Suð-suðaustan hvass vindur, frá 12 og upp í 24 metra á sekúndu og hiti 9,6 stig – mátti lesa af veðurstöðinni á Saurbæjarási sunnudaginn 21. mars, milli klukkan þrjú og fjögur. Einnig voru þar upplýsingar um veghita og loftraka.
Þá voru meðfylgjandi myndir teknar.

Veðurstöðin á Saurbæjarási

Þessi nýja veðurstöð Vegagerðarinnar er mjög kærkomin og mörgum vegfarendum mikilvæg vegna erfiðra veðurskilyrða sem skapast stundum á þjóðveginum yfir Saurbæjarás. Raunin er sú að þarna virðist stundum í norðanáttum verða hið mesta veðravíti á stuttum kafla. Einn þeirra sem fagnar því að geta stöðugt fylgst með veðuraðstæðum á Ásnum er Guðmundur Skarphéðinsson bílstjóri sem keyrir skólabörn milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar allt að átján sinnum á dag.


„Það var lífsnauðsynlegt að fá þessa veðurstöð setta upp.“

Reyndar segist hann heldur hafa kosið að stöðin væri neðar eða rétt sunnan við kirkjugarðinn en þar verða vindstrengirnir hvað harðastir þvert yfir veginn. En hvað sem öðru líður þá er full ástæða til að þakka Vegagerðinni fyrir þessa mikilvægu þjónustu.

Það er svo annar handleggur hvað veðurstöðin er nefnd á heimasíðu Vegargerðarinnar; en það er „Hólshyrna“. Margir undrast þetta.

Hólshyrna rís þarna í grennd upp í 667 metra hæð og þar eru veður að jafnaði allt önnur en á þjóðveginum. En hversvegna gat veðurstöðin ekki einfaldlega heitið „Saurbæjarás“?

Veðurstöðvar Vegagerðarinnar í kringum Siglufjörð heita flestar eftir sínum stöðum: Stafá, Herkonugil, Héðinsfjörður, Ólafsfjarðarmúli, Hámundastaðaháls.

Ef veðurstöð yrði sett upp við skíðasvæðið í Skarðsdal skyldi hún fá nafnið Illviðrishnjúkur? Eða Leyningssúlur yrði nafnið á golfvellinum í Hólsdal?
Nei, varla!

Mikilvægt er að við virðum 1.000 ára örnefnahefðir okkar – á vefsíðunni snokur.is er fræðsla um 1.300 nöfn í gamla Siglufjarðarumdæmi.

Vonandi sér Vegagerðin sér fært að leiðrétta nafngiftina.


-ök