Dagana 18. og 19. maí stendur nemendum á miðstigi til boða að læra skapandi skrif hjá Þorgrími Þráinssyni rithöfundi.

Kennslan fer fram milli kl. 9:20-11:20 í sal Sigló Hótels. Námskeiðið er í boði Róberts Guðfinnssonar og eiga nemendur val um það hvort þeir sækja námskeiðið eða taka þátt í hefðbundnu skólastarfi.  

    Lestur, aukinn orðaforði, skilningur og tjáning (LÆSI) getur haft mikil áhrif á sjálfsmynd einstaklinga, eins og rannsóknir sýna. Það að taka þátt í skapandi skrifum snýst ekki um að reyna að búa til rithöfunda heldur sýna fram á hvers megnugir nemendur geta orðið – ef þeir hafa trú á sér.  

    ,,Ég hef margoft haldið námskeið í skapandi skrifum og í kjölfarið hafa nemendur sprett úr spori inn á bókasafn til að ná sér í þær bækur sem ég vitnaði í,“ segir Þorgrímur Þráinsson sem hefur sent frá sér 38 bækur. 

    Á námskeiðinu segir Þorgrímur frá því hvernig hann skapar persónur, spinnur söguþráð, heldur uppi spennu og hann kennir í raun öll trixin í bókunum. Í kjölfar þess setur hann nemendum fyrir ólík verkefni; skrifa sögu, rifja upp eftirminnilegar æskuminningar eða fljúga um tíma og rúm. Undir lokin stendur nemendum til boða að lesa það sem þeir skrifuðu. Slíkt þjálfar nemendur í framkomu og eflir sjálfstraustið. 

Þriðjudaginn 19. maí flytur Þorgrímur fyrirlesturinn Verum ástfangin af lífinu í  sal Sigló Hótels  fyrir íbúa Fjallabyggðar kl. 18:00  

Fyrirlesturinn ”Verum ástfangin af lífinu” varir í um 50 mínútur og fjallar um mikilvægi þess að bera ábyrgð á sjálfum sér, leggja sig fram daglega, ekki kenna öðrum um. Auk þess fjallar Þorgrímur um sterka liðsheild landsliðsins í fótbolta, sem við öll getum lært af en hann hefur unnið með liðinu í 13 ár. ,,Litlir hlutir skapa stóra sigra.“ 

Róbert Guðfinnsson býður íbúum Fjallabyggðar upp á ofangreinda dagskrá. 

Mynd: Wikipedia