Hann segir einnig að það sé magnað að þetta áhugaverða verkefni verði hluti af dagskrá Fiskidagsins Mikla og að gestir og heimamenn geti lagt sitt af mörkum með þátttöku.
Önnur umhverfisverkefni sem Arctic Adventures stendur fyrir ásamt starfsmönnum sínum eru minnkun úrgangs, aukin endurvinnsla og fræðsla til ferðamanna um mikilvægi umhverfisverndar, bæði fyrir komuna til landsins og í ferðum með Arctic Adventures. Arctic Adventures hefur einnig fjárfest í aukinni rafvæðingu bílaflota félagsins og býður tækifæris til að fjölga rafbílum fyrirtækisins enn frekar. “Við erum mjög stolt af að verða einn aðalstyrktaraðili fjölskylduhátíðarinnar Fiskidagsins mikla nú á 10 ára afmæli hvalaskoðunar Arctic Adventures á Dalvík. Það hefur verið mikil vitundarvakning í hreinsun hafsins og strandlengju Íslands og við viljum leggja okkar að mörkum og nýta bátakost okkar til að fara á þau svæði sem erfitt er að hreinsa” segir Freyr Antonsson hjá Arctic Adventures.
Mynd:
Freyr Antonsson og Júlíus Júlíusson um borð í hvalaskoðunarbátnum Draumi við undirritunina.