13. júní kynnti Hafrannsóknastofnun úttekt á ástandi nytjastofna og ráðgjöf fyrir næsta fiskveiðiár. Á grundvelli langtímamarkmiða um sjálfbæra nýtingu er lagt til aflamark fyrir á þriðja tug stofna, sem miðast við varúðarsjónarmið og hámarksnýtingu til lengri tíma litið. Ráðgjöfina má nálgast á vef Hafrannsóknastofnunar undir Ráðgjöf.
Hafrannsóknastofnun ráðleggur 3% aukningu á aflamarki þorsks byggt á aflareglu stjórnvalda, úr 264.437 tonnum í 272.411 tonn fyrir fiskveiðiárið 2019/2020. Samkvæmt stofnmatinu í ár er stærð viðmiðunarstofns svipuð og árið 2018. Árgangar frá 2013 og 2014 eru við langtímameðaltal en árgangarnir frá 2016 og 2017 eru undir meðaltali. Fyrsta mat á 2018 árganginum bendir til að hann sé fyrir neðan langtímameðaltal. Gert er ráð fyrir að viðmiðunarstofn verði svipaður að stærð eða minnki á næstu árum.
Samkvæmt endurskoðaðri aflareglu verður aflamark ýsu 41.823 tonn fiskveiðaárið 2019/2020 sem er 28% lækkun frá fiskveiðiárinu 2018/2019 en svipað ráðgjöfinni fyrir fiskveiðiárið 2017/2018. Ástæða lækkunarinnar er lækkun á veiðihlutfalli í aflareglu ýsu úr 0.40 í 0.35 auk þess sem að spá um vöxt 2014 árgangsins gekk ekki eftir. Aflaregla ýsu var rýnd af Alþjóðahafrannsóknaráðinu (ICES) og var niðurstaðan að veiðihlutfall upp á 0.4 samræmdist ekki varúðarsjónarmiðum vegna breytinga sem orðið hafa í kynþroska ýsu sem verður nú kynþroska stærri og eldri en áður. Gert er ráð fyrir að viðmiðunarstofn ýsu stækki á næstu tveimur árum en dali svo.
Aflaregla ufsa var einnig tekin fyrir af ICES og er hún talin samræmast varúðarsjónarmiðum. Samkvæmt aflareglunni verður aflamark ufsa 80.588 tonn fiskveiðiárið 2019/2020 sem er aukning um 2% frá síðasta ári.
Árgangar gullkarfa hafa verið með lakasta móti frá 2006 og af þeim sökum hefur hrygningarstofn minnkað. Samkvæmt aflareglu verður heildaraflamark gullkarfa 2019/2020 því 43.568 tonn sem er svipuð ráðgjöf og fyrir síðasta fiskveiðar. Ráðgjöf fyrir grálúðu lækkar um 12% frá fyrra ári og er 21.360 tonn fyrir fiskveiðaárið 2019/2020.
Stofn íslensku sumargotssíldarinnar hefur minnkað ört á undanförnum árum vegna slakrar nýliðunar og frumdýrasýkingar í stofninum. Þannig hefur stofninn minnkað um nær 60% á undanförnum áratug. Ekki er að vænta mikilla breytinga á stofnstærðinni á næstu árum þar sem árgangar sem eru að koma inn í veiðistofninn eru metnir litlir og sýkingarhlutfall mælist hátt. Samkvæmt aflareglu fyrir síld verður aflamark næsta fiskveiðiárs um 34.572 tonn, sem er 2% lækkun frá yfirstandandi fiskveiðiári.
Nýliðunarvísitölur margra stofna eins og hlýra, gullkarfa og blálöngu hafa verið lágar undanfarin ár. Ef svo fer sem horfir mun veiði úr þessum stofnum dragast verulega saman á næstu árum.