Líftæknifyrirtækið Genís hf. á Siglufirði hefur gengið frá ráðningum á tveimur nýjum framkvæmdastjórum sem hefja störf á næstu mánuðum.

Rósa Jónasardóttir, nýr framkvæmdastjóri fjármála hjá Genís hf.
Rósa Jónasardóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri fjármála en hún hefur síðasta áratug starfað í fjárstýringu hjá sænsku fyrirtækjunum Volvo Group, sem er leiðandi í framleiðslu flutningabíla á heimsvísu og bílaframleiðandanum Volvo Cars, nú síðast sem yfirmaður áhættustýringar. Rósa er með M.Sc. gráðu í fjármálum frá Viðskiptaháskólanum í Gautaborg og víðtæka reynslu af störfum innan fjármálaheimsins sem stjórnandi og ráðgjafi.

Kristbjörg Bjarnadóttir, nýr framkvæmdastjóri rannsókna- og þróunar hjá Genís hf.
Kristbjörg Bjarnadóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri rannsókna og þróunar en hún hefur undanfarin ár starfað hjá Íslenskri erfðagreiningu. Rannsóknarstarf hennar hefur einkum beinst að erfða- og ónæmisfræði og hefur hún komið að ritun fjölda ritrýndra fræðigreina á því sviði. Kristbjörg er með doktorsgráðu í líffræði frá Háskólanum í Genf og M.Sc. gráðu í taugalíffræði frá sama skóla.

Sigurgeir Guðlaugsson forstjóri Genís:
„Það er mikill styrkur fyrir Genís að fá Rósu og Kristbjörgu til liðs við okkur á þessum tímapunkti en félagið er í örum vexti í hröðu alþjóðlegu umhverfi líftækninnar sem krefst mikils af stjórnendum og öllu okkar starfsfólki. Ég er þess fullviss að reynsla og þekking Rósu og Kristbjargar muni nýtast okkur vel í þeim verkefnum sem framundan eru, sem snúa einkum að lyfjaþróun og áframhaldandi sókn í þróun, framleiðslu og sölu á hágæða fæðubótarefnum á alþjóðlegum mörkuðum“.

Um Genís:
Genís hf. lauk nýverið 2,4 milljarða hlutafjáraukningu en fyrirtækið hefur um tveggja áratuga skeið unnið að rannsóknum og þróun á lífvirkum kítófásykrum til notkunar í fæðubótarefnum, lyfjum og við beinígræðslu.

Myndir/aðsendar