Matvælastofnun hefur uppfært upplýsingasíðu sína um COVID-19 með fleiri spurningum og svörum um kórónaveiru og matvæli. Spurningarnar snúa að mötuneytum, veitingastöðum, matvælafyrirtækjum, sjálfsafgreiðslu matvæla, innkaupavögnum og körfum:

Hvað á að gera ef starfsmaður í mötuneyti, eldhúsi eða öðru matvælafyrirtæki greinist með kórónuveiru?

Fólk sem hefur verið greint með COVID-19 sjúkdóminn eða er með veruleg öndunarfæraeinkenni (nefrennsli, hósta, hnerra) má ekki vinna við að framleiða, matreiða eða bera fram matvæli. Samkvæmt reglugerð um hollustuhætti sem varða matvæli skulu stjórnendur matvælafyrirtækja gera fullnægjandi ráðstafanir til að tryggja að starfsfólk, sem meðhöndlar matvæli, sé heilbrigt.

Ef starfsmaður hefur greinst með Covid-19 og verið í vinnu eftir að einkenni komu fram skal fylgja leiðbeiningum landlæknis sem taka m.a. til þrifa á vinnustöðum.

Hafi starfsmaður  í mötuneyti, veitingastað eða öðru matvælafyrirtæki verið smitaður af veirunni, gæti hann hafa borið smit í matinn?

Kórónavírusar þurfa hýsil (menn eða dýr) og geta því ekki fjölgað sér í mat. Litlar líkur eru taldar á vírusinn geti borist með matvælum. Smit með matvælum þyrfti í öllu falli að fela í sér mengun frá sýktum einstaklingi sem meðhöndlar matvæli með óhreinum höndum, eða með dropasmiti frá hósta eða hnerra.

Hvað geta mötuneyti og önnur matvælafyrirtæki gert til að forðast kórónuveiru smit?

Fylgja ráðleggingum Landlæknis varðandi kórónuveiruna og smitvarnir.

Brýna skal fyrir starfsmönnum sem höndla með matvæli að þvo hendur:

  • áður en þeir byrja að vinna
  • áður en þeir meðhöndla elduð matvæli eða matvæli tilbúinn til neyslu
  • eftir meðhöndlun eða undirbúning hráefna
  • eftir meðhöndlun úrgangs
  • eftir þrifastörf
  • eftir salernisferðir
  • eftir neysluhlé / matarhlé

Að elda mat og fylgja góðum hreinlætisvenjum við meðhöndlun og undirbúning matvæla er áhrifarík leið til að koma í veg fyrir að matur mengist af kórónavírus. Kórónaveirur þrífast ekki við dæmigert hitastig við eldun matvæla.

Sjá nánar í leiðbeiningum um hlaðborð og heilræði við meðhöndlun matvæla.

Ættu fyrirtæki að vera sérstaklega varkár við að þrífa og sótthreinsa í eldhús og veitingastaði um þessar mundir?

Fyrirtæki eiga að fylgja hefðbundnum þrifaáætlunum í eldhúsum og matvælavinnslum. Algeng sótthreinsiefni (þar með talið þau þau sem innihalda alkóhól) valda því að kórónaveiran verður óvirk. Kórónaveiran smitast ekki með matvælum en vegna hættu á smiti milli manna getur verið nauðsynlegt að þrífa og sótthreinsa sérstaklega yfirborð og áhöld sem margir snerta með stuttu millibili. Fyrirtæki ættu að fara yfir verklag við þrif og/eða þrífa oftar en venjulega búnað sem margir nota.  

Er meiri hætta á að smitast við sjálfsafgreiðslu matvæla en við skömmtun?

Smitaður einstaklingur gæti borið smit á áhöld s.s. tangir, skeiðar og brúsa sem notuð eru við sjálfsafgreiðslu og skömmtun. Ef slíkt smit berst á hendur annars viðskiptavinar gæti sá einstaklingur smitast við það að bera hendur upp að andliti sínu. Ef leiðbeiningum sóttvarnalæknis er fylgt varðandi handþvott og aðrar smitvarnir er dregið verulega úr hættu á smiti.

Veitingahús og mötuneyti sem bjóða upp á sjálfsafgreiðslu ættu að auka tíðni þrifa á svæðum þar sem boðið er upp á sjálfsafgreiðslu og hafa spritt til sótthreinsunar aðgengilegt fyrir viðskiptavini.

Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga mæla með því að þjónustuaðilar með hvers konar sjálfsafgreiðslu ópakkaðra matvæla þ.m.t. sælgæti dragi úr henni eða hætti alveg á meðan faraldurinn gengur yfir.  Hér er ekki átt við sjálfsafgreiðslu ávaxta og grænmeti.

Til að draga úr hættu á smiti frá viðskiptavinum við sjálfsafgreiðslu matvæla gætu mötuneyti og veitingastaðir tekið upp skömmtun í stað sjálfsafgreiðslu. Slík ráðstöfun er mikilvæg þegar viðkvæmir einstaklingar eða aldurshópar eru þjónustaðir. Embætti landlæknis og Almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra leggur til að matur sé skammtaður af starfsmönnum í leik og grunnskólum, sjá nánar „Upplýsingar vegna kórónaveiru COVID-19 – Mötuneyti leik- og grunnskóla“.

Ítarefni


Mynd:pixabay