Herkonugilið og aðrir dularfullir staðir.

Farartálmar og verustaðir óvætta og forynja.

Bókin Þjóðtrú og þjóðsagnir kom út árið 1908, en hún inniheldur aðallega sagnir frá norður og austurlandi. Oddur Björnsson prentari á Akureyri safnaði, en Jónas Jónasson frá Hrafnagili bjó til prentunar og ritaði formála. Í meðfylgjandi kafla er sagt frá ýmsum óhreinum vættum og forynjum sem héldu sig í og við Herkonugil eftir sögnum frá Pálma Jóhannssyni á Sæbóli.

Sauðanes, Engjadalur, Siglufjörður bak við fjöllin.

Engidalur og næsta nágrenni. Myndin er fengin að láni af vefsíðunni snokur.is, en mínar heimildir segja að hún sé tekin af Mats Wibe Lund. En flest allar loftmyndirnar á þessari frábæru síðu eru þó teknar af Hannesi Baldvinssyni í útsýnisflugi með Gunnari Júlíussyni sem fór með hann í “myndaflug” vegna gerðar síðunnar, en auk Hannesar stóðu að gerð síðunnar þeir Páll Helgason og Örlygur Kristfinnsson.

Gil eitt mikið og djúpt er á milli bæjanna Dalabæjar og Engidals í Úlfsdölum, er Herkonugil heitir og ræður það landamerkjum á milli bæjanna. Eru það gömul munnmæli, að tröllskessa ein hefði átt að stíga fram gilið, til þess að gera landamerki á milli bæjanna, og á nafnið að vera dregið af henni (herkona = tröllskessa). Ætla sumir að það hafi verið Skráma, sem bjó í Skrámuhelli, þegar Úlfur sem Úlfsdalir eru við kenndir nam þar land og reisti Dalabæ, en hann á að vera heygður á Dölum. Skrámuhellir var neðarlega í fjalli því, sem liggur austanvert við Engidal. Fyrir svo sem mannsaldri síðan var op allmikið á helli þessum, en síðan hefir hrunið fyrir hann mikið af lausagrjóti, og mun hann vera horfinn nú.

Herkonugilið. – Ljósmynd Jökull Gunnarsson.

Lengi var trú á því, og er enda enn, að ekki muni alt vera hreint í gili þessu, og hefir fram undir þetta verið venja að láta engan fara einsamlan yfir gil þetta að nóttu til eða kvöldi eftir dagsetur, nema því aðeins að engin ráð væri með mann til að fylgja honum.

Þegar Sigfús, faðir Þorvaldar hins ríka á Dölum, bjó þar, fór hann einhverju sinni yfir gil þetta seint að kvöldi. Þegar hann var kominn ofan í gilið, kom yfir hann eins og þokustólpi, grár á lit. Hélt hann áfram í gegnum þenna mökk, og virtist honum við og við vera eldglæringar í mekkinum. Þegar hann kemur upp í miðjan kinnunginn hinumegin, hverfur þetta allt í einu; fer hann svo heim um kvöldið. Þegar hann var háttaður um kvöldið og ætlar að fara að sofa, þá getur hann ekki sofnað fyrir einhverri aðsókn. Gengur þetta þangað til hann klæðir sig, og Ieggur sig svo fyrir í fötunum. Ber þá ekki neitt á neinu, og hann sefur vel um nóttina. Næsta kvöld fer allt á sömu leið. Heldur þessu áfram í viku, að hann getur ekki sofnað, nema klæða sig aftur. Svo hætti að bera á þessu. Sigfús var maður einhuga og hræddist ekkert. Þorvaldur, sonur Sigfúsar, sagði Pálma þessa sögu.

Eins og sjá má, þá liggur vegurinn yfir Herkonugilið mjög nálægt gilbrúninni og athygli vekur að ekkert vegrið er þarna til staðar ef umferðaróhapp yrði á veginum. Aðeins vírgirðing á lúnum tréstaurum sem engu héldi. – Ljósmynd: Leó R. Ólason.

Þegar Bessi Þorleifsson er síðar var veitingamaður á Siglufirði, var vinnumaður hjá Páli heitnum syni Þorvaldar, fór hann einu sinni í kaupstað um vetur með mönnum frá Engidal. Á heimleiðinni fór hann fylgdarlaust yfir gilið seint um kvöld. Vissi enginn fyrri til en hann kom inn í baðstofuna á Dalabæ, og var þá eins og brjálaður maður. Í kaupstaðnum hafði hann tekið hlekki, sem hafðir eru í hákarlasóknir; hafði hann vafið öllum festunum utan um sig, og barði alt og lamdi í kringum sig, svo að það varð að halda honum. Kom hann svo til sjálfs sín eftir nokkra stund. Sagði hann þá svo frá, að þegar hann kom suður í gilið, hefði eitthvað komið að sér og viljað bægja sér ofan gilið; hefði þetta gengið spölkorn heim fyrir gilið, heim á Hrafnaskriðu, sem kölluð er. Hefði það altaf haldið sig þeim megin við sig er frá sjónum vissi, en ekki gat hann sagt hvað það var eða hvernig. (Haft eftir föður Pálma.)

Móðir Pálma segir og þá sögu, að einu sinni hafi vinnumaður á Dölum verið Iátinn fylgja manni frá Engidal yfir gilið að kvöldi dags. Urðu þeir samferða ofan í gilsbotninn, og skildu þar, og fóru upp á sinn hvorn barminn. Venja var, þegar fylgt var yfir gilið, að menn hóuðu eða kölluðu hvor til annars, þegar upp úr gilinu var komið á báða vegu. Nú stansa þeir báðir, eins og vant er, til þess að gefa merkið, en þá sáu þeir báðir að gilið var fullt af eldglæringum upp undir barma. Svo fara þeir báðir hvor til síns bæjar, og vissi hvorugur hvað hinn hafði séð fyrr en þeir fundust næst. Báðir voru þeir sannorðir menn, og þekkti sögumaður þá báða í æsku.

Þrautalendingin frá Dölum er rétt við gilskjaftinn. Einu sinni, þegar kvika var, lentu þeir Dalapiltar þar á tveim bátum; Pálmi var þá á Dölum og einn í róðrinum, en þetta var að hausti til. Bátarnir voru settir upp í bakkann, en síðan gerði ógæftir svo að bátunum varð eigi náð.

Nokkru síðar kom einn logndagur, en þá voru þeir ekki sóttir vegna annríkis heima. Daginn eftir fór Pálmi út að Engidal og kom að bátunum. Var þá brotin bitakistan úr þeim bátnum er neðar stóð, og liggur hún í skutnum og steinn hjá henni á að giska fjögra eða fimm fjórðunga þungur. Gat hann þessa heima, en næstu daga voru stormar og ósjór svo að eigi varð náð bátunum. Þá lygndi aftur einn dag, en ekki varð enn úr því að bátarnir væru sóttir. Næsta dag fór einhver þarna um, og var þá bitakistan brotin úr hinum bátnum og liggur eins aftur í skut, og steinn hjá henni. Var hann nokkru meiri en hinn fyrri, sjálfsagt sjö eða átta fjórðunga þungur. Var þá samdægurs brugðið við og bátarnir sóttir. Undarlegast var það, að hvergi var brotið eða svo mikið sem marið undan steinum þessum, nema þetta eina, að bitakisturnar voru brotnar frá. Pálmi var sjónarvottur að þessu.

Dalbær undir það allra síðasta. Myndin er fengin að láni af vefsíðunni snokur.is

Páll eldri á Dölum var seinni maður Valgerðar, móður Þorvaldar ríka. Bjó hann lengi á Dalabæ, og var stjúpi og fóstri Þorvaldar. Þá var Engidalur í eyði og hafði Þorvaldur hann með. Einn dag um heyskapartímann lét hann stúlku vera þar, til þess að þurka nokkra flekki, sem lágu þar flatir. Bað hann hana að muna sig um það, að vera komin suður fyrir Herkonugilið áður en sólsett væri. Góður þurrkur var um daginn, og fullþornaði heyið. Stúlkan fór því að taka saman flekkina að aflíðandi nóni, en um náttmál átti hún eftir þrjár flekkpentur og þótti henni illt að skilja þá eftir flata, og heldur því áfram. Þegar hún er að enda við að saxa upp fyrsta flekkinn heyrir hún dynk mikinn. Gefur hún sig ekkert að því, og heldur áfram. Þegar hún er að enda við annan flekkinn kemur annar dynkur, og nú sýnu meiri en hinn fyrri. Þó byrjar hún á þeim seinasta, en þegar hún er nýbyrjuð kemur þriðji dynkurinn. Fannst henni hann finnast vel undir fótum sér, því hann var svo mikill að jörðin skalf og titraði. Við þetta hættir hún, leggur frá sér hrífuna og heldur heim á leið. Þegar hún er komin að gilinu, mætir Páll henni og var hann þá kominn að leita hennar.

Í Lesbók Morgunblaðsins frá 6. september 1959 er skemmtileg grein rituð af Á. Ó. hver sem það nú var. Þar segir að einhverjar gamlar heimildir séu um að gilið hafi áður fyrr verið nefnt Hergunnargil, en nokkuð hefur verið um að örnefni hafi breyst eða ný tekið yfir af þeim gömlu í Hvanneyrarhreppi og mun það líklega ekki vera neitt einsdæmi. Svo dæmi sé tekið, þá nefndist fjallið Strákar áður Strókar, Álfhyrna breyttist í Hólshyrnu, Skútudalur var áður einnig nefndur ýmist Ráeyrardalur eða Saurbæjardalur, Hólsdalur nefndist áður Fjarðardalur og/eða Siglufjarðardalur og kannski er nýjasta dæmið Fjarðará sem allir Siglfirðingar þekkja sem Hólsá, og svo mætti eflaust lengi telja.

Þegar byrjað var að undirbúa gerð Strákaganga, voru fyrst sprengir 12 metrar inn í bergið. Fóru Siglfirðingar snemma að tala um „gatið“ þó svo að ekkert gat væri komið. Líktist mannvirkið miklu frekar stórum helli, en bergið þar inni var mikið sprungið og mikið vatn kom úr því. Þrír farartálmar Dalamegin voru þó mestir og yrðu erfiðastir við að eiga að mati vegagerðarmanna. Annar var Mánárskriður, en hinn Herkonugilið. Það var hins vegar mat höfundar greinarinnar í Lesbókinni, að eftir að „gatið“ yrði komið í gagnið, myndu Úlfsdalir fljótlega byggjast aftur. Þar yrðu þá að öllum líkindum rekin mikil kúabú, því markaðurinn fyrir mjólkina væri bara hinum megin við fjallið sem „gatið“ væri þá komið í gegn um. Greinarhöfundur sagð einnig að ráðgert væri vegna mikils kostnaðar við þessar gríðarmiklu vegabætur, að allir bílar sem um göngin færu þyrftu að greiða skatt í framtíðinni.

Reyndar væri rétt að geta þess einnig þegar rætt er um farartálma, að Heljartröðin var mjór hryggur og mun brattari en nú er. Þegar ég var á tólfta ári fékk ég að fara með í hópferð á Almenningana með „Búdda“ á Sleitustöðum eins langt og vegurinn náði sem var þá upp í Mánárskriður. Hann var að vísu ákaflega grófur svo að sá ágæti bílstjóri áræddi ekki að halda lengra. Ég man enn eftir umræðunni um Heljartröðina sem þá hafði nýlega verið rutt niður eða flött út að miklu leyti. Einhver í hópnum hafði heyrt að verkið hefði kostað heila milljón króna sem var svo stjarnfræðilega há upphæð í þá daga, að skilningur hins venjulega almúgamanns náði ekki að almennilega skynja hana eða setja í samhengi við neitt sem þekkt var úr hinu daglega lífi.

Þá er einnig sagt frá sæormi miklum sem á að hafa haldið til í Úlfsdalafjöru skammt frá Herkonugilinu. Á það að hafa verið Dala-Rafn afturgenginn, en hann fórst þegar hann gekk út á ís til selveiða ásamt sonum sínum og konu nokkurri árið 1636. Átti ormurinn að vera 150 faðma langur þó að aldrei væri hægt að sjá hann allan í einu, því báðir endar voru oftast úti í sjó en aðeins miðjan í fjöruborðinu. Hélt hann þarna lengi til og til eru frásagnir af honum allt til ársins 1880. Þó bar mönnum ekki alltaf saman um útlit hans, því sumir sögðu hann með eina kryppu, en aðrir tvær. Þá var líka sagt að hann líktist helst bát á hvolfi þar sem tveir menn hefðu komist á kjöl. Vildu þeir þá meina að báturinn væri Rafn, en synir hans tveir þeir sem á kjölnum voru.

Bæirnir á Almenningunum.

Það munu hafa verið sagnir um reimleika víðar á Siglufjarðarvegi, því svæðið sunnan við Mánárskriður og allt suður að Heljartröð nefnist Almenningar. Á öldum áður voru á þessu svæði þrjú býli sem nefndust Hrólfsvellir, Þúfnavellir og Fálkastaðir. Má enn sjá menjar fyrst nefndu býlanna en byggðasaga og staðsetning Fálkastaða er gleymd með öllu. Eina raunverulega heimildin um þann bæ er ævaforn staka sem Bólu-Hjálmar skráði.

Þar er fallegt fiskimið,
fyrir Siglfirðingum.
Fálkastaðir vaka við,
verið á Almenningum.

Unnið að vegagerð um Herkonugilið undir stjórn Gísla Felixsonar frá Sauðárkróki og Jóhanns Lúðvíkssonar frá Kúskerpi. – Ljósmynd: Hannes Baldvinsson.

Það mun enn móta fyrir túngarði Þúfnavalla en að öllum líkindum fór bæjarstæði Hrólfsvalla að einhverju eða mestu leyti undir vegstæði þegar Strákagöng voru gerð. Þar mun síðast hafa búið ekkja sem vildi ekki una öðrum að búa á jörðinni eftir sinn dag. Hún gróf hvalbein í jörð sína með þeim fyrirmælum að ekki skyldu aðrir geta hafist þar við eftir hana og þótti þar löngum reimt eftir að hún var öll.

Ævintýraleg ferð fyrsta bílsins sem fór landleiðina á Sauðanes.

Það var snemmsumars árið 1964 eða nánar tiltekið aðfaranótt 17. júní að hópur skáta frá Siglufirði undir forystu Jóns Dýrfjörð lagði upp í mikla ævintýraferð. Hugmyndin var að fara á bíl um Almenningana alla leið út að Sauðanesvita.

Leiðangurinn á hinni nýju Siglufjarðarleið sem var þó ekki nema ruddur slóði að hluta og vegleysur að hluta, á Fiat 600 bíl í eigu Njarðar Jóhanssonar. – Ljósmynd Jón Dýrfjörð.

Á þessum tíma var verið að leggja veginn um Almenninga frá Heljartröðinni að væntanlegum munna Strákagangna og stærstu og öflugustu jarðýtur landsins voru saman komnar til að ryðja þennan veg, meðal annars að fylla upp í Herkonugilið, sem var líklega mesta ófæran á þessum slóðum. Sverrir Páll Erlendsson var einn þeirra sem lögðu upp í þennan merkilega leiðangur og skrifaði um hann skemmtilegan pistil „Á HJÓLUNUM FÓR HANN MEÐ HJÁLP“ sem birtist á trolli.is í mars sl. Leiðangursmenn voru auk Sverris Páls og Jóns Dýrfjörð, Sigfús sonur hans, Jón Sigurðsson, Biggi Vilhelms, Ásgeir Jónasar, Jóhann Ágúst og Njörður Jóhanns.

Leiðangurinn kominn að Sauðanesi þar sem vitavarðafjölskyldan tekur á móti honum. – Ljósmynd Jón Dýrfjörð.

Gengið upp að Skrámuhyrnu.

Í júlímánuði árið 2011 lagði leið sína norður á Sigló lítill hópur áhugafólks um göngu í því skyni að ganga á Siglufjarðarfjöll. Þessi hópur hafði síðustu ár gengið á flest fjöll og hæðir á suðvesturhorninu, en hvert ár var lagt í leiðangur eitthvað lengra til og að þessu sinni var ég gerður að leiðangursstjóra. Hópurinn fór nokkuð víða um fjörðinn þá fjóra daga sem hann staldraði við og einn daginn var gengið upp að Siglufjarðarskarði þar er meðfylgjandi mynd tekin og upp á Illviðrishnjúk, en þaðan niður á Snók og svipaða leið til baka niður í Skarðsdalinn.

Gönguhópur starfsmannafélags Gámaþjónustunnar, Snorri, Edda, Kristjana, Magnús (Guðbrandsson) og Ingi Gunnar. – Ljósmynd: Leó R. Ólason.

Daginn eftir var gengið upp í Hvanneyrarskál, þrátt fyrir að skyggni væri takmarkað vegna þokunnar sem þéttist eftir því sem ofar dró.

Eftir svolítið nestisstopp í Gróuskarði var haldið af stað upp í þokuna áleiðis upp að Hvanneyrarhyrnu (640 m). Þaðan mátti grilla í Skrámuhyrnu til norðurs, en hún heitir eftir tröllskessunni Skrámu sem á að hafa búið í helli sínum í norðanverðum Engidal meðan hún var og hét eins og áður sagði. Þangað er stikuð leið og síðan áfram út á Strákafjall, en ekki var hún árennileg í þokunni.

Kristjana fetar sig eftir kaðlinum út á Skrámuhyrnu. Við hin horfðum á eftir henni hverfa inn í þokuna og þetta draugalega umhverfi. – Ljósmynd Leó R. Ólason.

Tröllsleg ásýnd hennar varð þó ekki til þess að hræða Kristjönu frá því að feta sig meðfram kaðlinum áleiðis að henni, en þarna fyrir norðan er landslag allt með því hrikalegra sem gerist í siglfirsku fjöllunum. Við hin fylgdumst með, en ekki höfðu aðrir löngun til að fylgja henni í þennan könnunarleiðangur.

En til að sýna þessa leið í björtu, þá er Haukur Þór Leósson að ganga þessa sömu leið meðfram kaðlinum sem komið hefur verið þarna fyrir. Neðan hans er svo hægt að horfa niður Selgilið, en það er býsna mikill bratti neðan við kaðalinn. – Ljósmynd Leó R. Ólason.

Líkamsleifar tröllkonunnar fundnar.
Upp undir Skálarbrúnum Engidalsmegin liggja þessir steinar sem myndin sýnir, og eru þeir farnir að sökkva nokkuð í jarðveginn. Með hæfilega frjóu ímyndunarafli má sjá fyrir sér líkamsleifar skessunnar Skrámu, og einnig geta sér til um endalok hennar. Þarna gæti hún hafa sest niður og horft yfir búsvæði sitt, en ekki gætt að því hve stutt var í sólarupprás. Kannski hefur hún dormað svolítið í blíðviðri síns síðasta dags, eða þá að hún hefur verið orðin gömul og sjóndöpur og því ekki séð að hverju stefndi. En eins og fjölmargar “heimildir” herma, þá þoldu tröllkarlar og kerlingar alls ekki sólarljósið.

Líkamsleifar Skrámu”. – Ljósmynd: Leó R. Ólason.


Við slíka uppákomu steinrunnu þau, en nærtækt dæmi um slíkt er auðvitað tröllaparið sem ekki náði að reka naut sitt yfir Skagafjörð meðan nótt var á. Á meðfylgjandi mynd virðist sem Skráma hafa setið á svolitlu barði þegar hún mætti örlögum sínum, en sigið við það aftur fyrir sig og lagst síðan út af. Fremst má vel sjá steingerfða og digra lærleggi hennar ásamt sköflungsbeinum, en neðarlega til vinstri eru þrír fingur hennar vel greinanlegir og nokkuð krepptir. Þá má greina brjóst hennar og höfuðbein uppi í horninu til hægri. Þar er engu líkara en að hún hafi snúið höfði sínu undan sólarupprásinni og horft í átt að helli sínum í andarslitrunum.

Látum þetta gott heita að sinni af Herkonugili, Dala-Rafni, fornum bæjum á Almenningunum, ótrúlegum leiðangri á Fiat 600, reimleikum bak við fjöllin háu og tröllskessunni Skrámu.

Heimildir: Þjóðtrú og þjóðsagnir. Oddur Björnsson prentari á Akureyri safnaði en Jónas Jónasson frá Hrafnagili bjó til prentunar, Lesbók Morgunblaðsins, Sverrir Páll Erlendsson,