Göngur og réttir fóru fram í vesturhluta Fjallabyggðar um síðustu helgi.

Siglfirðingar og Fljótamenn smöluðu á Dölum og Siglunesi á laugardegi og í Siglufirði á sunnudegi. Enn áður höfðu þeir gengið í Hvanndölum og Héðinsfirði. Þannig að rekið var til réttar í slöttum og minni hópum en tíðkaðist áður á hinum mikla gangnadegi Siglufjarðarumdæmis þegar tvö til þrjú þúsund fjár var rekið saman og dagurinn var svo mikilvægur í samfélaginu að frí var gefið í skólanum.

En það er alltaf stemning kringum réttina; fólk hittist og sér kindurnar sínar aftur, greinir hvernig þeim hefur reitt af á rysjóttri sumartíð – og ekki síst bera menn saman hvernig smalamennskan gekk í skálum og skriðum og bröttum klettum á víðfeðmu leitarsvæði.

Miklu skiptir að allir komi heilir heim þótt alltaf geti verið um einhver vanhöld á fénaðinum. Svona hefur þetta verið í ellefu hundruð ár.

Gamall smali var nokkuð seinn að réttinni með myndavélina til að fanga stund og stað en samt – rétt náði því!

 

Á Kálfsskarði – Staðarhólshnjúkur í baksýn

Út Kálfsdal. Guðbrandur Skarphéðinsson í forgrunni

 

Reiðmenn kindanna. Dagbjört og Herdís á Sauðanesi

 

Beðið eftir næsta hópi. Árni Heiðar, Hulda Ósk, Júlía Þóra, Gunni Júl, Orri Wolfram, Dagbjört, Herdís á Sauðanesi og Óli Guðbrands

 

Hannibal á Sauðanesi, Einar Númason. Númi frá Þrasastöðum, Óðinn Rögnvalds, Mark Duffield, Orri Wolfram og Viðar á Hraunum

Þarna má greina Huldu Ósk, Óðinn, Mark, Sigurjón Erlends, Árna Heiðar, Guðbrand Óla og Andrés Stefáns

 

Texti og myndir: ÖK