Árgangsmót Sigló 48 var haldið á Siglufirði um helgina. Þar hittust fjölmargir af þeim sem fæddust á Siglufirði 1948. Það var fjölmennasti fæðingarárgangur á Siglufirði, alls rúmlega 120 fæðingar það ár, en íbúafjöldi á Siglufirði það ár var einnig mestur, rúmlega 3.100 manns, og  þetta var einnig fjölmennasti fermingarárgangurinn, alls 74 börn fermd 13. og 20. maí. 1962.

50% fermingarhópsins kom, 37 manns, og makar fylgdu mörgum svo hópurinn taldi í heild rúmlega 60 manns. Nokkrir eru fallnir frá og aðrir hafa ekki átt heimangengt. En hópurinn kom saman í Bláa húsinu á föstudagskvöld þar sem var gleðistund enda höfðu margir ekki sést áratugum saman. Þar var sýnd kvikmynd sem Ólafur heitinn Ragnarsson tók af fermingarathöfnunum 1962. Þar voru einnig á veggjum ljósmyndir eftir Sigurð Örn Baldvinsson.

 

 

Á laugardagsmorgun var farið í skógræktina og golfvöllinn í Skarðsdal, þar sem Guðmundur Skarphéðinsson leiddi hópinn og sagði frá. Eftir hádegið kom fólkið saman í kirkjunni þar sem Kjartan Örn Sigurbjörnsson, presturinn í árganginum, minntist þeirra sem látist hafa og Sverrir Páll fjallaði um sögu kirkjunnar.

Þá var farið að Síldarminjasafninu þar sem Guðmundur Skarphéðinsson og Hjálmar Jóhannesson afhentu Anítu Elefsen safnstjóra gjöf árgangsins, skilti sem sýnir öll síldarplön á Siglufirði og sérstaklega er með myndum sagt frá 6 síldarplönum þar um slóðir.

Skiltinu verður komið fyrir á steini við gangbrautina gegnt Bátahúsinu. Þetta er fyrsta síldarplanaskiltið af nokkrum sem fyrirhugað er að koma upp og þegar hafa verið lögð drög að því að annar árgangur gefi næsta skilti.

 

 

Eftir skoðunarstund í húsum Síldarminjasafnsins var haldið í Ljóðasetrið þar sem Þórarinn Hannesson söng, las upp og sagði frá, því næst var litið inn í Súkkulaðikaffihús Fríðu, Ljósmyndasafnið við Vetrarbraut og brugghús Seguls 67.

Um kvöldið var hátíðarsamkoma í Bláa húsinu í mat og drykk og fjölbreyttum skemmtiatriðum og minningum, Þórdís K. Pétursdóttir sem hefur verið í forystu þeirra sem undirbjuggu þessa hátíð ávarpaði gesti, Sigurður Örn var veislustjóri og ýmsir komu fram, meðal annarra Sigurður Helgi Sigurðsson sem flutti aðalatriði kvöldsins í lajusu máli og vísum og Gunnlaugur Jónasson og Sigurbjörg Bjarnadóttir sem höfðu frumkvæði að ýmsum upprifjunum sögulegra atburða. Elías Þorvaldsson spilaði undir allt sem sungið var.

 

 

Á sunnudagsmorgun hittist hópurinn í Barnaskólanum þar sem Sigurbjörg Bjarnadóttir leiddi hópinn um húsið og gerði grein fyrir þeim breytingum sem orðið hafa á starfseminni síðan við vorum þar nemendur.

Að lokum var kveðjustund í leikfimissalnum og frábærri helgi með sól í sinni var lokið. Sólin var einmitt þar því þoka og súld og jafnvel hellidembur gengu yfir, en slíkt skiptir ekki máli þegar vinir hittast eftir langa fjarveru.

 

 

 

Texti: Sverrir Páll Erlendsson
Myndir í frétt: aðsendar
Forsíðumynd: Sigurður Ægisson