(ATHUGIÐ: Ef þú lesandi góður villt stækka myndirnar er best að fara beint inn á sjálfa heimasíðuna gegnum trolli.is.
Ef smellt er á greinina í gegnum Facebook grúppur verður það oft vandamál að geta ekki stækkað myndirnar.( JOB)
Í seinni hluta sögunnar um okkar horfnu ævintýra heima skulum við byrja á að minnast á ýmislegt annað sem við vorum að gera þegar við vorum ekki leika okkur akkúrat þarna í fjarðarbotna Paradísinni.
En ég man vel eftir að bænum var skipt upp í valda og yfirráðasvæði eftir gamalli hefð sem eflaust breyttist eitthvað á milli áratuga.
En eftir að hafa sótt minningarráðgjöf hjá Leó Óla þá vorum við nokkuð sammála um að svæðaskiptin frá suður til norður voru nokkur veginn svona:
“Suðurfráguttar, Brekkuguttar, Óla Gosar, Reiturinn, Eyrin, Villimannahverfið og Bakkaguttar.”
Svo voru til allskonar klikkaðir smáklíku hópar sem létu ekki stjórna sér af neinum.
Já… og eitthvað rámar mig líka í að einhverjir kölluðu sig Húna…..
Og Leó styrkir það í skemmtilegri sögu sem hann kallar:
Svívirðilegt kosningasvindl á Siglufirði.
“Hér á árum áður ríkti oft hálfgert styrjaldarástand í fjallinu fyrir ofan bæinn. Þetta voru átök á milli hverfa og oftast áttu í útistöðum þeir sem áttu heima sitt hvorum megin við kirkjugarðinn, og tilheyrðu því ýmist norður eða suðurhluta bæjarins. Þó kom það ósjaldan fyrir að norðurbæingar komu lengra að til að berja á okkur “brekkuguttunum.”
“Villimennirnir” bjuggu í villimannahverfinu sem var umhverfis en þó aðallega fyrir norðan fótboltavöllinn. Þeir voru skeinuhættir og að okkar mati alveg stórhættulegir, og blönduðu sér oft í slaginn í fjallinu.
Það var um þetta leiti að við Steini Þóroddar urðum miklir mátar og eitt sinn á löngu spjalli datt okkur í hug það snjallræði að sameina “brekkuguttana” og ”suðurfráguttana” sem bjuggu í syðsta hluta bæjarins. Þetta yrði líklega illvígur her vaskra drengja sem gæti hreinlega vaðið yfir allt og alla, en fyrst þurfti að finna gott nafn á hið sameinaða afl. Það var góður og jákvæður mórall fyrir þessari hugmynd og margir strákar í báðum hverfum vildu efna til mikils ófriðarbáls hið allra fyrsta.
Við settumst yfir málið og skrifuðum niður tíu eða tuttugu hugmyndir á blað sem við rifum úr gamalli stílabók.
Mér fannst “Húnar” best og Steini var sammála því. Við urðum því ásáttir um að reka harðan áróður fyrir því að það yrði fyrir valinu.
Við báðum síðan alla strákanna sem urðu á vegi okkar næstu daga að setja kross við eitthvert nafnið á blaðinu en helst Húna því það væri langbest og flestir kysu það. Það voru líka einhverjir sem áttu ekki upp á pallborðið hjá okkur og þeim var að sjálfsögðu ekki boðið að kjósa.
Svo fór einhver auli að reka áróður fyrir öðru nafni á blaðinu, “Skæruliðarnir” og það kom alveg heill hópur til okkar sem vildi breyta atkvæði sínu og sögðu að það væri miklu betra nafn. Við tókum þessu vel í byrjun og krotuðum eitthvað á blaðið. Þegar við töldum að allir þeir sem máli skiptu væru búnir að kjósa var farið að telja krossana á blaðinu.
Kom þá í ljós að þegar breyttu atkvæðin voru talin með var ljóst að “Skæruliðarnir” höfðu unnið kosningaslaginn með glæsibrag.
Steini var svolítið niðurdreginn en bjó sig undir að sætta sig við orðinn hlut. Ég spurði hann þá hvort hann héldi að það mætti greiða atkvæði og koma svo aftur og kjósa upp á nýtt.
Steini sagðist geta spurt pabba sinn, því hann væri mjög vanur svona málum.
Daginn eftir varð málið allt flóknara. Steini fór að tala um atkvæðaseðla, kjörkassa og að þetta hefði meira verið svona skoðanakönnun sem við hefðum kannski ekki framkvæmt alveg rétt. Svo minntist hann eitthvað á áróður á kjörstað hvað sem það nú annars þýðir.
Þetta var bara komið út í eitthvað óskiljanlegt rugl sem enginn skildi og ég beið ekki eftir að Steini lyki máli sínu.
“Eigum við ekki bara að segja að Húnar hafi unnið?”
“Segjum bara að Húnar hafi unnið.” Steini var sammála.
Þetta var einföld og góð lausn og allflestir þeir sem nú eru komnir eru til vits og ára muna líklega eftir þessum ógurlega flokki.
En kannast einhver við umræðuna um þetta asnalega Skæruliðanafn í dag?
Líklega ekki? “
Tja… Leó… Ég man bara eftir þessu flotta Húna sameiningarnafni.
Við suðurbæjar börnin vorum oft við leik uppi í fjalli við að byggja grjótaþorp ofan við Vatnstankinn gamla, búa til vopn og undirbúa bardaga við nágranna okkar… oftast við Brekkuguttana. (Fyrir sameiningu)
Þetta leiksvæði er nú horfið undir snjóflóðavarargarða.
Þessi uppskipting gilti líka um vetur og þá aðallega í brennusöfnunar keppnunum miklu fyrir áramót. Það voru oft 4 ef ekki 5 áramótabrennur sum árin í þessum litla bæ.
Við suðurbæingar vorum oftast með þá stærstu á Leirutanganum en það var vegna þess að bærinn hjálpaði okkur að sækja gamla nótabáta suður á Langeyri og saga þá í sundur í miðjunni reisa þá upp og við krakkarnir fylltum svo upp á milli. Þarna brunnu upp margir nótabátar og aðrir gamlir bátar ár eftir ár sem hefðu getað sóma sér vel á Síldarminjasafni Íslands í dag.
Það gat verið mikil harka í þessum bardögum en samt einhverskonar óskrifaðar reglur um að það væri nú alla veganna bannað að drepa hvorn annan. Ég man sérstaklega eftir einum blóðugum bardaga sem átti sér stað í fjallinu fyrir ofan Seljaland en í þetta skiptið ætluðu sameinaðir Húnar að gera út af við Villó og Bakkagutta í eitt skipti fyrir öll…. man ekki út af hverju… líklega eitthvað í sambandi við kæjaka þjófnað.
Fyrir utan að kasta grjóti og eggjum á hvern annan voru menn með teygjubyssur, túttu-byssur, spjót, ör og boga og sumir voru jafnvel með loftriffla með litlum píluskotum í.
Þessi bardagi dróst á langinn og ekkert gekk í að kála hvor öðrum en svo man ég vel eftir að allt í einum sló það mig að ég og nokkrir aðrir hernaðarbandalagsvinir sem og slatti af andstæðingunum áttum að mæta á fótboltaæfingu á malarvellinum eftir hálftíma.
Við hlupum heim og skiptum um galla og mættum síðan sem liðsfélagar og vinir án þess að minnast einu orði á þennan óuppgerða bardaga.
Á milli stærri bardaga var lagst í allskyns skæruhernað og leynilegar hefndaraðgerðir og sumt af því sem ég tók þátt í þori ég ekki að viðurkenna enn í dag.
Sjóorustur voru háðar líka á kæjökum annars lagið og þá voru sumir með 4 tommu slípaða nagla í stefninu og svo var bara siglt á hvern annan á fullri ferð.
Ég fékk einmitt einn svona í gegnum byrðinginn og á kaf í lærið á mér… mjög vont en ekkert rosalega hættulegt.
Kæjakatúrar og ævintýragöngur
Við skulum byrja á kíkja á gamla ljósmynd frá 1965 sem sýnir ævintýrasvæðið okkar og helstu staðarheiti.
Á myndum hér undir og ofan er hægt að sjá hvað þetta svæði hefur breyst mikið. Við sjáum sanddæluskip sem er að dæla sandi í verðandi flugvöll og seinna þegar hann varð lengdur þá hvarf mikið af Ráeyrinni undir hann, meðal annars hús og múrar og aðstaða hestamanna líka. Ásamt því að árós Skútuá hverfur af svæðinu og er beint í norður og nær nú hafi rétt við Skoger skipaflakið fræga.
Siglfirðingurinn og sögumaðurinn mikli Leó Óla var einmitt að minnast á þetta svæði fyrir stuttu síðan með eftirfarandi orðum:
“Í dag er Ráeyrin ekki til í þeirri mynd sem ég kynntist á mínum uppvaxtarárum, því hún var flött út að stórum hluta þegar nýi flugvöllurinn var lengdur. Þá hurfu margar minjar og mannvistarleifar sem lifa þó enn í minningu þeirra sem áttu leið um þetta leiksvæði liðinna tíma.
“Ótal margt fleira mætti rifja upp um Ráeyrina frá þessum gamla og góða tíma og þá sem tengdust henni. Maggi á Ásnum og Lukka SI með 4 ha. sólóvélinni, Holli Dýrfjörð með hænsnabúið í stóra niðurnídda húsinu, Bjartur og Petra Landmark að taka á móti tveggja og/eða fjögurra sæta Cessnum og fleiri vélum sem lentu á flugvellinum sem sást ekki milli endanna á þar sem hann var svo miklu hærri í miðjunni. Sumarbústaðurinn hans Kristfinns, Skátahúsið uppi á Saurbæjarásnum, litli ljósvitinn sem stendur núna við Síldarminjasafnið, Steinkerin úti á leirunum sem bar við gömlu öskuhaugana, tunnuflutningaskipið Skoger enn með aðra síðuna uppistandandi og leifar af undirstöðum undir stýrishúsið, kajakræðarar á ferð í innfirðinum og svo mætti lengi telja.“
Góð stígvél var besti skóbúnaðurinn í okkar á ævintýraferðum hvort sem ferðir voru farnar á tveimur jafnfljótum eða á kæjökum því þetta er mjög blautur heimur.
Við þurftum oft að vaða yfir t.d. mýrafláka, “kúkalæki” og sandbotnaleðju.
Á milli þess sem verið var að byggja kæjaka, kofa, fleka og bryggjur var skroppið í kæjaka og göngutúra þegar veður leyfði og ef við t.d. ætluðum “yfrum” á Ráeyri eða upp í Efri Skútu þá var oftast einfaldast að ganga þvert yfir fjörðinn á háfjöru.
Þarna “fyrir handan” voru mörg dularfull yfirgefin og hálfbrunnin hús. Við stóra húsið á Efri-Skútu man ég vel eftir einkennilegum tröppum sem virtust leiða niður í vatnsfylltan dularfullan kjallara og við reyndum einhvern tíma að ausa upp vatninu en það gekk ekkert þrátt fyrir að ímyndunaraflið og forvitnin ræki okkur áfram, hef heyrt seinna að þessar tröppur voru bara inngangurinn í fjósið sem var sambyggt íbúðarhúsinu á sínum tíma.
Á Ráeyrinni stóð svart hálfbrunnið hús sem við þorðum varla að fara inn í því þar bjó danskur einhentur sjóræningja draugur með stóran krók og einhvern veginn hafði þessum einhenta draugi tekist að hlaða risastóra steinmúra og þeir pössuðu vel í Prins Valíant riddaraleiki.
En í rauninni var sannleikurinn allt annar!
Á ljósmyndasafi Siglufjarðar fylgir eftirfarandi texti með þessari mynd:
“Þetta er Aage Nörgaard, verkamaður við virki sitt Norðurgarður á Siglufirði, hús hans í bakgrunni.
Hús sem hann kveikti í þegar hann flutti heim til Danmerkur, en bænum var boðið að kaupa eignina, sem var afþakkað.
Þessi maður var dugnaðarforkur, vann hjá SR, seldi hænuegg, kjúklinga, ýmsa garðávexti meðal annars. Þrátt fyrir að hafa haft gervihönd á hægri handlegg lét Aage ekkert aftra sér.
Eldri Siglfirðingar minnast þess, þegar þeir voru guttar og hnupluðu sér rófum í garði Nörgaard, að þeir hefðu aldrei smakkað betri rófur. Eins minnast þess margir þegar mæður þeirra keypt egg hjá karlinum og hann hengdi þá fötuna með eggjunum á krókinn á gervihendinni”
Það gerðist endrum og eins þegar við vorum að þvælast þarna að einsetumaðurinn elskulegi Maggi á Ásnum (á Árós) bauð okkur í heimsókn í fallega gróðurríka garðinn sinn, hann var mikið náttúrubarn og vissi allt um tré, blóm og grænmeti og svo minnti hann okkur á að sýna fuglunum sem verptu þarna út um allt virðingu því flestir af þeim voru fallegir langfara sumargestir.
Að skreppa suður á Langeyri var svolítið eins og að fara í sumarfrí á sólarströnd í góðu veðri. Sumarbústaðirnir voru gamlir snurpunótabátar á hvolfi í langri röð og svo var gömul sundlaug þarna líka sem við reyndum að fylla með mýravatni en þessi útisundlaug var öll hálfbrotin og skökk og full af mosa og slýi.
Á leiðinni “suðureftir” heilsuðum við kannski upp á lömbin i rollukofanum hans Helga Dan og svo töldum við smokka í öllum opnu klóak lækjunum á leiðinni líka eða svo skelltu við okkur bara í stuttan fótboltaleik á mjög svo hallandi túnvelli fyrir neðan Laugarveginn.
Málverk eru rétt eins og ljósmyndir heimildir um horfin tíma og þessi ljósmynd er lánuð frá sjálfum mér úr greina seríunni um Hebba málara en þar er fjöldin allur af dásamlegum Siglufjarðar málverkum.
Að róa upp Hólslánna eins langt og maður komst var mjög gaman og svo veiddi maður kannski silung í soðið svona í leiðinni og svo skemmtileg salíbuna á niðurleið.
Kannski stoppuðum við smá stund við Álfhól, til rannsaka hann vel og vandlega og við vorum með plön um að grafa okkur inn í þennan hól því líklega var þetta grafhaugur Þormóðs Ramma og allt hans gull var falið þarna.
Það hafði nú reyndar einhver byrjað á því… það var dágóð hola þarna uppá toppnum en við þorðum aldrei að framkvæma þennan leikdraum.
Af hverju ekki ? Halló… þetta er alvöru ÁLF-HÓLL.
Það var dásemdin ein að róa inn í mýraflákann austan við flugvöllinn, (sem heitir víst “Saurbæjarkrílar” hafa fróðir aðilar upplýst mig um) ótrúlega spennandi náttúruperla, við læddumst þarna um á hljóðlátum kæjökum og horfðum bara á fuglana og veiddum síli og svoleiðis.
SKOGER
Allar staðreyndir um Skoger og af hverju hann er þarna og. fl. er hægt að lesa í heild sinni með ljósmynd af Skoger nýsmíðuðum og alles í góðri grein eftir Siglfirskra fræðimanninn Jónas Ragnarsson en hún heitir Skoger á Skútufjöru.
Er þar kemur meðal annars fram að í ágúst 1936 gerðist eftirfarandi atburður sem gaf mér og öðrum þetta ævintýraskipsflak.
“Eldur um borð”
“… Laust eftir klukkan átta að kvöldi þessa dags kom skyndilega upp eldur í einu norsku skipanna úti á höfninni. Það hét Skoger og var um 580 brúttótonn að stærð. Skipið hafði komið til Siglufjarðar tveimur dögum áður. Í því voru um 2000 tunnur af síld sem söltuð hafði verið um borð, 500 tómar síldartunnur og 500 tunnur af salti. Í olíugeymum skipsins voru 8 tonn af olíu (sumar heimildir nefna 30 rúmlestir) og auk þess voru í skipinu átta föt af smurolíu….”
“..Skipshöfnin vann að því að koma tunnum í farmrúm skipsins þegar tilkynnt var að eldur hefði brotist út í vélarrúminu, aftarlega í skipinu. „Gengu þá allir að því að reyna að slökkva, en eldurinn magnaðist brátt svo eigi varð við neitt ráðið,” sagði í fréttum Útvarpsins, samkvæmt samtali við Bjelkevik, útgerðarmann skipsins…”
“…Þegar ljóst var að ekki varð ráðið við eldinn dró norska skipið Vesterhavet skipið upp í fjöru austan fjarðarins, til að koma í veg fyrir að það sykki á höfninni og hindraði skipaumferð. Þar hélt skipið áfram að brenna. Bálið var svo mikið að það „lýsti upp alla höfnina,” eins og það var orðað í Alþýðublaðinu. Eldur logaði í skipinu í nokkur dægur, samkvæmt blaðafréttum, og það brann að mestu…”
Þetta brennda strandaða dularfulla skipsflak var minn uppáhalds ævintýrastaður, það var alveg einstaklega gaman að geta róið á kæjak inn í skrokkinn á háflóði og klifra svo út um allt í þessum sjóræningja brunarústum.
Í 7 kafla söguseríunnar Göngutúr um heimahaga, 7 hluti, SIGLFIRSKT ! 80 myndir er ég að einmitt að fara með bull og steypu sem hefur að gera með það sem ég nefndi áður að stundum býr maður sér til barnalegan sannleika af því að hann passar svo vel inn í þessa barnaleiks heildarsviðmynd.
Hér er ég að halda því fram að “draugurinn í Gránu” væri skiplíknesið af Skoger sjóræningjaskipinu.
“….. stóra fjögra hæða timburhús var “draugahús” í ævintýraheimi barna og unglinga bæjarins og það var mikið “manndómspróf” að þora að fara einn í myrkrinu upp á 4 hæð og ganga alla leið að Skóger skipslíknesinu sem var heygt á hálsinum þarna uppi, yfirleitt voru þeir eldir búnir að fara á undan og fá líkneskið í sveiflu áður en maður kom upp. Lögreglan komst að þessum leik og líkneskið stóð lengi í kjallaranum á lögreglustöðinni áður en Örlygur bjargaði því til sín suður í Síldarminjasafn.”
Fyrst fannst þér þetta ferlega leiðinlegt að draugurinn í Gránu væri ekki skiplíkneskið af Skoger en núna þegar ég veit hvað hann heitir og hver hann var í rauninni þá verður þetta bara einn þá skemmtilegri saga.
Stafnlíkneski TORDENSKJOLDS
“Tordenskjold, eða skrokkur þessa fyrrum glæsiskips danska flotans, var notaður sem birgðaskip hér í síldarhöfninni á öðrum og þriðja áratug 20. aldar. Gamall og þreyttur skipsskrokkurinn var dreginn yfir hafið og gengdi heldur snautlegu hlutverki fyrir grútartunnur og endaði síðan á sjávarbotni í Hvanneyrarkróki líklega seint á fjórða áratugnum.”
“….Þar var hann hlaðinn grjóti og sökkt til að þjóna nýju hlutverki sem bryggjuhaus fyrir söltunarstöð hins danska Sören Goos. Sú áætlun mun hafa runnið út í sandinn í hörðum vetrarbrimum sem afmáðu sýnileg merki um skipið. Einhvers staðar þarna á sjávarbotni liggja skrokkleifarnar og á síðustu 10 árum hefur borið æ meira á óvenjulegum harðviðarplönkum sem rekið hafa upp í fjöru Hvanneyrarkróks og álitið er að séu úr Tordenskjold….”
Heimildir: Örlygur Kristfinnsson, Gengið á fornan reka.
En hvað hét þá draugurinn í Gránu?
Jú… hann er nú reyndar ekki hver sem er og hann heitir:
Peter Wessel Tordenskjold “….sem skipið hét eftir, var frægur aðmíráll í danska flotanum snemma á átjándu öld. Flestir þekkja Tordenskjold gamla af eldspýtnastokkum sem hafa verið í notkun á síðustu áratugum…” (ÖK)
Og hér er hægt að skoða hann í bak og fyrir í skemmtilegri 3 víddar mynd.
Þessi Norsk/Danski Peter Wessel Tordenskjold er kannski stór sjóorustuhetja í “Norge og Danmark” en hér í “Sverige” þar sem ég bý er hann bara uppblásin grobbhani sem vann einhverja ómerkilega orustu á þeim tíma sem þessi tvö lönd sameinuðust í að ráðast á Svíþjóð.
En það verður að viðurkennast að þetta var skemmtilegur og stórmerkilegur karakter og það kemur vel fram í þessari “næstum sönnu” kvikmynd frá 2016. Ég mæli eindregið með henni, virkilega skemmtileg.
En það er enn þá “sjávardraugagangur” í kringum Tordenskjold hér á Sigló, því það flýtur upp annars lagið spýtnabrak úr þessu merkilega flaki. Og svo víst löngu búið að finna þessa votu gröf líka.
Sjá fræðandi grein hér: Tordenskjold fundinn.
EVANGER Rústirnar
“…Þann 12. apríl 1919 féll gríðarlegt snjóflóð af brúnum Staðarhólshnjúkanna nærri 1000 metrar á breidd og gjöreyddi mannvirkjum Evangersbræðra, húsum og bryggjum. Níu manns biðu bana í snjóflóðinu.” (ÖK) 90 ár liðin frá snjóflóðunum miklu
Sjá einnig nánar hér: Mannskæðra snjóflóða minnst
Hér er hægt að sjá margar fallegar ljósmyndir frá Evangersvæðinu sem nafni minn Jón Hrólfur “Siglfirðingur” Baldursson tók 2015. Evanger verksmiðjan gamla.
Evanger verksmiðjurústirnar var spennandi leiksvæði og oftast var betra að fara gangandi þangað því ef róðið var á kæjökum þá blasti það við öllum fullorðnum augum í bænum.
Fyrir utan sjálfar rústirnar með sína merkilegu sögu sem við þekktum var fjaran þarna einstaklega skemmtileg með steinmúra sem náðu fram í sjó.
Svo var þarna fullt af rauðum múrsteinum sem var skemmtilegt byggingarefni fyrir okkur krakkana.
Stundum gengum við líka alla leið út í “Vitavík” og upp að litla Kálfsdalsvatninu.
Þetta er dágóður dagstúr og man ég eftir að við urðum stundum svöng á leiðinni og þá suðum við okkur bara krækling í ryðgaðri málningardós sem hafið rekið í land í Vitavíkinni.
Svona voru þessir sumardagar okkur stanslaust ævintýri, alltaf eitthvað nýtt í gangi daglega.
En það komu ekki bara krakkar og kæjakar í Evangerfjöruna.
Og það virðast vera einhvern álög á þessum stað því togarinn Hafliði strandaði þarna líka.
Að lokum.
Flekinn Prins Valíant
Að lokum má nefna að mitt síðasta ævintýrir tengt Leirutanganum gerðist þegar ég var orðin 15 ára en þá fengu við nokkrir félagar, (flestir eldri ég) fyrir okkur að við myndum byggja risastóra fleka. Hugmynd sem líklega kom upp úr lestri bóka um Stikilsberja Finn.
Það fór allt sumarið í þessa flekasmíði enda varð hann 6.M X 2,5.M með upphækkuðu stefni, mastri og stýri. Verkið tafðist því við vorum allir í fullri sumarvinnu líka og sumir hluthafar uppteknir við að taka bílpróf og aðrir þurftu líka að skreppa í tveggja vikna togaratúra og svoleiðis óþarfa.
En í sumarlok var allt klárt og komið að sjósetningu sem ekki gekk svo vel því Prins Valíant eins og hann var skírður var svo níðþungur og óþjáll á landi… en okkur tókst að lokum að drösla honum í sjóinn.
Flekkinn flaut vel og var bara nokkuð stöðugur en þungur og óþjáll til siglinga með eða án segls, það var einna best að bara stjaka honum áfram eins og við gerðum þegar við sigldum á ísjökum þarna suður á pollinum okkar góða.
Svo misstum við áhugann á þessu og gáfum okkur alla í allskonar táningavandræði sem við vorum duglegir við að skapa sjálfir.
Flekanum flotta var lagt austur á endanum á Leirutanganum og síðan gleymdist hann og svo hvarf hann í einhverju stórstreymisflóðinu um haustið.
Næsta sumar kom stutt grein í einhverju bæjarblaði fyrir vestan um að undarlegur og stór útlenskur fleki með nafninu Prins Valíant hafi rekið í land og nú urðum við flekafélagar nokkuð stoltir yfir að hann hefði siglt svona langt sjálfur.
En hugsið ykkur strákar við hefðum getað siglt sjálfir á ball í Bolungarvík…..
Hmm… hef ég gleymt einhverju…. Tja… Örugglega.
Ef svo er þá er það nú reyndar meining mín með þessum skrifum að ýta ykkur lesendum úr vör í eigin kæjaka og minningargöngutúra í þessum horfna ævintýraheimi og þið bætið við þeim minningum svo bara við sjálf með hjálp frá gömlum leikfélögum.
HORFIN ÆVINTÝRAHEIMUR: SKOGER, EVANGER, TORDENSKJOLD… OG ÉG! 1. HLUTI
Sérstakar þakkir fyrir hjálp við að ná þessu öllum saman vill ég senda til:
Steingríms Kristins, Leó Óla, Örlygs Kristfinns og Anitu Elefssen sem og til allra sem gáfu mér leyfi til að nota myndefni frá þeim þeim sjálfum sem og látnum ættingjum.
Lifið heil og bestu kveðjur
Nonni Björgvins.
Texti og samantekt:
Jón Ólafur Björgvinsson
Ljósmyndir: Ljósmyndasafn Siglufjarðar, og ýmsar aðrar ljósmyndir og textar eru birtar með leyfi eigenda og er vísað í þær allar í gegnum slóðir í greininni.
Forsíðuljósmynd: Elísabet Vilborg Jónsdóttir.
Aðrar sögulegar greina eftir Jón Ólaf Björgvinsson finnur þú hér á trolli.is.