Fyrir fáeinum árum hlustaði ég á stórskemmtilegan þátt á Rás 2 í umsjá Ágústar Bogasonar sem hét “Hátíð í bæ.” Þar tók hann meðal annars fyrir tröllkerlinguna ógurlegu hana Grýlu, bónda hennar (í fleirtölu), jólasveinaófétin, jólakattarkvikindið stórhættulega og fleiri fyrirbæri sem tengdust jólahaldi okkar fyrr og nú. Mér fannst margt merkilegt sem þarna kom fram og margt hafði ég aldrei heyrt áður, en þessi þáttur varð kveikjan af þessari samantekt.
Grýla mun hafa komið fyrst til sögunnar svo vitað sé á 13. öld. Þar er hún einfaldlega tröllkvendi og flagð hið versta, en er ekkert bendluð við jólin fyrr en löngu síðar eða á 17. eða 18. öld. Þá var fælingarmáttur hennar orðinn mjög mikill og hún sögð vera stórhættuleg barnaæta.
Og Grýla mun hafa verið þrígift sem ég vissi reyndar ekki. Fyrsti bóndi hennar var Gustur, en sá mun hafa verið afkvæmi hests og trölls. Næsta “eigintröll” Grýlu var Boli, en hann átti fyrir foreldra tröll og naut. Sá þriðji er svo sá sem flestir þekkja berst, sem er sjálfur Leppalúði. Hún átti fjölda barna með þessum þremur eiginmönnum (tröllum), en sumir segja aðeins með Bola og Leppalúða og þar af hafi Leppalúði verið faðir 20 þeirra.
Svo líður eitt sinn að jólum og Grýla býður þeim Gust, Bola og auðvitað Leppalúða sínum til jólaveislu, en þegar allir eru mættir kemur í ljós að enginn matur er til í hellinum. Grýla býður þá Leppalúða að eiga spjall við kviðmága sína sem þarna eru komnir, en þeir munu aldrei hafa talið hann vera samboðinn henni. Grýla veit nefnilega sem er að báðir hennar fyrrverandi eru enn bálskotnir í henni og bíður þess sem verða vill. Æsast nú leikar og upphefst mikið rifrildi og slagsmál. Fer svo að lokum að Gustur lendir í pottinum, er síðan étinn af hinum tröllunum og þar með er vandamálið með matarleysið úr sögunni alla vega þessi jólin.
Grýla er örugglega skelfilegasti jólagesturinn af öllu því pakki sem til allrar hamingju hélt til í hellum inn til fjalla mestan hluta ársins og fjarri mannabyggðum. Hún var sísvöng, átti stóran pott, var alltaf með poka á bakinu og tilbúin að hremma öll þau krakkagrey sem ekki hlýddu foreldrum sínum í einu og öllu. Hún var virkilega andstyggileg og hún dó að lokum á rólunum (hvaða staður sem það nú var) en það var örugglega bara gott á hana. En til allrar hamingju er óttinn við Grýlu í mikilli rénun eftir því sem árin líða og í réttu hlutfalli við að heimili landsmanna verða sífellt bjartari m.a. vegna tilkomu Búrfells, Hrauneyjarfoss, Sigöldu, Vatnsfells og nú síðast Kárahnjúkavirkjunnar.
Fyrstu sögur af hinum íslensku jólasveinum munu vera 3-400 ára gamlar. Þar eru þeir sagðir vera afkvæmi Grýlu og hið mesta illþýði. Þeir eru ýmist sagðir vera 9 eða 13, en þau jólasveinanöfn sem þekkt eru munu vera um 70, – hvorki meira né minna.
En það liggur samt fyrir að þeir eru eða voru alla vega bæði hrekkjóttir, þjófóttir og eiginlega stórvarasamir hvernig sem á er litið. Til allrar hamingju virðast þeir hafa mildast í seinni tíð og það er orðið sjaldgæft að frétta af einhverjum yfirgengilegum skandalíseringum þeirra núorðið.
Ég leitaði nafna afkomendanna grýlu og bónda og fann þau á nokkrum stöðum, en með því að “samkeyra” skrárnar varð niðutrstaðan eftirfarandi:
Askur, Ausa, Bikkja, Bokki, Bolli, Botni, Bóla, Brynki, Bútur, Böðvar, Dallur, Dáni, Djangi, Dúðadurtur, Flaka, Gráni, Hnúta, Hnútur, Hnyðja, Hnýfill, Höttur, Jón, Kleppur, Knútur, Koppur, Kútur, Kyllir, Kyppa, Langleggur, Láni, Lápur, Leppatuska, Leiðindaskjóða, Leppur, Ljótur, Loki, Lúpa, Mukka, Mösull, Nafar, Nípa, Nútur, Næja, Poki, Pútur, Sighvatur, Sigurður, Skotta, Skráma, Skrápur, Skreppur, Sláni, Sleggja, Sóla, Stampur, Stefna, Stefnir, Sikill, Strokkur, Strítur, Strympa, Stútur, Surtla, Syrpa, Tafar, Taska, Típa, Tæja, Völustallur, Þóra, Þrándur, Þröstur.
Þó er ekki að finna í þessari upptalningu þekktustu jólasveinanöfnin s.s. Stekkjastaur, Giljagaur, Stúf, Þvörusleiki, Pottaskefil, Askasleiki, Hurðarskelli, Skyrgám, Bjúgnakræki, Gluggagægi, Gáttaþef, Ketkrók, eða Kertasníki. Annað hvort vantar þau alveg, eða um er að ræða hrein og klár dulnefni þeirra sem á undan eru talin. Þau gætu auðvitað tekið sér þau til að dreifa álaginu sem fylgir því að vera jólasveinn og skipt með sér verkum.
Svo er annað sem ber að halda við í þjóðarvitundinni og má ekki gefa nokkurn afslátt af. Hin Íslenski jólasveinn er auðvitað ekkert skyldur þeim ameríska kókþambandi kapítalista og rauðklædda ýstrubelg sem situr blýfastur í hverjum strompi sem hann reynir sig við.
En hvernig sem á því stendur, hafa tröllabörnin sem enginn vildi í eina tíð hitta fyrir, mildast mjög hin síðari ár. Þeir ku vera farnir að syngja, dansa og gefa börnum gjafir og góðgæti, hver svo sem skýringin kann að vera. Mér þykir þó langsamlega líklegast að það hafi orði einhver (óæskileg) kynblöndun erlendra og innlendra jólasveina. Hinn rauðklæddi og síðskeggjaði Santa Kláus er mun yngri eða ekki nema 200 ára gamall. Hann varð þó aldrei verulega þekktur fyrr en hann fékk sér fasta vinnu og fór að starfa fyrir alþjóðafyrirtæki sem hafði yfir að ráða ómældu auglýsingafé. Hann gerði stóran samning við þetta þekkta kompaný og það má segja að þá hafi boltinn fyrst farið að rúlla. Hann festi sig í sessi í kjölfar alþjóðavæðingarinnar rétt fyrir miðja síðustu öld og hefur síðan birtst okkur aldeilis ósjaldan á sjónvarpsskjám um allan hinn vestræna heim.
“I´d like to teach the world to sing, in perfect harmony.”
Auðvitað alveg ógeðslega væmið en svínvirkar.
En það er hins vegar gömul þjóðvísa sem hefur orsakað marga vangaveltuna og einnig að heilinn hefur ósjaldan verið lagður í bleyti um lengri eða skemmri tíma.
Jólasveinar einn og átta,
ofan komu af fjöllunum,
í fyrrakvöld þeir fóru að hátta,
þeir fundu hann Jón á Völlunum.
Andrés stóð þar utan gátta,
það átti að færa hann tröllunum.
Þá var hringt í Hólakirkju
öllum jólabjöllunum.
Ísleif hittu þeir utan gátta
og ætluðu að færa tröllunum.
En hann beiddist af þeim sátta,
óvægustu körlunum.
Hver er Jón, Andrés og Ísleifur? Um þessa kumpána finn ég ekki nokkurn stafkrók hvar sem ég leita, en væri svo sannarlega alveg til í að þiggja einhverja fróðleiksmola um.
Jólakötturinn var svo auðvitað ekkert annað en bölvaður óvættur og verulega illa innrættur. Hann lagðist nefnilega á þá sem minna máttu sín og fáa áttu að sem gátu gefið þeim einhverjar spjarir. Hann notaðist við sömu aðferð og Grýla, hann nefnilega át þá sem ekki eignuðust nýja flík. Einstaka sinnum kom þó fyrir að hann lét sér nægja að éta jólamatinn þeirra og þóttust þá sumir hafa sloppið með skrekkinn.
Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir m.a. um Jólaköttinn:
“Hann gerði reyndar engum þeim mein sem eignuðust einhverja nýja flík að fara í á aðfangadagskvöldið, en hinir sem ekkert nýtt fat fengu fóru allir í jólaköttinn svo hann tók (át) þá eða að minnsta kosti jólarefinn þeirra og þótti þá góðu fyrir goldið ef kötturinn gerði sig ánægðan með hann. En jólarefur hét það sem hverjum heimilismanni var skammtað til jólanna (í mat) á aðfangadagskvöldið. Af þessu kepptust allir við, bæði börn og hjú, að vinna til þess af húsbændum sínum fyrir jólin að fá eitthvað nýtt fat svo þeir færu ekki í ólukkans jólaköttinn né að hann tæki jólarefinn þeirra. Þegar börnum og hjúum tókst bæði að fá nýja flík, nógan jólaref og þar á ofan jólakerti og það sem mest var í varið, að þurfa ekki að fara í jólaköttinn, var ekki kyn þó kátt væri um jól til forna.”
Menn eru ekki sammála um hvernig Jólakötturinn barst til landsins og tók sér bólfestu í íslenskum þjóðsögum, en flest bendir þó til þess að það hafi gerst um líkt leyti og jólasveinarnir komu til, þ.e. fyrir 3-400 árum. Margt bendir líka til þess að hann hafi komið frá Noregi (eins og fleira) en þar var hann reyndar í geitarlíki. Enn austar eða við Eystrasalt er svo sambærilegt fyrirbæri þekkt, en það er í nautslíki.
Hegðunarmynstur nautsins og geitarinnar svipar svo mjög til íslenska kattaróbermisins að líklega er talsverður skyldleiki þeirra í millum.
En jólin sjálf hafa reyndar vísan í mun fleira en fæðingu frelsarans. Fyrir kristni voru jólin hátíð heiðinna manna sem haldin voru við vetrarsólhvörf. Þá var því auðvitað fagnað að senn lengdist dagur og sól hækkaði aftur á loftu. Jólatré, jólaljós og jólasveinar á allt að hafa einhverja vísan í heiðinn sið og vera jafnvel eldri en norræna goðafræðin. Annað nafn Óðins er t.d. sagt vera Jólnir og hugsi nú hver hvernig og hvað sem vill. Gulaþingslög kveða á um að blóta skuli nýju upphafi þá lægst er sól, nýs árs og friðar. Þetta er auðvitað inntak og hinn staðlaði texti sem við sjáum í jólakortum dagsins í dag. ..gott og farsælt nýtt ár – eða – óskum þér árs og friðar.
Söguseríuna “Poppað á Sigló” og fleiri skemmtilegar greinar eftir Leó R. Ólason má finna hér.