Ný Brunavarnaáætlun Slökkviliðs Fjallabyggðar hefur verið samþykkt í bæjarstjórn sveitarfélagsins annars vegar og hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hins vegar og öðlast hún þegar gildi. Markmið brunavarnaáætlunar er að tryggja að slökkvilið sé þannig mannað, skipulagt, útbúið tækjum, menntað og þjálfað að það ráði við þær áhættur sem eru til staðar í sveitarfélaginu.

Áætlunin á jafnframt að stuðla að því að vernda líf og heilsu fólks, eignir og umhverfi með fullnægjandi eldvarnareftirliti og viðbúnaði við eldsvoðum og mengunaróhöppum á landi. Þá gefur áætlunin íbúum og stjórn sveitarfélagsins yfirlit yfir starfsemi og stöðu slökkviliðsins og er grunnur að áætlun um endurbætur er varðar t.d. búnað, menntun og samstarf við aðra aðilar.

Sigríður Ingvarsdóttir, bæjarstjóri Fjallabyggðar segir afar ánægjulegt að ný brunavarnaráætlun sé í höfn. Nýja áætlunin endurspeglar metnað fyrir enn frekari  uppbyggingu á sviði brunavarna, uppbyggingu á faglegu starfi innan Slökkviliðs Fjallabyggðar og nauðsynlegri endurnýjun og uppfærslu á tækjum og búnaði. Sigríður segist einnig óendanlega þakklát fyrir þann trausta mannskap sem stendur að baki Slökkviliði Fjallabyggðar og viðbragðsaðilum öllum, fyrir þeirra óeigingjarna, faglega og góða starf. ,,Búnaður, fjármagn og áætlanir hafa ekkert að segja nema að góður og vel þjálfaður mannskapur sé til staðar til að sinna því sem upp kemur hverju sinni.“

Fyrri brunavarnaáætlun rann úr gildi 2019 og hefur vinna við nýja áætlun staðið síðan þá. Þeirri vinnu er nú lokið með útgáfu nýrrar áætlunar.

 Jóhann K. Jóhannsson, slökkviliðsstjóri segir ánægjulegt að ný brunavarnaáætlun sé loks tilbúin og að nú sé hægt að vinna og byggja upp starfsemi liðsins samkvæmt henni. Sveitarfélagið hefur mikinn metnað fyrir því að bæta þá hluti sem hefur þurft að ráðast í eins og við höfum séð á síðasta ári. Til að mynda stendur yfir endurnýjun á öllum hlífðar fatnaði slökkviliðsmanna, verið er að vinna við endurbætur á lausum búnaði, bæði í slökkvibílum og á slökkvistöðvum og þá hefur sveitarfélagið fjárfest í nýjum stigabíl sem er mikil bylting fyrir slökkviliðið. Jóhann segir brýnt að ráðast í endurnýjun á reykköfunarbúnaði og lausum fjarskiptabúnaði og þá þarf að ráðast í endurbætur á viðbragði slökkviliðsins vegna jarðganga á svæðinu í samstarfi við eiganda þeirra.