Opnun sýningarinnar í Ólafsfjarðarstofu á efri hæð Pálshúss fór ekki mjög hátt í fyrra enda truflaði Covid þá samkomuhald verulega. Á þeirri sýningu er sagt frá upphafi byggðar í Ólafsfirði og lífinu í bænum á síðustu öld gerð nokkur skil, m.a. með fallegri uppsetningu á báta- og skipslíkönum, herbergi sem tengist skíðaiðkun og knattspyrnu auk þess sem litið er inn á vel búið heimili í bænum um miðja öldina. Þessi sýning er einstaklega vel hönnuð og Ólafsfjarðarstofan öll hin glæsilegasta. 

Á neðri hæð Pálshúss er sýning um Ólafsfjarðarvatn og náttúrugripasafnið. Þar má skoða alla íslensku fuglaflóruna ásamt því að fjallað er um flugþrá mannsins og draum hans að geta flogið. Börn hafa sérstaklega gaman af fuglasýningunni og hefur hún mikið fræðslugildi.   

Auk þess er þar salur þar sem haldnar eru fjölbreyttar myndlistarsýningar og tónleikar. Nú er þar sýning Péturs Magnússonar sem lýkur 24. júní. Eftir það opnar Hulda Hákon sýningu í salnum sem stendur út júlí og í ágúst sýnir Helga Pálína Brynjólfsdóttir verk sín þar.

Ljósmyndari: Guðrún Þórisdóttir