Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir tilkynnti í gær að hún ætlar að gefa kost á sér í prófkjöri Pírata í Reykjavík fyrir alþingiskosningarnar í haust.
Arndís Anna var í léttu spjalli í gær á FM Trölla í þættinum Tíu Dropar sem er á dagskrá alla sunnudaga. Foreldrar hennar eru Gunnar Smári Helgason og Kristín Erna Arnardóttir.
Upptaka af viðtalinu er hér:
Tilkynning Arndísar:
Kæru Píratar,
Ég, Arndís Anna, dóttir þeirra Kristínar og Gunnars, mun gefa kost á mér í prófkjöri Pírata í Reykjavík fyrir alþingiskosningarnar 2021.
Á þeim árum sem liðin eru frá stofnun Pírata á Íslandi hefur hreyfingin sýnt það að hún er alvöru burðarafl í íslenskum stjórnmálum. Með hugsjónir og stefnu Pírata að leiðarljósi hafa komið fram einstaklingar sem hafa náð raunverulegum árangri í að breyta samfélagi okkar til hins betra. Því starfi skal ótrautt haldið áfram! Lýðræði og gagnsæi, og þrotlaus barátta gegn spillingu og spilltri samskiptamenningu í stjórnmálum sem víðar, er það sem dró mig að Pírötum til að byrja með. Síðan þá hefur hreyfingin sífellt aukið trú mína á mannkynið með heiðarlegum vinnubrögðum, upplýstum og upplýsandi, fullum af virðingu við almenna borgara landsins jafnt sem aðra.
Ég er sjálfstætt starfandi lögmaður en vann áður um árabil hjá Rauða krossinum á Íslandi, sem löglærður talsmaður hælisleitenda og flóttafólks. Ég er með meistaragráðu í lögum frá Háskóla Íslands og viðbótarmaster frá KU Leuven í Belgíu, þar sem ég sérhæfði mig í mannréttindum og Evrópusambandinu. Árið 2017 hóf ég doktorsnám í mannréttindum við háskólann í Strassborg í Frakklandi, en heimsfaraldur kórónuveirunnar kom í veg fyrir að ég lyki því að sinni.
Fædd í Reykjavík á ég þó rætur að rekja meðal annars til Hvammstanga og til Héðinsfjarðar. Á langri skólagöngu minni hef ég haft viðkomu víða, bæði innanlands sem utan. Bjó ég meðal annars um tíma á Húsavík og þar áður undir Eyjafjöllum, þeim sem heimsfræg eru orðin. Þá dvaldi ég sem skiptinemi á Ítalíu í eitt ár sem unglingur og bjó síðast í þrjú ár í Strassborg í Frakklandi, heimaborg Mannréttindadómstóls Evrópu. Ég bý nú í Reykjavík og á tvö börn.
Sérþekking mín er á sviði mannréttinda og stjórnskipunarréttar fyrst og fremst, en reynsla mín teygir anga sína víða. Ég hef gegnt stöðu sérfræðings í innanríkisráðuneytinu, unnið sem lögfræðingur Barnaverndarstofu og setið í kærunefnd greiðsluaðlögunarmála, svo fátt eitt sé nefnt.
Mín helstu baráttumál eru réttindi borgaranna; að þau séu öllum ljós og öll fái notið þeirra, óháð stöðu og efnahag. Þar undir falla ýmis málefni, svo sem réttindi fólks til þess að ráða eigin líkama og lífi og að þurfa ekki að þola neinskonar ofbeldi.
Sem stjórnmálamaður, líkt og í ævistarfi mínu, lögfræðinni, mun ég berjast fyrir frelsi einstaklingsins, og þá sérstaklega fyrir réttindum fólks sem enn á verulega undir högg að sækja. Réttindi aldraðra, innflytjenda, barna og fatlaðs fólks eru mér sérstaklega hugleikin og ég brenn fyrir því að bæta stöðu kvenna í ofbeldissamböndum. Ég er drifin áfram af einlægum ásetningi til að vinna þessum mikilvægu málum framgang. Því mun ég gefa kost á mér í prófkjöri Pírata og óska eftir stuðningi ykkar í eitt af efstu sætum listans í Reykjavík.
Með einlægri ósk um ykkar stuðning til góðra verka,
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir