“Eftir mikla úrkomu en þetta er með því allra mesta sem ég hef séð. Fljótaá sést varla og yfirborð vatnsins er stutt frá því að ná upp í brúargólfið. Auk þess lokar brim sem fylgir norðanáttum ós Miklavatns við sjávarmölina sem hjálpar auk þess til” segir bóndinn á Molastöðum í Fljótum Halldór Gunnar Hálfdansson.
Halldór Gunnar tók þessar myndir í gær og eins og sjá má eru tún víðsvegar undir vatni og ljóst er að ekki má miklu muna að tjón verði á mannvirkjum.
Miklavatn er 7,4 km² stöðuvatn í Fljótum í Skagafirði og er annað stærsta stöðuvatn héraðsins. Grandinn Hraunamöl skilur það frá sjó en frárennsli úr vatninu er um Hraunaós. Vatnið er gamall fjörður en grandinn hefur svo hlaðist upp og lokað honum.
Í vatninu er mikil silungsveiði en þar sem sjór gengur oft inn í vatnið og það er saltara á botninum veiðast þar einnig ýmsir sjávarfiskar. Í Miklavatn rennur Fljótaá úr Stífluvatni en einnig renna í það smærri ár og lækir.
Snemma á 20. öld var til umræðu að grafa skipgengan skurð í gegnum Hraunamöl og gera hafskipahöfn í Miklavatni en ekkert varð úr þeim áformum. Á 5. áratug aldarinnar höfðu sjóflugvélar sem stunduðu síldarleitarflug bækistöð á Miklavatni á sumrin.
Mynd og myndband /Halldór Gunnar Hálfdansson
Heimild/Halldór Gunnar Hálfdansson – Wikipedia