Bókin Íslensku fuglarnir og þjóðtrúin er komin út. Bókin er eftir Sigurð Ægisson sóknarprest á Siglufirði, fuglaskoðara og ljósmyndara með meiru.
Í tilefni af útgáfu bókarinnar fylgir bókin um Gústa guðsmann eftir Sigurð Ægisson, með hverri keyptri bók á Siglufirði. Bækurnar eru til sölu í Tunnunni og SR Byggingavörum á Siglufirði.
Bókin fæsti í öllum bókaverslunum og víða í stórmörkuðum. Bókaútgáfan Hólar tekur einnig við pöntunum um netfangið holar@holabok.is
Í þessari bók, sem er afrakstur 25 ára heimildasöfnunar, eru teknir til skoðunar allir íslenskir, reglubundnir varpfuglar, í hérlendri og erlendri þjóðtrú.
Auk þess eru birt ljóð og annað forvitnilegt efni sem þeim tengist, að ógleymdum ríflega 1000 alþýðuheitum. Jafnframt er þar að finna vel á þriðja hundrað mynda, sem og útbreiðslukort hverrar tegundar fyrir sig.
Íslensk þjóðtrú hefur ýmislegt af keldusvíninu að segja. Vegna undarlegra hátta sinna var það talið mikil furðuskepna, jafnvel yfirnáttúruleg, hálfur ormur og í beinu sambandi við þann í neðra. Þess vegna sóttust galdramenn líka mjög eftir að komast í tæri við það og nota við kukl sitt.
Á Horni í Sléttuhreppi boðaði það rigningu, ef lómurinn stóð á öðrum fæti og skrækti.• Þegar haftyrðillinn var að finnast rekinn á land í stórum hópum áður fyrr, ímynduðu menn sér að þetta væri undrafyglið halkíon, en samkvæmt grískum sögnum átti það að vera með hreiður sitt úti á rúmsjó.
Jónas Jónasson frá Hrafnagili nefnir forn ráð við gulu. Eitt var það að hræra arnarheila út í þremur mörkum af víni og drekka svo. Annað, að drekka vatn af arnarkló og „pissa strax í eld“.
Í Heklu átti að vera bústaður hrafna með glóandi klær og nef úr járni.
Vegna smæðar, litar og atferlis, eða með öðrum orðum vegna þess hversu jarðbundinn hann er og gjarn á að skjótast í felur í holum og gjótum eða þéttu kjarri, í stað þess að bjarga sér á flugi, var músarrindillinn löngum talinn skyldari mús en fugli.
Myndir í frétt af facebooksíðum um Gústa guðsmann og Íslensku fuglarnir og þjóðtrúin
Heimild: Íslensku fuglarnir og þjóðtrúin