Siglfirðingurinn Rakel Fleckenstein Björnsdóttir hefur opnað nýja síðu á Facebook sem heitir “Hormónajóga“. Rakel er fyrsti íslenski jógakennarinn til að nema þetta ákveðna jóga sem beinist sérstaklega að innkirtlastarfsemi líkamans.
Á síðunni verður að finna fróðleik úr smiðju Brasilíska jógakennarans Dinah Rodrigues en Rodrigues, sem er höfundur hormónajóga, hefur þróað ákveðna aðferðafræði sem hefur reynst konum með ójafnvægi á hormónastarfseminni afar vel, sér í lagi konum á breytingaskeiði. Auk fróðleiks um jóga og breytingaskeiðið mun eiginmaður Rakelar, ljósmyndarinn Thomas Fleckenstein, sýna ljósmyndir á síðunni.

Eiginmaður Rakelar, ljósmyndarinn Thomas Fleckenstein mun sýna ljósmyndir á síðunni

Rakel verður með námskeið fyrir konur í Fjallabyggð í SR-salnum á Siglufirði helgina 6.- 7. október og eru örfá pláss laus. Áhugasamar hafi samband við rakelbj@simnet.is.

Hvað er hormónajóga?
Hormónajóga er náttúruleg aðferð sem notuð er til að koma jafnvægi á hormónakerfið í líkamanum með því að örva kirtlana sem framleiða hormónin og seyta þeim síðan frá sér.
Aðferðafræðin er þróuð af brasilíska sálfræðingnum og jógakennaranum Dinah Rodrigues en aðferðir hennar byggja á áratugareynslu af jógaiðkun og kennslu og rannsóknum tengdum lífeðlisfræði. Dinah Rodrigues hefur þróað þrennslags hormónajóga: hormónajóga fyrir konur við tíðahvörf og fyrir konur með ójafnvægi á hormónastarfseminni, streitulosandi hormónajóga fyrir karla og hormónajóga fyrir sykursjúka.

 

Rakel Fleckenstein Björnsdóttir og jógakennarinn Dinah Rodrigues

Hormónajóga samanstendur af: Jógastöðum (Asanas), öndunaræfingum (Pranayamas), sjónsköpun (visualization), jóga nidra (jógískur svefn), bandhas (sérstakir líkamslásar), mudras (ákveðin staða handa) og tíbetskum fræðum til að stýra orkuflæði. Einnig er lögð áhersla á æfingar sem draga úr streitu.

Hormónajóga hefur áhrif á bæði líkamlegt og andlegt atgervi og skilar skjótum og góðum árangri.
Hormónajóga fyrir konur hefur góð áhrif á: • Tíðahvörf/Breytingaskeiðið • Tímabilið fyrir tíðahvörf • Ótímabær tíðahvörf • Minnkaða kynhvöt • Þvagleka • Svefnleysi • Tilfinningalegan óstöðugleika • Fyrirtíðaspennu (PMS) • Beingisnun • Blöðrur í eggjastokkum (Ovarian cyst) • Hægan skjaldkirtil (Hypothyroidism) • Fjölblöðrueggjastokkaheilkenni (Polycystic ovaries) • Carpal tunnel syndrome (sjúkdómur á úlnlið) • Þurra húð, hárlos og brotnar neglur.

 

Frétt og myndir: aðsent