Í vikunni hefur sorpbíll verið á ferðinni í Fjallabyggð á vegum Íslenska gámafélagsins að tæma plast- og pappatunnur. Einhver umræða hefur verið í gangi meðal bæjarbúa að pappa og plasti sé öllu “sturtað” saman í þennan bíl. Hið rétta í málinu er að þarna er um  sérútbúinn bíl að ræða fyrir sorphirðu og er hann tvískiptur. Í tvískiptum bílum er hægt að losa t.d. almennt sorp og endurvinnanlegt í sömu ferð án þess að blanda því tvennu saman. Því er allri flokkun í Fjallabyggð haldið til haga líkt og ráð er fyrir gert.
Bæjarbúar í Fjallabyggð hafa staðið sig virkilega vel í flokkun úrgangs og eru þeir áfram hvattir til dáða á sömu braut. Það er sameiginlegur hagur bæjarfélagsins og náttúrunnar að við stöndum okkur vel í þessum málaflokki. Íbúar eru þó beðnir um að setja pappasorp ekki í plastpoka í tunnunar. 

Fréttir af grenndargámum eru þær að Fjallabyggð bíður enn eftir afgreiðslu en gámarnir hafa verið uppseldir í landinu frá því í vor. Hafist verður handa við uppsetningu grenndarstöðva um leið og gámar koma til landsins og íbúum tilkynnt þar um. Ráðgert er að á hverri grenndargámastöð verði gámar fyrir málma, gler og textíl. 

Mynd/Fjallabyggð