Skíðasvæðið í Skarðsdal Siglufirði var opnað á jóladag, 25. desember, 20 dögum seinna en í fyrra.

Mikil aðsókn er að svæðinu og síðustu 5 daga voru fleiri gestir en allan desember á síðasta ári. Veðurspár benda til þess að góður snjór verði næstu viku svo skíðaáhugafólk ætti að komast á skíði í Skarðsdalnum.

Egill “Skarðsjarl” forstöðumaður er nokkuð sáttur með að hægt var að hafa opið um jólin, því margt fólk var þá í fjallinu.

Svæðið verður opið alla daga sem hægt er frá kl. 14 – 19 og 10 – 16 um helgar.

Í dag, gamlársdag verður opið frá 11 – 14 en allar nánari upplýsingar má finna á vefsíðu Skíðasvæðisins, skardsdalur.is

Símsvari sem uppfærður er reglulega með upplýsingum um veður og færi er í síma 878.3399

Egill var spurður í stuttu viðtali við Trölla í gær hvað framkvæmdum við breytingar á skíðasvæðinu liði og hann svaraði því til að ekki náðist s.l. sumar að klára veg, sem er aðeins um 1 km að lengd, vegna þess að þótt menn hefðu talið að nóg efni væri að finna í dalnum til vegagerðar hefði ekki fundist “ein teskeið af efni” eins og Egill orðaði það. Vonir standa til að vegurinn klárist næsta sumar og þá verði hægt að hefja uppbyggingarstarf sem undanfarið hefur þurft að bíða.

Daglegt snjóflóðaeftirlit er á skíðasvæðinu og þar er ekki telft í neina hættu. Allir 5 – 7 starfmennirnir eru með sérþjálfun í að bregðast við slysum og þegar fréttamaður spurði Egil hvort þeir kynnu allir að standa á skíðum hló hann við og staðfesti það að þeir eru allir skíðamenn.

Skíðafélagið Skíðaborg Siglufirði rekur sjoppuna í skíðaskálanum með myndarbrag, og geta fréttamenn Trölla vottað að pylsurnar eru afbragðsgóðar hjá þeim, og kaffið ekki síðra.

Jón Garðar Steingrímsson