Það vakti athygli fréttaritara Trölla.is að búð er að setja upp skilti á “hallarvegginn” á Lindagötu á Siglufirði. Til að fá frekari upplýsingar var haft samband við Örlyg Kristfinnsson og tók hann vel í að svara eftirfarandi spurningum. Trölli.is þakkar Örlygi fyrir fræðandi og greinargóð svör.
Í hvaða tilefni var ákveðið að fara í þessa skiltagerð og hverjir eru þar að verki?
Það er “menningarsjóður” Ytrahússfélagsins sem stendur að baki þessum gjörningi við Hólagarðinn – það erum við nokkrir karlar, auk mín Páll Helgason og Sveinn Þorsteinsson. Hinrik Aðalsteinsson var sá fjórði en hann lést fyrir nokkrum árum. Við höfum áður gefið samfélaginu hér allmörg húsaskilti eins og sjá má á sögulegum húsum við Aðalgötu og Norðurgötu. Í þetta sinn höfum við sett upp þrjú skilti, auk þessa á “hallarveggnum” við Lindargötu (Hólum). Tvö eru við gangstíginn sjávarmegin við Snorragötu framan við Síldarminjasafnið. Þau skilti segja frá snjóflóðunum miklu 1919 og Ráeyrarskriðunni 1830.
Og tilefnið er einfaldlega það að minna á merka atburði og vekja athygli á sögulegum húsum og stöðum í bænum okkar.
Rétt er að taka fram að leyfi hafa fengist fyrir uppsetningu allra þessara skilta, bæði hjá bæjaryfirvöldum, viðkomandi húseigendum og lóðareiganda.
Hver hannaði skiltið?
Það var sonur minn Már sem hannaði öll skiltin eftir minni forskrift, jafnt húsaskiltin sem söguskiltin og síðan prentuð flest í Skiltagerðinni í Ólafsfirði. Húsaskiltin eru unnin í Þýskalandi.
Hvað hefur verkið staðið lengi yfir?
Verkið hefur staðið yfir í allnokkur ár, Hólaskiltið í rúmt ár minnir mig. Svona viðfangsefni geta stundum gengið fremur hægt fyrir sig þegar fólk hefur í mörgu að snúast. Það að steypa kúlurnar var til dæmis mjög seinlegt þá loks ég byrjaði á því.
Já, svo eru það steyptu kúlurnar á hallarveggjunum. Eru einhver áform um að gera eitthvað frekar fyrir garðinn?
Sú hugmynd fæddist að setja upp afsteypur af þessum skrautkúlum sem prýddu hallarveggina og undirstrika hve mikilvægur sögustaður þetta er. Við fengum upprunalega kúlu hjá Guðmundi, sonarsyni og alnafna Guðmundar Skarphéðinssonar sem byggði Hóla 1927.
Nei, ég veit ekki hvort meira verði gert þarna, þetta gamla mannvirki, veggirnir eru afskaplega illa farnir, steypan í þeim virðist mjög léleg eins og í húsinu sjálfu (Hólum) og það varð því að falli 1999.
En kúlurnar skreyta staðinn, lyfta undir minninguna um glæsileika fyrri tíðar og mikla örlagasögu. Er á meðan er.
Myndir/ Trölli.is og úr einkasafni