Gunnar Leifsson er gangbrautarvörður á Hvammstanga og gætir umferðaröryggis grunnskólabarnanna þegar þau þurfa að fara yfir Hvammstangabrautina. Gunnar er fyrir hádegi alla virka daga að passa upp á börnin og þegar fréttamaður átti leið um var barnahópurinn að fara í hádegismat í Félagsheimilið og var ekki vanþörf á að passa vel upp á þau.
Þetta er annað árið sem Gunnar starfar við gæsluna og kann hann því ákaflega vel að umgangast börnin.
Starfsmenn Tengils komu færandi hendi í Grunnskóla Húnaþings vestra í síðustu viku og gáfu skólanum stöðvunarmerki fyrir gangbrautarvörðinn eins og sjá má á myndunum. Höfðu þeir séð að einhverjir ökumenn virtu gangbrautarvörð að vettugi þegar nemendur nálguðust gangbrautina og vildu bæta úr því.
Á vef skólans kemur fram að merkið sé einnig með ljósi sem hægt er að nota þegar skammdegið ríkir. Fullyrt er í færslunni að þessi höfðinglega gjöf muni auka öryggi nemenda á leið þeirra til og frá matsal.