Frjó menningarhelgi fer fram í Alþýðuhúsinu á Siglufirði 3. – 5. júlí 2020. Þar koma saman 11 listamenn sem bjóða uppá tónlist, myndlist og spjall. Viðburðirnir verða allir á heimilislegu nótunum og fjöldi gesta takmarkaður. Eru því allir beðnir um að sýna skilning, spritta á sér hendur og koma ekki ef um einhvern slappleika er að ræða. Tekið verður við frjálsum framlögum við innganginn.

Uppbyggingasjóður, Fjallabyggð, Tannlæknar Fjallabyggð, Eyrarrósin, Aðalbakarí, Kjörbúðin og Rammi hf. styðja við menningarstarf í Alþýðuhúsinu.

Frjó 3. – 5. júlí 2020
Menningarhelgi í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.

Föstudagur 3. júlí kl. 20:00 – 22:30
Tónleikar þar sem fram koma listamennirnir
Plasmabell
rafnar
Framfari
Kraftgalli

Laugardagur 4. júlí kl. 14:00 – 17:00
Opnun í Kompunni
Tumi Magnússon – Almenningsssamgöngur. 

Laugardagur 4. júlí kl. 14:00 – 17:00
Línus Orri Gunnarsson flytur tónlist innan og utandyra

Laugardagur 4. júlí kl. 20:00 – 21:30
Tónleikar þar sem fram koma listamennirnir
Þórir Hermann Óskarsson
Söngelsku leðurblökurnar frá Reykjavík

Sunnudagur 5. júlí kl. 14:30 – 15:30
Sunnudagskaffi með skapandi fólki
Unnur María Máney Bergsveinsdóttir

Logo Uppbyggingarsjóður- Fjallabyggð- Eyrarrósin-Kjörbúðin- Aðalbakarí-Tannlæknar Fjallabyggð- Rammi hf.

Plasmabell (Bára Kristín) spilar frumsamda abstrakt raftónlist. 
Hún sækir innblástur í tilraunakennda 90´s tónlist eins og trip hop, Techno, down tempo og grunge.
Bára Kristín býr og starfar á Siglufirði. 
https://plasmabell1.bandcamp.com 

rafnar tónskáld sem gaf út sín fyrstu verk í fyrra og hefur verið að tengja saman fjölbreytta heima ólíkra listforma eins og myndlist og videoverk í samhljómi við eigin tónsmíðar. rafnar er með litríkan hljóðheim sem inniheldur allt frá stóru bandi með stúlknakór og óperusöngkonu til einleiks á gítar eða pianó. rafnar mun bæði frumflytja ný verk í Alþýðuhúsinu sem og lög af fyrstu plötunni hans VODA sem kemur út 8. Október 2020.
– www.rafnar.org

Kraftgalli spilar raftónlist með púlsandi takti og þrykkþéttum bassa, þar sem ýmis furðuhljóð fá að njóta sín og skammlaust gælt við giltí plessjörs! Kraftgalli hefur undanfarin misseri gefið út eitt og annað smælki, en vinnur nú hörðum höndum að koma sinni fyrstu breiðskífu í útgáfu og situr við skriftir söngspilsins eða tónlistarævintýrisins Trítladansinn sem er væntanlegt á næsta ári. Hjá Kraftgalla leynast áhrif frá rokki og róli, hnausþykku fönki, köflum kryddað austurlenskum blæbrigðum og hrynjanda, en hver veit nema orkneyskir trítlar komi við sögu með danskennslu. Aldrei er þó of langt í diskóið!
Kraftgalli hefur gefið út hjá hfn music og SMIT records og hefur komið fram í Belgíu, Þýskalandi og Sierra Leone. Hann hlaut tilnefningu fyrir lag sitt Rússíbana í flokknum raftónlistarlag ársins á Íslensku Tónlistarverðlaununum 2020.

Framfari er sjálfmenntaður tónlistamaður sem hefur tekið þátt í ýmsum tónlistaverkefnum, samspili og listviðburðum. Á undanförnum árum hefur hann einnig í auknum mæli snúið sér að tónsmíðum og tileinkað sér píanóleik. Framfari samdi tónlistina fyrir heimildarmyndina Af jörðu ertu komin sem frumsýnd var á síðasta ári og hefur haldið fjölda tónleika undanfarið í samstarfi við tónlistamanninn Rafnar. 
Framfari ætlar að spila frumsamda tónlist á Frjó, enn á huldu hverjir munu koma fram ásamt honum.

Tumi Magnússon
Almenningsssamgöngur. 

Leikur með tíma og rými er notaður til að búa til umhverfi sem líkist þeim farartækjum sem notuð eru við fólksflutninga í sveit og bæ. Áhorfandinn tekur sér far og lendir á stað sem er samsettur úr mörgum stöðum og þar sem tíminn er í mörgum lögum sem breytast í sífellu. Hann fær tækifæri til að verða ruglaður í rýminu og ríminu og að draga bæði skynsamlegar og óskynsamlegar ályktanir af öllu saman. 
Byggingaraðferðin er video og hljóð í fjórum sneiðum. 

Tumi Magnússon (f. 1957) er fæddur á Íslandi og býr í Kaupmannahöfn. Hann stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og AKI – Academie voor Beeldende Kunst í Hollandi. Hann hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningun í öllum helstu listasöfnum og listrýmum á Íslandi, svo og í Evrópu, Bandaríkjunum, Mexíkó, Uruguay og Nýja Sjálandi. Tumi var prófessor við Listaháskóla Íslands frá 1999 til 2005 og við Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn frá 2005 til 2011. 
Á löngum ferli hefur Tumi unnið með flestalla miðla myndlistarinnar. Framanaf kannaði hann þanþol málverksins og þróuðust verk hans frá málverkinu yfir í ljósmyndaverk, vídeó- og hljóðinnsetningar. Líkt og með smásjá þess sem þekkir tengsl hins ofursmáa við stóru myndina skoðar hann umhverfi sitt af nákvæmni og notar m.a. til þess breytingamöguleika myndvinnsluforrita og kannar þannig það sem mannsaugað sér ekki ella.

Linus Orri Gunnarsson mun umvefja gesti Alþýðuhússins um menningarhelgina Frjó með flæðandi tónlist innan og utandyra.
Hann er sjálfmentaður tónlistamaður sem spilar á gítar, mandólín og írska þverflautu. Hefðbundið tónlistarnám hentaði honum ekki en foreldrar hans eru báðir tónlistarkennarar þannig að hann er alinn upp við tónlist. Línus Orri hefur verið mjög virkur í þjóðlagatónlist á höfuðborgarsvæðinu og á Siglufirði og elskar þegar tónlistin sprettur fram eins og lífrænt flæði í daglegu lífi. Línus Orri gaf út plötu 2014 sem heitir Songs From Your Collarbone með hljómsveitinni Myndra.

Þórir Hermann Óskarsson mun flytja vel valda þjóðlega dansa frá Búlgaríu og Rúmeníu eftir Ungverska þjóðlagameistarann Béla Bartók. Þórir hefur sérstaklega gaman af tónlist þessara tíma og stefnu, þar sem fjörugur barbarismi innan klassíska formsins ríkir með frjálslegri atónalitet. 

Þórir hefur leikið á píanó frá 5 ára aldri og eftir það bættist við klarínetta, gítar og söngur. Ekki leið langur tími fyrr en hann fór að beina athyglinni að eigin tónsmíðum. Rík og fjölbreytt flóra hefur alltaf verið stór partur af tónlistarlífi Þóris, og sækir hann innblástur frá poppi og elektró jafnt sem djazz, klassík, þjóðlagatónlist og allt þar á milli.

Söngelsku leðurblökurnar frá Reykjavík munu blaka Alþýðuhúsinu og blakta um allt síldarmetrópólísið. Draumkenndin verður ríkjandi án þess þó að mara í tröðinni. 

Unnur María Máney Bergsveinsdóttir, einnig þekkt sem Húlladúllan og Ungfrú Hringaná, segir gestum frá sirkuslistum og lífi. 

Unnur Máney er sjálfstætt starfandi sirkuslistakona, búsett á Ólafsfirði. Hún hefur starfað með Sirkus Íslands, breska sirkusnum Let’s Circus og hefur komið fram á ýmsum viðburðum í Frakklandi, Bretlandi og í Mexíkó. Auk þess að leika listir sínar kennir hún bæði börnum og fullorðnum hinar ýmsu sirkuslistir, með sérstakri áherslu á húlla, akró, loftfimleika og jafnvægiskúnstir. Hún lauk húllakennaranámi frá Live Love Hoop í Bristol árið 2016 og alþjóðlegu Social Circus kennaranámi á vegum Caravan sirkussamtakanna og Evrópusambandsins árið 2019. Unnur Máney starfar með kabarettinum Drag-Súgi og með Reykjavík Kabarett og er stofnandi Akró Ísland hópsins