Geta dýr verið samkynhneigð, eins og fólk?

Fræðimenn greinir mjög á hvort samkynhneigð sé til á meðal dýra og því er ekki hægt að svara spurningunni játandi eða neitandi. Þess í stað verður vitnað í rannsóknir sem hafa verið gerðar á meðal dýra og þeirri gagnrýni sem fram hefur komið á þær rannsóknir.
Fjölmargir atferlisfræðingar og dýrafræðingar hafa bent á að kynlíf dýra er ekki eins einfalt og sumir hafa haldið.

Í bók sinni Biological Exuberance fjallar líffræðingurinn dr. Bruce Bagemihl um ástaratlot sem mætti tengja við samkynhneigð hjá um 450 tegundum dýra. Hann tók meðal annars eftir því að á meðal bonobo-apa (Pan paniscus) sem eru náskyldir simpönsum, var um helmingur allra para samkynhneigður. Bagemihl heldur því fram að samkynhneigð sé mjög algeng í dýraríkinu og í raun sé aðeins ein dýrategund til sem hafi eitthvað við hana að athuga og það sé maðurinn.

 

Fræðimenn greinir mjög á hvort samkynhneigð sé til á meðal dýra og því er ekki hægt að svara spurningunni játandi eða neitandi.

 

Margir hafa orðið til þess að gagnrýna niðurstöður Bagemihl og segja að hann einfaldi hlutina um of því ekki sé hægt að bera saman atferli dýra og manna með þeim hætti sem Bagemihl gerir. En Bagemihl svarar þessari gagnrýni með því að segja að ef samkynhneigð sé náttúruleg hjá manninum eins og flestir telji, af hverju ætti hún þá ekki að vera náttúruleg hjá dýrunum. Sérstaklega í ljósi þess að flestir vitibornir menn séu sammála um það að menn séu dýr.

Þróunarsálfræðingurinn Martin Daly við McMaster háskólann í Ontario Kanada hefur gengið hvað harðast fram í gagnrýni á kenningar Bagemihl. Daly heldur því fram að þau dýr sem sýndu af sér samkynhneigða hegðun þurfi ekki endilega að gera það vegna kynferðislegra hvata heldur vegna annara tjáskipta enda hafi dýr ekki jafn þróað tungumál og maðurinn. Daly finnst Bagemihl oftúlka atferli dýranna þegar þau sýna einstaklingi af sama kyni kynferðislegan áhuga.

 

Pedro og Buddy á meðan allt lék í lyndi.
MYND/AP
Ástarævintýri hinsegin mörgæsapars í Kanada leið undir lok þegar félagarnir Buddy og Pedro voru loks aðskildir. Buddy var ekki lengi að finna sé maka en Pedro er enn einsamall.
Samkvæmt starfsmönnum dýragarðsins í Toronto hefur Buddy tekið saman við unga kvenkyns mörgæs. Þau hafa reist hreiður og deila öllum stundum saman. Pedro, hins vegar, er enn einn. Starfsmennirnir segja þó að Pedro sé að reyna sitt besta.
Nauðsynlegt var að aðskilja Buddy og Pedro enda er tegundin í útrýmingarhættu.
Áður en Buddy kynntist Pedro hafði hann eignast nokkur afkvæmi með vinkonu sinni. Þegar maki hans dó var hann fluttur í búrið til Pedro sem aldrei hafði eignast afkvæmi.
Um leið blómstraði ástin og voru félagarnir óaðskiljanlegir. Þeir deildu hreiðri í heilt ár.

 

Hollenski dýrafræðingurinn dr. Maarten Frankenhuis sem er framkvæmdastjóri dýragarðs í Amsterdam, heldur því fram að margar ástæður séu fyrir þessu háttalagi dýra. Hann virðist í meginatriðum vera sammála gagnrýni Daly en segir að í mörgum tilvikum sé þó um samkynhneigð að ræða hjá dýrunum. Frankenhuis segist hafa séð ástaratlot á milli dýra af sama kyni meðal annars hjá simpönsum, orangútum, górillum, fílum og höfrungum. Hann heldur því fram að slík atlot séu algengari hjá ungum dýrum sem ekki eru orðin kynþroska en hjá eldri dýrum.

En dr. Frankenhuis segist einnig hafa orðið vitni að fjölmörgum atvikum sem frekar eigi að túlka sem ákveðin tjáskipti en sem samkynhneigð. Þegar til dæmis nýr karlapi bætist í hóp prímata og valdapíramítinn riðlast, berjast karlaparnir um stöðu sína og þá er ekki óalgengt að sterkari karlapinn beiti veikburðari karlapann “kynferðislegu ofbeldi”. En slíkt hátterni hætti alveg þegar regla er komin á goggunarröðina í hópnum á ný.

 

Dashik og Yahuda

 

En eins og Frankenhuis benti á hér að ofan virðist stundum eins og dýrin séu samkynhneigð. Hér á myndinni fyrir ofan má til dæmis sjá gammana Dashik og Yahuda sem búa í dýragarði í Jerúsalem í Ísrael. Dashik og Yahuda eru karldýr sem hafa alið upp tvo unga. Dýrahaldarar í Jerúsalem tóku eftir því að fuglarnir höfðu búið til hreiður og voru að para sig. Dýrahaldararnir ákváðu að gefa þeim gerviegg í hreiðrið til þess að sjá hvað myndi gerast.

 

Gammarnir voru hinir lukkulegustu með gervieggið sitt og höguðu sér alveg eins og um alvöruegg væri að ræða. Dýrahaldararnir ákváðu þá að láta fuglana fá alvöru unga í hreiðrið og nú er svo komið að Dashik og Yahuda hafa komið tveimur ungum á legg, þeim Divu og Adi Gordon.

 

 Heimild: Vísindavefurinn/Vísir.is/ Wikipedia
Myndir: af vef