Til bænda í Húnaþingi vestra
Í ljósi stöðunnar sem upp er komin í sveitarfélaginu vildi ég senda ykkur nokkrar línur.
Eins og ykkur er kannski kunnugt, þá hafa búnaðarsamböndin á landsvísu í samstarfi við BÍ verið að safna upplýsingum um aðila sem tilbúnir eru að leysa af á sveitabæjum ef til þess kæmi vegna COVID-19 faraldursins sem nú geisar. Ég hef því upplýsingar um þó nokkra aðila sem gætu hlaupið undir bagga ef til þess kemur að veikindi hamla því að menn geti sinnt almennum gegningum.
Auðvitað er alltaf best, sé þess nokkur kostur að nýta vini og nágranna sem kunnugir eru á bænum, en ef þess er ekki kostur, þá má hafa samband við mig og ég mun finna einhvern sem getur hlaupið í skarðið.
Þar sem tölvupóstlistinn minn er ekki alveg tæmandi, þætti mér vænt um að þið mynduð gæta þess að þeir sem þið vitið um að hafi veikst, fái þessar upplýsingar.
Með kærri kveðju og einlægri von um að allt gangi vel,
Anna Margrét Jónsdóttir
amj@bondi.is