Frístundastyrkur Fjallabyggðar til barna á aldrinum 4 – 18 ára, að báðum árum meðtöldum, hækkaði um 5.000 kr eða í 45.000 kr þann 1. janúar 2023.

Barnið fær frístundastyrk frá 1. janúar árið sem það er 4ja ára og til loka ársins sem það verður 18 ára.

Frístundastyrknum er úthlutað gegnum kerfi sem heitir Sportabler.

Íþróttafélög setja æfingar sínar og skipulag upp í Sportabler og foreldrar búa sér til aðgang að kerfinu til að greiða æfingagjöld til íþróttafélaga. Íþróttafélög nota kerfið einnig til að hafa samskipti við foreldra um íþróttaiðkun barna þeirra. Sjá neðst í frétt hvar hægt að búa til aðgang – nýskrá inn á Sportabler kerfið.

Ef um er að ræða aðra en íþróttafélög í Fjallabyggð sem taka við frístundastyrk þá þarf að nálgast það í gegnum heimasíðu Fjallabyggðar, á Sportabler vefverslun þar er að finna námskeið og þjónustu ýmissa aðila sem ekki teljast til íþróttafélaga, en taka frístundastyrk upp í greiðslu fyrir þjónustu sína.

Með þessari nýju leið, við úthlutun frístundastyrkja barna, gefst tækifæri til að nýta frístundastyrk barnsins í öðrum sveitarfélögum svo framarlega sem námskeiðshaldarinn/íþróttafélagið sem um ræðir sé með skráningu og umsýslu námskeiðsgjalda í Sportabler.

Dæmi um þetta er að börn í Fjallabyggð geta nýtt frístundastyrkinn sinn til að greiða fyrir fimleikaæfingar á Dalvík.

Einnig er hægt að nýta frístundastyrk barna til að greiða skólagjöld í Tónlistarskólanum á Tröllaskaga, en tónlistarskólinn hefur nú tekið upp Sportabler.

Í öllum tilfellum þarf foreldri að fara inn á sínum aðgangi í Sportabler og staðfesta skráningu barns með sínum rafrænum skilríkjum, börn geta það ekki sjálf. Einungis foreldri sem deilir lögheimili með barni getur ráðstafað frístundastyrk barnsins.

Einungis er hægt að sjá hvað mikið barn á eftir ónýtt af styrknum sínum þegar komið er inn í skráningu á námskeiði. Ef foreldrar vilja kanna hve mikið barn á eftir ónýtt af styrk, og sjá það ekki í kerfinu, má hafa samband við deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningarmála í tölvupósti rikey@fjallabyggd.is . Eftirstöðvar frístundastyrks, sem ekki er nýttur fyrir miðnætti 31. desember ár hvert, falla niður.

Reglur um frístundastyrki barna á aldrinum 4 – 18 ára fyrir árið 2023
Sportabler vefverslun: https://www.sportabler.com/shop/fjallabyggd/
Nýskráning inn á Sportabler: https://www.sportabler.com/shop/