Flutningur líflamba með verndandi og mögulega verndandi arfgerðir gegn riðuveiki yfir varnarlínur

Verklagsreglur fyrir veturinn 2022-2023
Umsóknir verða afgreiddar 12. september 2022

Flutningur sauðfjár yfir varnarlínur er bannaður samkvæmt lögum um dýrasjúkdóma nr. 25/1993. Matvælastofnun er þó heimilt að veita undanþágu frá þeirri reglu fyrir kynbótagripi, en hingað til hefur það ákvæði eingöngu verið notað til að flytja kynbótahrúta á sæðingastöðvar. Þá er í gildi sérstök reglugerð um sölu frá líflambasölusvæðum.

Í ljósi þess að nú hafa fundist gripir sem bera verndandi arfgerð gegn riðuveiki (ARR) og mögulega verndandi arfgerð (T137) hyggst stofnunin nýta þessa heimild til flutninga á líflömbum með þær arfgerðir inná sauðfjárræktarbú, að undangengnu áhættumati. Umsóknum um slíka flutninga skal skilað inn í gegnum þjónustugátt Matvælastofnunar.

Þá hvetur Matvælastofnun eindregið til sæðinga með hrútum sem bera verndandi arfgerðir svo halda megi flutningi líflamba á milli svæða í lágmarki.
Þar sem ætla má að eftirspurnin eftir þessu erfðaefni sé meiri en framboðið hefur Matvælastofnun skilgreint hvaða svæði/-bæir skuli njóta forgangs við kaup á líflömbum með framangreindar arfgerðir, þannig að þau nýtist sem best til að draga úr útbreiðslu riðuveiki.

Forgangssvæði 1
Bæir þar sem riða hefur komið upp undanfarin 7 ár og bæir með faraldsfræðilega tengingu við þá, svo sem sameiginlegan upprekstrarrétt eða annan þekktan samgang. Til að nýta erfðaefnið sem best er miðað við að stærð hjarðar sé um 300 kindur, því ekki verður heimilt að flytja aðflutta kynbótahrúta frá móttökubæjum.

Forgangssvæði 2
Bæir þar sem riða hefur komið upp undanfarin 7 ár og bæir með faraldsfræðilega tengingu við þá, en hjarðir minni en 300 kindur.

Forgangssvæði 3
Allir bæir á riðusvæðum (sýktum varnarhólfum) og ekki falla undir forgangssvæði 1 eða 2.

Annað
Undanþágan nær ekki til flutnings líflamba inn á hrein svæði (líflambasölusvæði).

Matvælastofnun mælist til þess að bæir á forgangssvæðum 1 og 2 auk bæja á hreinum svæðum njóti forgangs í úthlutun sæðis hrúta sem bera arfgerðirnar ARR og T137.