Þrír nemar í grunn- og framhaldsnámi í landslagsarkitektúr vinna nú að mannlífsverkefni í Dalvíkurbyggð. Það eru þau Auður Ingvarsdóttir, Pétur Guðmundsson og Styrmir Níelsson.

Verkefnið er styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna en umsjónarmaður verkefnisins er Anna Kristín Guðmundsdóttir, landslagsarkitekt og formaður skipulagsráðs Dalvíkurbyggðar. Ennig er Helga Íris Ingólfsdóttir, deildarstjóri Eigna- og framkvæmdadeildar Dalvíkurbyggðar, tengiliður sveitarfélagsins við verkefnið.

Markmið verkefnisins er að gæða miðbæjarsvæði lífi og styrkja mannlíf á Dalvík, Hauganesi og Árskógssandi.

Í tilkynningu frá forsvarsmönnum verkefnisins segir:
“Verkefnið felur í sér greiningu á svæðunum, hönnun og uppsetningu á tímabundnum hönnunarlausnum á afmörkuðum reitum innan miðsvæðanna. Stefnt er að því að óska eftir afgangsefnum frá fyrirtækjum á svæðinu til að nýta við hönnunina og jafnframt nýta efni sem finnst í náttúrunni. Planið er að innsetningarnar innihaldi eitthvað áhugavert og skemmtilegt fyrir íbúa og aðra gesti til að staldra við og njóta. Svo sem einhverja leiki, markaði, fegrun á umhverfi, dvalarsvæði, leiktæki eða listaverk. Í lok sumars verða innsetningarnar svo fjarlægðar og og niðurstöður verkefnisins settar fram í skýrslu. Markmiðið er að verkefnið sé unnið í góðu samstarfi við íbúa og höfum við hópurinn sent út spurningakönnun í íbúahópa á facebook. Við sjáum fyrir okkur að verkefnið muni sýna fram á möguleika fyrir uppbyggingu á áhugaverðum áfangastöðum fyrir íbúa og gesti svæðisins. Markmiðið með verkefninu er að auka aðdráttarafl sveitarfélagsins í sumar og skapa áhugaverða áningarstaði fyrir íbúa og ferðamenn. Þetta mannlífsverkefni sækir fordæmi í Torg í biðstöðu sem hefur verið í gangi í Reykjavíkurborg síðustu ár.”