SSNV veitir landshlutasamtökum sveitarfélaga á Íslandi (LHSS) forystu starfsárið 2018-2019. Í því felst m.a. seta framkvæmdastjóra í Stýrihópi stjórnarráðsins um byggðamál en hópurinn hefur það hlutverk að efla samhæfingu innan stjórnarráðsins í málefnum sem snúa að byggðamálum og tryggja virkt samráð við sveitarstjórnarstigið í þeim málaflokki. Hópurinn er skipaður til þriggja ára í senn skv. 2. gr. laga um byggðaáætlun og sóknaráætlanir nr. 69/2015. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skipar í hópinn en í honum eru fulltrúar allra ráðuneyta og fulltrúi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Auk þess situr fulltrúi landshlutasamtakanna fundi hópsins sem áheyrnarfulltrúi. Hólmfríður Sveinsdóttir er formaður hópsins.

Stýrihópurinn vinnur út frá þeirri skilgreiningu að byggðamál eru öll þau viðfangsefni sem hafa áhrif á lífsgæði og samkeppni landshluta, s.s. búsetu, atvinnu og nýsköpun. Þau snúa að eflingu samfélaga, félagsauðs, atvinnulífs, menntunar, menningar, velferðarmála, samgangna og fjarskipta. Samkvæmt þessari skilgreiningu, sem og lögum um byggðaáætlun og sóknaráætlanir landshluta, eru byggðamál viðfangsefni allra ráðuneyta með einhverjum hætti og ná til landsins alls. Það hefur enda sýnt sig að aðkoma allra ráðuneyta að stýrihópnum hefur reynst vel.

Á myndinni eru Hólmfríður Sveinsdóttir formaður stýrihópsins ásamt Unni Valborgu Hilmarsdóttur framkævmdastjóra SSNV á fyrsta fundi þeirra síðarnefndu með hópnum þann 22. október 2018.

 

ssnv.is