Göngudeild SÁÁ á Akureyri verður lokað um óákveðinn tíma frá og með 1. mars. Ekki hafa náðst samningar milli SÁÁ og Sjúkratrygginga Íslands en starfsemin var tryggð í fjárlögum í nóvember.
Hörður Oddfríðarson, dagskrárstjóri göngudeildarinnar, staðfestir þetta í samtali við Fréttablaðið.
Hann segist hafa fengið fyrirmæli frá framkvæmdastjórn SÁÁ. Samtökin hafi ekki efni á að halda úti starfseminni í eigin reikningi.
SÁÁ hóf starfemi sína á Akureyri 1993 en greint var frá því í janúar á síðasta ári að göngudeildinni yrði lokað en ekkert varð af lokuninni.
Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Akureyri, sagði í á facebooksíðu sinni að málið væri „ömurlegt“ í alla staði. „Ég er svo svekkt, sár og reið yfir þessu máli að ég gæti hreinlega öskrað. Í alvöru hvernig getur þetta gerst?“
Sagði hún einnig: “Í framhaldi af umræðum um lokun göngudeildar SÁÁ á Akureyri þá er líka rétt að vekja athygli á því að það er raunverulegur möguleiki á því að göngudeild SÁÁ í Reykjavík verði líka lokað af sömu ástæðum, þ.e.a.s. deilum milli Sjúkratrygginga Íslands og SÁÁ”.