Í lok nóvember 2017 fékk Héraðsskjalasafn Fjallabyggðar afhentar 5 bækur sem áður voru í eigu Jakobínu Svanfríðar Jensdóttur Stæhr. Jakobína var lengi ljósmóðir hér og var hún þekkt fyrir áræðni og dugnað. Frásagnir um hana má meðal annars lesa um í bók sem út kom árið 1948, nefnist hún Íslenskar kvenhetjur og segir titill bókarinnar meira en mörg orð. Líka má finna umfjöllun um þessa merku konu á vefsíðunni http://skidasaga.fjallabyggd.is/is/moya/page/skidasaga_siglufjardar__19._oldin
Jakobínu er einnig getið í bókum Sigurjóns Sigtryggssonar, Frá Hvanndölum til Úlfsdala og bók Þ. Ragnars Jónassonar, Mörg læknuð mein. Þar segir m.a. að Jakobína hafi fæðst árið 1867 og hún tók ljósmóðurpróf aðeins 19 ára gömul. Til Siglufjarðar kom hún 23 ára. Hún var ljósmóðir í hreppnum allt til 1928. Hún var hún heiðruð fyrir störf sín og samþykkti bæjarstjórnin að greiða henni eftirlaun sem þakklætisvott fyrir vel unnin störf.
Einn af niðjum Jakobínu átti stórafmæli núna 13. ágúst 2018 og af því tilefni fannst okkur við hæfi að segja frá þessari merku bókargjöf ásamt því að nefna að fyrir 22 árum síðan eða árið 1996 afhenti þessi sami aðili bókasafninu að gjöf átta bækur, einnig frá Jakobínu og var hann af og til að koma og athuga hvort starfsmenn hefðu nokkuð fundið bækurnar.
Meðal þessara bóka má meðal annars finna Vídalínspostillu prentaða á Hólum 1771 og er hún merkt séra Jóni Konráðssyni á Mælifelli. Bækur Jakobínu sem flestar eru trúarrit hafa nú verið skráðar í héraðsskjalasafnið og varðveittar þar. Elsta bókin er frá árinu 1718. Af þessum 13 bókum eru 4 frá því á 18. öld og 6 eru frá fyrri hluta 19. aldar. Ein af bókunum er bundin í skinn og er án árs.
Frétt: aðsend
Myndir: Kristín Sigurjónsdóttir