Í stefnumótandi byggðaáætlun 2018 til 2024 er lagt upp með að Ísland verði í fararbroddi með nútímainnviði, framsækna þjónustu og verðmætasköpun. Að lífsgæði verði jöfn, sveitarfélög öflug og geti annast staðbundin verkefni. Að þau geti veitt íbúum hagkvæma og góða þjónustu með markmið sjálfbærrar þróunar að leiðarljósi. Hérna skiptir byggðaþróun og atvinnuuppbygging á landinu miklu máli.
Í Grænbók, stefnu um málefni sveitarfélaga, sem nýlega var í samráðsgátt stjórnvalda, er tafla frá Byggðastofnun, spá um þróun mannfjölda á Íslandi 2017-2030 byggð á miðspá Hagstofu Íslands. Samkvæmt þeirri spá er ekki gert ráð fyrir viðsnúningi á mannfjöldaþróun síðustu áratuga sem þýðir að áfram verður aukningin mest á stór-Reykjavíkursvæðinu og áhrifasvæði þess, þ.e. á Suðurnesjum og Suðurlandi. Þá er spáð fólksfækkun á Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og Austurlandi á þessu tímabili. Sá þáttur sem spilar hvað fyrst inn í hjá fólki sem íhugar búferlaflutninga af þessum svæðum til suðvesturhornsins er einhæft atvinnulíf á núverandi búsetusvæði.
Þessari þróun verður að snúa við því sveitarfélög eiga að vera sjálfbær og óháð því að jöfnunarsjóður haldi þeim á floti vegna fólksfækkunar. Það verður ekki gert nema með skipulögðu inngripi af hálfu ríkisvaldsins. Þarna er aðgerðin „störf án staðsetningar“ ekki nóg. Þó ráðið sé í starf án staðsetningar og sá ráðni staðsettur fjarri höfuðborginni er tilhneigingin sú að einstaklingurinn endar á að flytja á stór-Reykjavíkursvæðið innan fárra ára þar sem höfuðstöðvar starfseminnar eru.
Alþingi Íslendinga þarf að taka upplýsta ákvörðun um að flytja Ríkisstofnanir og dreifa þeim um landsbyggðirnar með markvissum hætti. Þannig eru sveitarfélög styrkt, undið ofan af neikvæðri búsetuþróun og slagkraftur heimamanna aukinn.
Með því að flytja ríkisstofnanir í heilu lagi en ekki einstök störf eða deildir er byggt undir viðkomandi sveitarfélög með verðmætari störfum og breiðari þekkingu inn á svæðin. Þannig styrkist tekjugrunnur sveitarfélaga og ungt fólk sem hefur lokið námi á greiðari aðgang aftur til heimahaganna ef menntastörf eru í boði. Það er eitt af því sem vantar, hvati fyrir ungt fólk á barneignaaldri til að flytjast út um landsbyggðirnar.
Í Grænbók, kafla 6.2. á bls. 35, er fjallað um mögulegar leiðir sem gætu verið líklegar til árangurs. Eru pólitískt fýsilegar, tæknilega álitlegar, leiða til jákvæðra efnahagslegra áhrifa og langtímaáhrifa. Þar er m.a. bent á þá leið að fela tilteknum aðilum rekstur tiltekinna verkefna eða breyta stofnanakerfinu til að ná betur þeim árangri sem stefnt er að. Ofangreind leið, flutningur Ríkisstofnana út um landið, fellur vel að þessu markmiði og ætti að geta orðið mjög vænleg til árangurs til framtíðar litið. Slík byggðaaðgerð myndi hafa jákvæð áhrif á þróun byggðar og búsetu um allt land og myndi þannig styrkja sveitarstjórnarstigið.
Katrín Sigurjónsdóttir,
Sveitarstjóri í Dalvíkurbyggð og
stjórnarformaður Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar.