Um helgina fór fram Íslandsmót yngri flokka í blaki en mótið fór fram í Mosfellsbæ.
Þetta var fjölmennasta Íslandsmót í mörg ár og BF lét sitt ekki eftir liggja en á þriðja tug krakka frá félaginu tók þátt.
Patrik Bors spilaði með bróður sínum og félögum hans í Aftureldingu í 2.flokki og lentu þeir í þriðja sæti, með einn sigurleik en tvo tapleiki.
Í 3. flokki stúlkna endaði liðið í 8. sæti með 7 unnar hrinur og 14 tapaðar en liðið spilaði 8 leiki á mótinu. Liðið sýndi oft á tíðum flott tilþrif og margar hrinurnar voru spennandi og vel spilaðar. Liðið er ungt að árum en þær frænkur Anna Brynja og Margrét Brynja eru á yngra ári og fengu þær aðstoð frá krökkunum í 4. flokki til að ná í lið og því er framtíð liðsins björt.
Í 4. flokki stúlkna tapaði liðið fyrsta leiknum en eftir það var ekki aftur snúið og hver sigurleikurinn leit dagsins ljós. Liðið spilaði 8 leiki, sigraði 7 þeirra en tapaði einum og 2. sætið niðurstaðan með 16 unnar hrinur en 4 tapaðar. Liðið var skipað fimm stúlkum sem allar eru á yngra ári en það eru þær Laufey, Hafey, Ísabella, Sylvía og Sigríður Birta. Alex og Agnar skiptust svo á að spila með þeim.
Í 5. flokki var spilað í blönduðum liðum og tóku 15 lið þátt. Í liði BF voru þeir Alex, Agnar og Sebastían. Spilað var eftir nýju fyrirkomulagi þar sem hver leikur var 2 x 10 mínútur og engin sjáanleg stigatafla heldur taldi dómarinn og tilkynnti svo úrslitin að leik loknum. Drengirnir unnu alla sína sjö leiki og stóðu upp sem Íslandsmeistarar í flokknum.
Í 6.flokki var spilað svokallað skemmtimót þar sem hver leikur var 2 x 8 mínútur og stigin ekki talin heldur var það ánægjan og gleðin sem skipti öllu máli ásamt því að læra leikinn og íþróttina enn betur. Í flokknum var spilað eftir tveimur stigum. Í stigi 3, þá eru þrjár snertingar þar sem önnur snerting er grip og kast, var BF með tvö lið en þau lið skipuðu annars vegar Steingrímur, Emma og Tinna og hins vegar Hilmir, Guðmundur, Mundína og Sebastían. Á stigi 1 í þessum flokki er kastað og gripið og leikmenn snúa um eina stöðu í hvert skipti sem kastað er. Þetta er byrjendastig í krakkablakinu og lukkaðist mjög vel. BF var með tvö lið á þessu stigi en þau lið skipuðu annars vegar Mundína, Katla og Hanna og hins vegar Ellen, Elísabet Ída og Marínó. Öll fjögur liðin í 6.flokki stóðu sig mjög vel og framfarir þeirra á mótinu voru miklar.
Í heildina var mótið vel heppnað og getur BF verið stolt af árangri sinna liða enda stóðu krakkarnir sig ótrúlega vel og voru þjálfararnir mjög ánægðir í mótslok.
BF bauð svo öllum krökkunum í Rush trampólíngarðinn á laugardaginn og var ótrúlegt að fylgjast með krökkunum hoppa og sprella eftir að hafa verið að spila blak í margar klukkustundir á undan.
Að lokum má minnast á þátttöku foreldra en foreldrar allra iðkenda fylgdu börnunum suður og tóku virkan þátt í helginni og skapaðist góð stemmning við það utan vallar.
Heimild og myndir: BF